Ólafur R. Dýrmundsson
Upp úr 1970 varð, víða um heim, vakning í lífrænni ræktun og ýmiss konar búskap tengdum henni. Skuggahliðar efna- og lyfjavædds landbúnaðar voru að koma æ betur í ljós, einhæf og þéttbær ræktun lands var farin að skaða umhverfið og verksmiðjubúskapur með búfé sætti vaxandi gagnrýni, m.a. vegna skertrar velferðar dýranna. Margir stjórnmála- og vísindamenn um allan heim lofuðu neytendum ódýrum matvælum, hvað sem það kostaði, og enn lifir sú dýra blekking góðu lífi í hinum harða heimi markaðshyggjunnar, sbr. hérlenda umræðu um innflutning matvæla. Alþjóðasamtök lífrænna bænda, IFOAM, The International Federation of Organic Agriculture Movements, voru stofnuð 1972. Þau hófust þá handa við samningu framleiðslu- og vottunarreglna, beittu sér fyrir kynningu á lífrænni ræktun við margvíslegar aðstæður og komu upp virku félagslegu samskiptaneti um allan heim.
VOR – aðdragandi að stofnun félagsins
Lífræna vakningin barst vissulega til Íslands á þessum árum og um og upp úr 1980 fór þeim fjölgandi sem stunduðu lífrænan búskap, þó mjög hægt til að byrja með. Flestir þeirra höfðu meiri eða minni tengsl við Sólheima í Grímsnesi þar sem Sesselja Sigmundsdóttir hóf lífræna ræktun um 1930 í anda frumkvöðlanna í Evrópu, og eftir því sem best er vitað, byggði upp í Sólheimum fyrsta lífræna býlið á Norðurlöndum.
Framámenn íslensks landbúnaðar gáfu þessar þróun ekki mikinn gaum á þeim árum og það var ekki fyrr en um 1990 sem breytinga verður vart. Sá sem þetta ritar lagði til haustið 1992, við undirbúning Ráðunautafundar Búnaðarfélags Íslands og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, að lífræn ræktun yrði, í fyrsta skipti, tekin fyrir á dagskrá þessarar helstu fagráðstefnu landbúnaðarins. Það gekk eftir, undir liðnum Umhverfisvænn búskapur, strax á fyrsta degi 9. febrúar 1993, en þar var Eymundur Magnússon bóndi í Vallanesi á Héraði á meðal frummælenda með erindið Lífræn ræktun – reynsla bónda.
Skömmu eftir Ráðunautafundinn 1993 höfðu Eymundur o.fl. félagar hans samband við Jónas Jónsson búnaðarmálastjóra og óskuðu eftir liðsinni Búnaðarfélags Íslands við stofnun félags framleiðenda lífrænna afurða. Jónas tók þessum beiðnum strax vel, kallaði mig, þá einn landsráðunautanna í Bændahöllinni, inn á skrifstofu sína, og bað mig að aðstoða þessa bændur við stofnun félags. Þar sem ég var þá þegar orðinn áhugamaður um lífrænan búskap tók ég beiðninni að sjálfsögðu vel og byrjaði á því að hringja í Eymund sem ég þekkti sem einn af mínum ágætu nemendum í Bændaskólanum á Hvanneyri 20 árum áður.
Skemmst er frá að segja að fljótlega var stungið upp á að ljúka stofnun félagsins um sumarmál, en áður hafði undirbúningstofnfundur verið haldinn og töluverð vinna lögð, bæði í drög að lögum félagsins og framleiðslureglur fyrir lífræna búskaparhætti. Á þeim tíma var ekki hægt að fá vottun hér á landi en með stofnun Vottunarstofunnar TÚN ehf árið eftir, 1994, sköpuðust skilyrði til þess.
Verndun og ræktun – VOR
Þegar ég spurði Eymund nokkru fyrir fundinn hve mörgum hann reiknaði með sagði hann þá varla fylla tuginn. Það stóðst því að mánudaginn 26. apríl 1993 kl. 13 mættu á Bókasafn BÍ á 3.hæð í Bændahöllinni sjö ræktendur lífrænna afurða en ég var sá áttundi á fundinum, sem áhugamaður og fulltrúi búnaðarmálastjóra. Veitingarnar sem ég hafði pantað úr mötuneytinu dugðu því vel og var þetta ánægjulegur fundur í alla staði. Þarna var gengið frá lögum félagsins og þau samþykkt en þar sagði að heiti félagsins væri Verndun og ræktun, félag framleiðenda í lífrænum búskap, skammstafað VOR. Tilgangur félagsins væri að efla lífrænan landbúnað á Íslandi, að vera vettvangur umræðna um lífrænan landbúnað og gæta hagsmuna þeirra sem hann stunda. Stofnfélagar voru þeir sjö ræktendur sem þarna voru saman komnir en þeir voru eftirtaldir:
- Guðfinnur Jakobsson, Skaftholti, Þjórsárdal
- Eymundur Magnússon, Vallanesi, Fljótdalshéraði
- Þórður G. Halldórsson, Akri, Biskupstungum
- Kristján Oddsson, Neðra-Hálsi, Kjós
- Hjörtur Benediktsson, Náttúrulækningafélagi Íslands, Hveragerði
- Sveinn Kjartansson, Sólheimum í Grímsnesi
- Guðmundur Sigurfinnsson, Hæðarenda í Grímsnesi
Þeir þrír fyrst töldu voru kjörnir í stjórn félagsins og var Guðfinnur formaður.
Eftir að búið var að stofna félagið með samþykkt laga og kosningu stjórnar voru tekin fyrir áðurnefnd drög að reglum um lífrænan landbúnað, alls 13 blaðsíður, þar sem lýst var helstu kröfum sem gerðar væru til viðurkenndrar lífrænnar framleiðslu hér á landi. Höfðu einkum hinir alþjóðlegu IFOAM staðlar og norskar vottunarreglur verið fyrirmyndir. Töluverðar umræður urðu um drögin og ýmsum hugmyndum var velt upp, ekki síst um tilhögun viðurkenningar og notkun merkis fyrir lífrænar afurðir. Voru m.a. viðraðar þær hugmyndir að VOR, Bændasamtök Íslands og Neytendasamtökin mynduðu þriggja manna leyfisveitinganefnd sem myndi hafa framangreindar reglur um lífrænan landbúnað að leiðarljósi. Reglurnar yrðu þá viðmiðunarstaðlar að erlendri fyrirmynd, lagaðar að innlendum aðstæðum, eftir að hafa hlotið viðurkenningu hjá Landbúnaðarráðuneytinu. Vottunarmálin þróuðust þó fljótlega með öðrum hætti eins og áður var vikið að og kom m.a. VOR þar við sögu. Þegar litið er um farinn veg finnst mér að fáir aðilar hafi unnið þarna mikið og gott brautryðjendastarf. Eftir að búið var að stofna félagið með samþykkt laga og kosningu stjórnar voru tekin fyrir áðurnefnd drög að reglum um lífrænan landbúnað, alls 13 blaðsíður, þar sem lýst var helstu kröfum sem gerðar væru til viðurkenndrar lífrænnar framleiðslu hér á landi. Höfðu einkum hinir alþjóðlegu IFOAM staðlar og norskar vottunarreglur verið fyrirmyndir. Töluverðar umræður urðu um drögin og ýmsum hugmyndum var velt upp, ekki síst um tilhögun viðurkenningar og notkun merkis fyrir lífrænar afurðir. Voru m.a. viðraðar þær hugmyndir að VOR, Bændasamtök Íslands og Neytendasamtökin mynduðu þriggja manna leyfisveitinganefnd sem myndi hafa framangreindar reglur um lífrænan landbúnað að leiðarljósi. Reglurnar yrðu þá viðmiðunarstaðlar að erlendri fyrirmynd, lagaðar að innlendum aðstæðum, eftir að hafa hlotið viðurkenningu hjá Landbúnaðarráðuneytinu. Vottunarmálin þróuðust þó fljótlega með öðrum hætti eins og áður var vikið að og kom m.a. VOR þar við sögu. Þegar litið er um farinn veg finnst mér að fáir aðilar hafi unnið þarna mikið og gott brautryðjendastarf.
VOR aðili að Bændasamtökum Íslands
Strax eftir stofnun félagsins fór það að taka þátt í ýmiss konar samstarfi með félögum, stofnunum og fyrirtækjum. Félögunum fór smám saman fjölgandi en þó er VOR enn lítið félag. Margt hefur þó áunnist á þeim 27 árum sem liðin eru síðan félagið var stofnað, svo sem stofnun Fagráðs í lífrænum búskap 1997 ásamt fleiri aðilum, endurreist 2018, og þá fékkst einnig formleg aðild að Bændasamtökum Íslands 2018. Auk Guðfinns Jakobssonar í Skaftholti hafa gegnt formannsstöðum þeir Þórður G. Halldórsson á Akri og Gunnþór Guðfinnsson í Skaftholti. Núverandi formaður félagsins er Eygló Björk Ólafsdóttir í Vallanesi.
Að mínu mati er bjart framundan; vaxandi neytendavænn markaður fyrir lífrænar afurðir og alþjóðleg viðurkenning á framlagi lífrænnar ræktunar til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og útblæstri gróðurhúsalofttegunda samfara aukinni kolefnisbindingu í jarðvegi. Með aðlögun að lífrænum búskap er því unnt að draga úr mengun og sporna gegn loftslagsbreytingum og tel ég orðið mjög tímabært að íslensk stjórnvöld og stofnanir landbúnaðarins hér fari að meta þessa kosti að verðleikum. Það er nefnilega hægt að gera fleira en að rækta skóg, stunda uppgræðslu og endurheimta votlendi. Síðast en ekki síst geta lífrænir búskaparhættir stuðlað að líffræðilegri fjölbreytni og sveitabúskap með sjálfbærum hætti og rennt rennt traustari stoðum undir bæði fæðu- og matvælaöryggi í landinu.
Samstarf mitt við VOR er og hefur alltaf verið gott og gefandi og óska ég félaginu gæfu og gengis í framtíðinni.
Höfundurinn, dr. Ólafur R. Dýrmundsson (oldyrm@gmail.com), var landsráðunautur Bændasamtaka Íslands í lífrænum búskap um 20 ára skeið. Hann er fulltrúi Íslands í Evrópuhópi IFOAM um 17 áraskeið en hópurinn er með skrifstofu í Brussel í Belgíu.