Hvað getum við lært af „Dönsku leiðinni?“

Hvergi í heiminum er hlutfall lífrænna afurða hærra í stórvöruverslunum og í Danmörku. Þetta er engin tilviljun heldur liggur að baki 30 ára markviss vinna í þessa átt, vinna sem hefði ekki skilað jafngóðum árangri ef stjórnvöld hefðu ekki markað sér stefnu í þessum efnum, fyrst allra þjóða. Danmörk var líka fyrsta landið í heiminum til að setja sér stefnu um að opinber mötuneyti ættu að nota 60% lífrænar afurðir. Vegna þessa er Danmörk orðin þekkt og virt matvælaþjóð, þekkt fyrir hágæða mat sem seldur er um heim allan. Fleira spilaði inn í til að þessi lífræna bylting næði fótfesti og má þá einnig nefna fræðslu um ágæti lífrænnar framleiðslu. Útflutningur hefur aldrei verið meiri og sama má segja um innlenda eftirspurn. Þetta þrýstir svo á bændur sem æ fleiri skipta um kúrs.

Berglind Häsler er umsjónarmaður hlaðvarps Havarí – samtal um lífræna framleiðslu. Þættirnir eru unnir í samstarfi við VOR, félag lífrænna framleiðanda og Bændablaðið. Þátturinn að þessu sinni er helgaður ,,dönsku leiðinni,“ svokölluðu en það er sú leið sem Danir hafa farið í viðleitni sinni til að auka og efla lífræna framleiðslu og er sú leið leidd af samtökunum Lífræn Danmörk. En þess má geta að nú hefur átaksverkefni verið hrundið af stað hér á landi undir heitinu Lífrænt Ísland. Verkefnið er stutt af atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu auk Bændasamtaka Íslands og það er VOR sem leiðir verkefnið. Í þessum 5. þætti um lífræna framleiðslu talar Berglind við Önnu Maríu Björnsdóttur. Anna María bjó í Danmörku í 10 ár og er mikil áhugakona um lífræna framleiðslu. Frá því í vetur hefur Anna María unnið að heimildamynd um lífræna framleiðslu á Íslandi og nú í sumar þvælst um landið og spjallað við framleiðendur.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér.

Hvaðan sprettur þessi áhugi á lífrænni framleiðslu? 

,,Maðurinn minn er danskur og er alinn upp á lífrænum bóndabæ í Danmörku og það er eiginlega þegar ég kynnist honum sem að ég fyrst byrja að hugsa um lífrænt, eða borða eða kaupa lífrænt. Ég hafði ekkert gert það áður. Mér fannst hálffáránlegt á þeim tíma, sem fátækur námsmaður, að kaupa mjólk sem væri þrisvar sinnum dýrari heldur en hin en hann hikaði ekki við það og var hann líka fátækur námsmaður á þeim tíma.“

Anna María lýsir því að hægt og rólega hafi áhugi hennar á lífrænni framleiðslu aukist og jókst hann enn meira þegar hún var ólétt.

,,Þá fór ég að lesa mér meira til um þetta allt saman og komst að þeirri niðurstöðu að það væri betra að borða lífrænt. Svo þegar ég fór að gefa börnunum mínum mat þá kom ekkert annað til greina en að gefa þeim lífrænt og í Danmörku er mjög auðvelt að fá lífrænan mat.“

Anna María kafaði dýpra og las ýmsar rannsóknir sem sýna fram á yfirburði lífrænnar framleiðslu og hvað það væri sérstaklega mikilvægt fyrir börn að borða lífrænar afurðir. Þá hafi það vakið athygli hennar hversu margir leikskólar í Danmörku bjóði upp á lífrænan mat, sumir 90 – 100%.

,,Það eru ákveðin skilaboð fólgin í því. Þetta er mikilvægt fyrir börnin,“ segir Anna María.

,,Áhuginn hefur komið svolítið hægt og rólega og í Danmörku var þetta mjög auðvelt því þar er lífrænt orðið svo aðgengilegt. Lífrænn matur er alls staðar í öllum matvörubúðum og nánast allar tegundir.“ Anna María segir það hafa verið mikil viðbrigði fyrir hana sem neytanda að flytja aftur til Íslands. Hér þurfi hún oft að skipuleggja innkaupaferðirnar vel til að fá sem flest lífræn hráefni.

Danir standa mjög framalega í þessu og það er þessi danska leið sem vekur mikla athygli – þeir eiga heimsmetið í markaðshlutdeild á lífrænum vörum sem er samt bara 12 % þannig að það er ennþá alveg langt í land hjá þeim en þetta er töluvert meira en annarsstaðar. Anna María hefur kynnt sér ,,dönsku leiðina,“ og samtökin Lífræn Danmörk sem leiða það verkefni.

,,Það sem ég veit um það er að Danir voru fyrstir í heiminum til að setja sér reglur um lífræna framleiðslu, svo settu þeir sér stefnu í kringum 1990 um að efla lífrænan landbúnað og lífræna framleiðslu. Þær upplýsingar sem ég hef fengið frá ýmsum er að þetta hafi sprottið upp úr neyð vegna þess að grunnvatnið var orðið svo mengað og það kemur mikið til úr nítrati úr tilbúnum áburði sem lekur niður í grunnvatnið – ástandið var orðið þannig að það voru ekki lengur til ómenguð vatnsból í Danmörku og þá þurftu þeir að setjast yfir þetta og leita lausna.“

Úr varð heildræn stefna sem teygði sig yfir alla stjórnsýsluna og langt út fyrir hana. Jafnframt var hrint af stað í markaðsátaki.

,,Því þeir vissu að ef þeir ætluðu að efla lífrænan landbúnað þá þyrfti að vera markaður fyrir hann. Þannig að upplýsingamiðlun til neytanda var efld.“

Eiturefni í mat geta haft alvarleg áhrif á heilsu

Anna María hefur spáð mikið í áhrifum matar á lýðheilsu. ,,Þær rannsóknir sem ég hef lesið um áhrif á heilsufar gefa til kynna að það sé eitthvað þarna sem við þurfum að skoða betur og að ýmis efni sem finna má í hefðbundnum matvælum geti haft áhrif á taugaþroska barna, það eru þónokkrar stórar rannsóknir sem sýna aukna tíðni krabbameins, einnig er sýnt fram á aukna líkur á fæðingargöllum, ofnæmi og ýmsum fleiri sjúkdómum. Það eru líka ýmsar rannsóknir sem gefa til kynna að í lífrænum mat séu fleiri og fjölbreyttari næringarefni. Það er margt í þessu sem gefur til kynna að þetta þurfi að skoða betur. Við að við erum alltaf með mörg eiturefni í líkamanum og ef það er eitthvað sem er hægt að minnka þá er það þetta – við erum með eiturefni úr ýmsu öðru úr umhverfinu en við getum haft bein áhrif á það hvað við innbyrðum og það er tiltölulega auðvelt fyrir okkur að breyta. Allar mælingar sýna að það er miklu minna af eiturefnum í lífrænum matvælum.”

Vill auka áhuga á lífrænni framleiðslu á Íslandi

Áhugi Önnu Maríu á lífrænni framleiðslu jókst enn meira eftir að hún flutti aftur heim. Hún fann að hana langaði til að hafa áhrif og hjálpa til við að ýta undir áhuga hér á landi. Það var þá sem hún ákvað að vinna heimildarmynd um efnið. Með því vildi hún jafnframt kanna hver staða lífrænnar framleiðslu sé á Íslandi og hvert við stefnum.

Hvítkáls uppskera á lífrænum bóndabæ í Danmörku



,,Hér eru aðeins í kringum 30 lífrænir framleiðendur af 3000 að mér skilst. Það er auðvitað mjög lítið og þar af eru margir af þeim bændum sem hafa unnið að þessu í 30 ár og sumir þeirra eru farnir að íhuga að hætta, komnir á þann aldur og þá hugsar maður auðvitað hver tekur við? Þessir bændur búa líka yfir mikilli vitneskju um íslenskar aðstæður og að eigin sögn hafa þeir svolítið synt á móti straumnum, í áratugi og verið oft einir í sinni sveit – lífrænir. Mér finnst það mjög aðdáunarvert og að sjá að á þessum 30 árum sem hér hefur verið stunduð lífræn ræktun að þá erum við enn bara með 1%. Þetta hefur ekki aukist eins og í löndunum sem við berum okkur saman við þar sem lífræn framleiðsla fer vaxandi – sérstaklega á síðustu 5 árum. En við stöndum í stað og þá velti ég því fyrir mér að ef Ísland fylgir með þessari þróun, þ.e.a.s ef neytendur fara að kalla eftir lífrænum vörum í auknum mæli – þurfum við þá að snúa okkur að enn meiri innflutningi?“ Það sé því til mikils að vinna með því að efla lífræna framleiðslu á Íslandi.

Ísland á langt í land miðað við nágrannaþjóðir

Hér hefur lítill hópur talað fyrir lífrænni framleiðslu í um það bil 30 ár en afar hægt hefur gengið að ná fleirum á vagninn. Hvað þarf til? Að mati Önnu Maríu gætum við horft til Danmerkur að einhverjuleiti. Miklu máli skiptir að móta heildstæða stefnu í þessum efnum og efla styrkjakerfið. Nú í ár hafa stjórnvöld sett svolitla áherslu á lífræna framleiðslu en betur má ef duga skal. Flestir sem þekkja til eru á einu máli um að það vanti hvata í kerfið. ,,Löndin innan Evrópusambandsins fá allir árlegan styrk bara fyrir að vera lífrænir,“ segir Anna María. Í anda samtakanna Lífræn Danmörk hefur átaksverkefni verið hrundið af stað hér á landi undir yfirheitinu Lífrænt Ísland. Markmiðið er að fræða neytendur um ágæti lífrænnar framleiðslu og fá fleiri framleiðendur með á vagninn.

Lífræn framleiðsla er hluti af ,,lausninni“

Svo er ein risa breyta í þessu öllu saman og það eru umhverfismálin. Kolefnisspor matvælaframleiðslu í heiminum er gríðarstórt og þar er mikilvægt að sýna ábyrgð. Pernille Bårgaard hjá Lífrænni Danmörk, sagði í samtali við þáttastjórnanda að eitt af markmiðum þeirra sé að fá fleiri til að átta sig á því að lífræn framleiðsla sé hluti af lausninni þegar kemur að því að minnka sótsporið í matvælaframleiðslu.

Anna María skýtur inn líffræðilegum fjölbreytileika sem fer hratt hnignandi í heiminum í dag og þar spilar eiturefnanotkun í landbúnaði stóra rullu. Auðvitað er það minna hér á Íslandi en annarsstaðar segir hún en það er notað samt og í okkar loftslagsbókhaldi dregur tilbúinn áburður okkur mikið niður.

Þú nefndir þetta með grunnvatnið í Danmörku að sjálf mengunin hafi átt sér stað löngu áður en hún uppgötvaðist í grunnvatninu?

,,Mér skilst að það taki einhverja áratugi fyrir þessi efni úr tilbúnum áburði að leka niður í grunnvatnið. Samkvæmt þessu þá erum við (á Íslandi) að menga vatnið fyrir komandi kynslóðir.“

Anna María nefnir líka lífseiga mýtu þegar kemur að umræðu um lífræna framleiðslu á Íslandi.

,,Það er þessi hugmynd um að allt sé svo hreint á Íslandi, sjálfbært, við erum næstum því lífræn. Þegar þetta er rýnt kemur í ljós að þetta er ekki alveg rétt. Eina sem við gerum öðruvísi er að við notum aðeins minna af eiturefnum, sem betur fer, svona heilt á litið. En við notum samt meira af tilbúnum áburði en önnur lönd og þrátt fyrir að vatnið okkar sé hreint núna þá veit maður ekkert hvort það vari að eilífu. Við þurfum að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Ég hef líka leitt hugann að því – hvað með eftir 50 eða 100 ár verða komnar milljónir af flóttamönnum til Íslands? Þá þurfum við að nota vatnsból sem við nýtum ekki í dag. Og þetta fer líka út í sjóinn þar hafa efni úr tilbúnum áburði mjög slæm áhrif líka.“

Þá má velta því upp, úr því við erum næstum því lífrænt eins og margir vilja meina, er þá ekki bara um að gera að taka þetta alla leið og fá þessa vottun, sem skiptir máli fyrir okkur neytendur og líka fyrir útflutning?

,,Nákvæmlega og það er þetta með lífræna vottun, það er ekkert annað kerfi í dag þar sem er svona mikið eftirlit , s.s. eftirlit með því að ekki sé verið að nota eiturefni og tilbúinn áburð.“

Danir hafa náð árangri með verð

,,Ég tók eftir því þegar ég byrjaði að kaupa lífrænar vörur í Danmörku að verðmunurinn minnkaði alltaf og minnkaði og nú er svo komið að munurinn er harla lítill, stundum enginn og stundum eru lífrænar vörur ódýrari. Þarna koma stjórnvöld aftur inn að með auknum stuðningi ná lífrænir framleiðendur kostnaði sínum niður og meiri skilvirkni færst. Aukin fræðsla myndar líka meiri eftirspurn og eftirspurnin lækkar verðið.“

Ólafur Dýrmundsson í viðtali fyrir heimildarmynd Önnu Maríu.

Við vinnslu á heimildamyndinni komu umhverfismálin Önnu Maríu mest á óvart og hvað það er til mikið af vitneskju þarna úti um ágæti lífrænnar framleiðslu en hún hefur ekki skilað sér til neytenda, til almennings.

Hver heldur þú að ástæðan sé?

,,Það kannski vantar stundum þessa miðlunarleið,“ – áttu þá við um heim allan eða bara hérna heima? ,,Ég held að það eigi alveg við um allan heiminn en það hefur verið erfitt, hef ég komst að með mínum samtölum, að það virðist vera svolítið erfitt að fá fólk á þennan vagn og fá fólk til að hlusta.“

Evrópusambandið er búið að setja sér markmið um að hlutfall lífræns vottaðs lands verði  25% árið 2030 og Danir stefna enn hærra, 30% og sama gildir um markaðshlutdeild á lífrænum vörum. Á Íslandi er hlutfallið 1% og hefur lengi staðið í stað auk þess sem hér hafa ekki verið sett nein álíka markmið.

Hér er hægt er að lesa sér til um dönsku leiðina á https://www.organicdenmark.com