Talið er að 50% umhverfsiáhrifa megi rekja til þess hvernig við framleiðum eða neytum matar. Áhrif matvælaframleiðslu á loftslag eru mikil og hér á landi má rekja mesta losun á gróðurhúsalofttegundum í landbúnaði til notkunar á tilbúnum áburði. Hætta er á að frá honum skolist umfram áburðarefni (einkum köfnunarefni) út í sjó sem getur aukið á súrnun sjávar, auk þess að framleiðsla slíks áburðar krefst gríðarlegrar orku og jarðefnaeldsneytis. Rannsóknir erlendis hafa sýnt fram á hvernig tilbúinn áburður dregur úr getu jarðvegs til að binda kolefni. Urðun á lífrænum úrgangi er einnig stór og veigamikil breyta og stjórnvöld hyggjast hætta urðun hans á næstu árum. Þá verður að taka við kerfi sem kemur lífrænum úrgangi og næringarefnum inní hringrásina, aftur í jarðveginn. Íslandi ber auk þess, líkt og öðrum þjóðum, að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni og gæta að viðkvæmu samspili í vistkerfinu. Á Íslandi eru í umferð varnarefni, sveppavarnarefni og skordýraeitur, það staðfesta innflutningstölur, þó ætti það að vera hlutfallslega minna hér á landi í ljósi landfræðilegrar stöðu.
Almennt er talið að lífrænn landbúnaður losi 40% minna af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftið en hefðbundinn lanbúnaður. Lífrænn landbúnaður losar auðvitað líka, en hann notar einungis lífræn áburðarefni sem brotna niður í náttúrunni. Lífrænn landbúnaður er ræktunarkerfi sem virkjar hringrásina og hefur þörf á lífrænum úrgangsefnum til að rækta upp heilbrigt jarðvegsvistkerfi sem skilar sér auk þess í betri og næringarmeiri afurðum.
Það blasir við að nú verði að ýta undir landbúnað og matvælaframleiðslukerfi sem vinnur með umhverfinu og knýr fram þær breytingar sem allir vita að nauðsynlegt er að gera, ekki síst vegna loftslagsmála. Þær aðferðir eru kenndar við lífrænan landbúnað og þær eru út af fyrir sig ekki umdeildar; hér á landi efast sumir hins vegar um nauðsyn þess að bændur taki skrefið til fulls og uppfylli skilyrði sem gilda um vottaða lífræna framleiðslu.
Af hverju vottun ?
Á Íslandi er nú loksins að merkja fjölgun á vottuðum frumframleiðendum og telur vottunarskrá Vottunarstofunnar Tún, sem flestir hér á landi nota, 33 vottaða aðila og 5 eru í aðlögun. Enn er hlutfall vottaðs lífræns ræktarlands þó mjög lágt hér á landi, eða innan við 2% sem er með því lægsta í Evrópu. Vottun er mikilvæg alþjóðleg viðurkenning um stöðu og aðferðir viðkomandi framleiðslu. Yfirfarið af þriðja aðila er ekkert annað kerfi sem veitir jafn gott eftirlit. Með vottun er stöðluðum framleiðsluaðferðum haldið á lofti með alþjóðlegu vottunarmerki sem neytendur um allan hinn vestræna heim þekkja og hefur því mikið gildi í sjálfu sér. Lífrænt vottaðar vörur og afurðir taka sífellt meira pláss á markaði og njóta vinsælda hjá neytendum, en þetta kemur fram í auknum innflutningi hér á landi þar sem vottuð íslensk framleiðsla er af skornum skammti í flestum vöruflokkum.
Hvað stoppar okkur ?
Vera kann að hér á landi séu enn hindranir sem þarf að yfirstíga. Stuðningur við nýliða í formi aðlögunarstuðnings var hins vegar nýverið stóraukinn sem vissulega var gott skref. VOR Verndun og ræktun hefur nýverið skilað inn tillögum til starfshóps um endurskoðun búvörusamninga um breytingar á styrkjakerfinu til að koma á almennum hvata í þessa átt og telur mikilvægt að beina fjármagninu í aðferðir sem stuðla að sjálfbærni. Lagt er til að byggja upp viðbótarstuðning til lífrænna bænda ofan á jarðræktarstuðning sem megin hvata fyrir bættri landnýtingu. Við aukna útbreiðslu mun reyna á fjárfestingar til að bæta aðbúnað og rými fyrir búfé og þá er ákveðin áskorun að framleiða nægan lífrænan áburð, svo eitthvað sé nefnt. Mikilvægt er að gera bændum eins auðvelt og hægt er að starfa innan vottunarkerfisins án þess að gerður sé afsláttur á kröfum umfram það sem almennt gildir í löndum sem við berum okkur saman við. Kostnaður við að hljóta vottun stingur eflaust í augu sumra.
Kostir vaxandi lífræns landbúnaðar
Aukin útbreiðsla lífrænnar ræktunar skiptir máli í kolefnisbúskapnum og er yfirlýsing um áherslur og þróun á sviði landbúnaðarins í hverju landi. Hún stuðlar að bestu mögulegu landnotkun, auk þess að vernda líffræðilega fjölbreytni. Lífrænt vottaðar afurðir færa neytendum það sem þeir vilja; hreinar afurðir sannarlega lausar við áhrif eiturefna, hormóna og erfðabreyttra lífvera í ræktun og innihaldi. Það þarf því aukna lífrænt vottaða frumframleiðslu til að matarfrumkvöðlar og vinnslur geti aflað sér hráefnis hér á landi sem uppfyllir kröfur um eina ströngustu umhverfiviðurkenningu sem til og er auk þess þekkt meðal neytenda og þeir bera traust til.
Opinbera aðgerðaáætlun skortir
Að ofansögðu sést að það er að mörgu að hyggja; það mun kosta fjármuni, aðkomu fagaðila og markvissa áætlun til að ná lífrænum landbúnaði upp úr hjólförunum hér á landi. Árangur yrði góður mælikvarði um hvort og hversu hratt landbúnaðarkerfið og matvælaframleiðslan er að bregðast við þeim áskorunum sem er að mæta í umhverfismálum auk þess að færa matvælaframleiðslu á Íslandi tækifæri til vaxtar.
Höfundur: Eygló Björk Ólafsdóttir – formaður VOR – Verndun og ræktun, félag framleiðenda í lífrænum búskap. Birtist í Bændablaðinu í janúar 2020