Ríflega 80% þjóðarinnar er jákvæð gagnvart lífrænni framleiðslu á Íslandi samkvæmt skoðunakönnun sem Zenter rannsóknir unnu fyrir VOR, Verndun og ræktun, félag framleiðenda í lífrænum búskap. Aðeins 2,8% eru neikvæð. Þá eru 77,2 % sem alltaf, oft eða stundum velja lífrænar íslenskar vörur fram yfir hefðbundnar íslenskar vörur.
Hér er hægt að skoða könnunina í heild.
Lífrænt fyrir umhverfið
Meirihluti þeirra sem eru jákvæðir segjast vera það vegna umhverfismála. Það viðhorf er síður en svo gripið úr lausu lofti. Staðreyndin er sú að í lífrænni ræktun er stunduð skiptirækt og staðbundnar auðlindir nýttar við ræktunina. Við vinnslu á lífrænum matvælum er aðeins notaður lífrænn áburður og hugmyndafræði lífrænnar ræktunar er ávallt sú að vinna með og hagnýta lögmál náttúrunnar, án þess að skaða umhverfið eða framleiðsluafurðir.
Lífrænt fyrir lýðheilsu
Næstflestir sem segjast jákvæðir í garð lífrænnar framleiðslu nefna hollustu. Með því að velja lífrænt vottuð matvæli forðast þú sjálfkrafa mörg skaðleg aukaefni í matvælum sem bannað er að nota í lífrænni matvælaframleiðslu. Margar rannsóknir hafa jafnframt sýnt fram á að lífræn matvæli séu næringaríkari.
Lífrænt – án allra eiturefna og betri aðbúnaður dýra
Þegar spurt var hvað skipti mestu máli við val á lífrænum íslenskum vörum nefndu flestir, eða hátt í helmingur, ,,ekkert skordýraeitur.” Tæplega 44% nefndu gæði og tæplega 35% nefndu dýravelferð. Aðbúnaður dýra í lífrænum búskap er að jafnaði strangari. Búfé fær til að mynda aukið rými, er gefið lífrænt fóður og ítarlegar kröfur eru gerðar um góðan aðbúnað þeirra og útivist. Rúmlega 23% sögðu það skipta þá máli að í lífrænni ræktun væru engar erfðabreyttar lífverur.
Eftirspurn kallar á stórsókn
Lengi hefur verið rætt verið um nauðsyn þess að að efla lífræna ræktun og framleiðslu á Íslandi. Í dag er einungis um 1% ræktunarlands á Íslandi vottað lífrænt, mun lægra hlutfall en í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Í flestum Evrópulöndum hefur lífrænt ræktun aukist gríðarlega á undanförnum árum, allt í takt við aukna eftirspurn neytenda. https://ec.europa.eu/eurostat/statistics-explained/index.php/Organic_farming_statistics
Lífrænt Ísland
Vor-Verndun og ræktun, félag framleiðenda í lífrænum búskap hefur í samstarfi við Bændasamtök Íslands og Atvinnu- nýsköpunarráðuneytið hrundið af stað átaksverkefni undir yfirskriftinni Lífrænt Ísland. VOR fer með framkvæmd verkefnisins. Við finnum fyrir miklum meðbyr og lítum svo á að niðurstöður þessarar skoðunarkönnunar gefi fullt tilefni til að halda í stórsókn á lífrænni ræktun og framleiðslu á Íslandi. Til þess að það megi verða þurfa stjórnvöld, bændur, framleiðendur og neytendur að sýna viljann í verki.
Berglind Häsler,
Verkefnastjóri Lífræns Íslands.
Greinin birtist í Kjarnanum 30. apríl 2020