Kallar eftir grunnfræðslu um lífræna vottun

Sólveig Eiríksdóttir, sem kölluð er Solla, hefur í áratugi talað fyrir lífrænni ræktun og lífrænum afurðum. Það sé einfaldlega betra fyrir umhverfi, menn og dýr. Solla er gestur Havarí hlaðvarpsins að þessu sinni, þáttar um lífræna ræktun og framleiðslu sem unninn er í samstarfi við VOR og Bændablaðið. 

Bakslag með ,,vistvænum vindi”

Solla hefur haft mikil áhrif á matarhefðir margra og menntað þjóðina um mikilvægi þess að borða lífrænt og borða mikið af grænmeti. Hún segir að eftirspurn eftir öllu lífrænu hafi aukist jafnt hér á landi undanfarna áratugi en að ákveðið bakslag hafi komið með því sem hún kallar vistvænan vind sem hafi ruglað neytendur í ríminu. Margir hafi farið að líta svo á að hér á Íslandi væri allt svo hreint að það þyrfti ekki að votta það lífrænt. Þetta sé augljós vísbending um það að hér á landi vanti alla grunnfræðslu á því sem lífrænt er. Og hún vill byrja að mennta börn strax í leikskóla um ágæti og nauðsyn lífrænnar ræktunar. 

Berglind Häsler, verkefnastjóri Lífræns Íslands, er umsjónarmaður þáttanna. Hægt er að hlusta hér.