Hvers vegna lífrænn landbúnaður?

Landbúnaður er hluti af stærra kerfi.

Aðal einkenni lífræns landbúnaðar er sá að hann grundvallast á heildarsýn, þar sem tekið er tillit til allra þátta sem snerta framleiðsluna svo sem vistfræðilegra, heilsufarslegra auk  mannúðarsjónarmiða

Með lífrænum landbúnaði er unnið að því að viðhalda og efla heilbrigði jarðvegs, vistkerfis og neytenda.

Við vinnum með lögmálum náttúrunnar

Lífrænn landbúnaður byggir  á því að viðhalda lokaðri hringrás næringarefna er varðar ræktun, þar sem notuð eru öll þau lífrænu næringarefni sem til falla á búinu sjálfu. Lífrænir bændur setja traust sitt á náttúrulega ferla svo sem líffræðilegan fjölbreytileika, sem er örvaður með  skiptirækt, búfjáráburði, grænáburði  og moltu og svo niturgefandi belgjurtum í ræktun sem gefa köfnunarefni  (nitur) inn í kerfið, en það er það efni sem allt hverfist um í allri ræktun.

Þetta eru þær aðferðir sem notaðar hafa verið síðustu 10 þúsund árin eða frá því sem maðurinn er talinn hafa fyrst byrjað að rækta sér til matar. Það er því komin nokkuð góð reynsla á lífræna ræktun þar sem nútíma bændur í lífrænni ræktun nýta sér þau náttúrulögmál sem staðist hafa  tímans tönn. Sá jarðvegur sem nú þekur jörðina hefur orðið til að mestu vegna ljóstillífunar jurta sem við vöxt tekur koltvísýring úr andrúmslofti og breyta í sykrur. Rótarsveppir , ánamaðkar og annað örverulíf nýta sér þessar sykrur og skaffa plöntunni í staðinn vatn og næringarefni. Þær brjóta niður rótar og plöntuleifar og breyta í húmus og kolefni sem verður að orkugjafa fyrir plöntur. Kolefnið er það stoðefni sem myndar allan jarðveg. Þannig bætist stöðugt á jarðvegsforðann á jörðinni á hverju ári þar sem lífræn ræktun er stunduð og plöntur vaxa.

Almennur landbúnaður hundsar náttúrulögmálin.

Almennur landbúnaður hefur valið þá aðferð að setja traust sitt á kemiskan, tilbúinn áburð og svo skordýra og íllgresiseitur. Notkun á skordýra og íllgresiseitri í gras og kornrækt hér á landi til mjólkur og kjötframleiðslu er þó sáralítil en það dugar þó skammt  fyrir „hreinleikan“ en Íslendingar framleiða um 150 þúsund tonn af mjólk og 30 þúsund tonn af kjöti á ári. Til að framleiða þessi 180 þúsund tonn af matvælum flytjum við inn ríflega 100 þúsund  tonn af soja, maís og öðrum fóðurhráefnum.  Þannig er ríflega helmingurinn af þeim matvælum  sem verður til hér á landi framleiddur undir merkjum tilbúins áburðar, íllgresis og skordýraeiturs.

Mikið af þessu innflutta korni er erfðabreytt í þeim tilgangi að þola  aukna eiturefnanotkun við ræktun.

Öll þessi efni eru ekki leyfð í lífrænum landbúnaði né erfðabreyttar plöntur.

Það skiptir máli hvernig við stundum landbúnað.

Almennur  landbúnaður annars vegar og lífrænn landbúnaður hins vegar  hafa mismunandi afleiðingar fyrir umhverfi og fólk.

Almennur  landbúnaður á heimsvísu veldur aukinni losun gróðurhúsalofttegunda,  jarðvegseyðingu,  vatnsmengun og ógnar heilsu manna og lífríkis. Venjulegur nútíma  landbúnaður kemur einnig í veg fyrir eðlilega bindingu koltvísýrings úr andrúmslofti.

Lífrænn landbúnaður hefur hins vegar  minna kolefnisspor, varðveitir og byggir jarðvegsheilbrigði, endurlífgar náttúruleg vistkerfi og stuðlar að hreinna vatni og lofti, allt án eitraðra varnarefnaleifa  svo sem skordýra og íllgresiseiturs. Lífrænn landbúnaður hefur jákvæð áhrif á eiginleika jarðvegs til að binda koltvísýring úr andrúmslofti. Þannig vinnur lífrænn landbúnaður gegn aukinni hlýnun jarðar.

Velferð húsdýra er mikilvæg.

Eitt megin þema lífrænnar framleiðslu er ekki síst það sem snertir velferð húsdýra, og sem viðmið, að þá er megin reglan sú að húsdýr hafi þá aðstöðu að geta notið eðlislægrar hreyfingar og útiveru árið um kring. Rannsóknir hafa sýnt að mikil hreyfing og útivera jafnt sumar sem vetur, eflir mótstöðuafl dýra gegn sjúkdómum. (Hvítu blóðkornunum fjölgar) . Heilbrigðari bústofn minnkar þörf á lyfjanotkun, en lyfjaónæmi er vaxandi heilbrigðisvandamál í heiminum.

Legupláss þarf að vera mjúkt og þurrt, að dýrin hafi næga birtu og hafi félagsskap hvort af öðru. Allt ungviði, svo sem kálfarnir frá kúnum t.d.,fái að njóta umhyggju móður með því vera hjá þeim fyrstu dagana eftir burð (fæðingu) og að geta sogið mjólkina úr júgrinu sjálfir. Þetta atriði er mjög mikilvægt varðandi heilbrigði bæði kálfs og móður fyrstu dagana eftir burð.

Allt fóður skal vera lífrænt ræktað.

Engin kemisk aukefni. ( E efni)

Megin reglan er sú að vinna lífræn matvæli sem minnst og halda þeim eins náttúrulegum og kostur er. Með því að velja vottuð lífræn matvæli ert þú að forðast sjálfkrafa mörg hættuleg aukefni í matvælum – eins og gervi sætuefni (aspartam, súkralósa) og gervi matvælafitur og rotvarnarefni og fleira sem er bannað að nota í lífrænni matvinnslu. Öll aukefni notuð í matvælavinnslu verða að vera af lífrænum uppruna. Allt sem er genabreytt er einnig bannað. Að borða lífrænt kveður í kútinn þá óvissu sem fylgir því að borða fæðu sem inniheldur ónáttúruleg efni.

Hagfræðileg atriði

Í lífrænum landbúnaði skiptist framleiðslukostnaður með öðrum hætti, en í hefðbundnum landbúnaði. Kostnaður vegna áburðarkaupa minnkar, en á móti kemur meiri kostnaður vegna annara liða svo sem vegna aukinnar skiptiræktunar (jarðræktar) sem kostar aukna vinnu og meiri vélbúnað. Iðulega þarf að gera breytingar á húsakosti til að fullnægja strangari kröfum um aðbúnað dýra, og til að létta vinnu við umhirðu dýranna. Þá er aukinn kostnaður vegna sérhæfðra tækja sem tengjast lífrænum landbúnaði sem er á þróunarstigi enn sem komið er. Þá er oft minni uppskera  í lífrænni ræktun og minni framleiðsla á hvern grip. Til dæmis eru mjólkurkýr ekki fóðraðar með tilliti til mögulegra hámarksafurða með t.d. mikilli notkun á kjarnfóðri.

Gagnkvæmir hagsmunir og hinn óskrifaði samfélagssáttmáli.

Mikilvægt er að framleiðendur búi við lífskjör í samræmi við aðrar stéttir, að grunnþörfum þeirra sé fullnægt, að starfið sé þeim til arðs og ánægju og vinnu umhverfið öruggt.

Farið er fram á sanngjarnt verð jafnframt því sem neytendum er tryggð framleiðsla á hollum og hreinum matvælum,án þess að gangið sé á velferð dýra og náttúru. Áhersla er lögð á að neytendur fái réttar upplýsingar um hinar  lífrænu vörur og að þær séu vel aðgreindar í verslunum enda séu þær vottaðar af viðurkenndum vottunaraðila

Starfsumhverfi

Starfsumhverfi framleiðanda í lífrænni framleiðslu er í mörgu mun jákvæðara en í hefðbundinni framleiðslu, þar sem ekki er unnið með tilbúinn áburð eða eitur gegn illgresi eða skordýrum.

 Lífrænn landbúnaður er vottaður.

Lífrænn landbúnaður er stundaður  samkvæmt reglum um lífræna landbúnaðarframleiðslu. Markaðsetning lífrænnar framleiðslu er háð því að viðurkennd vottunastofa hafi annast reglubundið eftirlit með öllu ferlinu frá ræktun og vinnslu til pökkunar í neytendaumbúðir. Vottunin tryggir að vara sem seld er undir merkjum lífrænnar framleiðslu sé framleidd samvkæmt skilgreindum kröfum.

Höfundur : Kristján Oddsson, annar stofnandi og aðalleigandi Bio-Bús, en hann stundar ásamt konu sinni lífræna mjólkurframleiðslu að Neðra Hálsi í Kjós.