Ræktar grænmeti án tilbúins áburðar – fyrir umhverfi og lýðheilsu

„Það kom aldrei neitt annað til greina en að vera með lífræna vottun,“ segir Sunna grænmetisbóndi á Ós í Hörgársveit. „Ég og Andri maðurinn minn keyptum jörðina með mömmu, Nönnu Stefánsdóttur árið 2016 með það að leiðarljósi að rækta lífrænt grænmeti. Mamma er garðyrkjukona og hefur starfað við það í yfir 30 ár. Allt frá því að ég man eftir mér hefur hún lagt mikla áherslu á hollan mat, mikið hugsað um það hvernig matur er framleiddur og hvað er í honum.“

Sunna bjó eitt ár í Danmörku eftir að hún útskrifaðist úr menntaskóla og var þar í lífrænum lýðháskóla og var mikil áhersla lögð á sjálfbærni og lífræna framleiðslu. „Eftir dvölina í Danmörku byrjaði ég að deila draumnum með mömmu að flytja í sveit og rækta grænmeti. Ég skráði mig svo á lífræna braut garðyrkjuskólans og eftir það var ekki aftur snúið. Námið opnaði alveg nýjan heim fyrir mér og var gríðarlega skemmtilegt.“

Eftir að hafa leitað að góðri jörð undir lífræna framleiðslu keypti fjölskyldan Ós og byrjaði mjög fljótlega í aðlögun hjá vottunarstofunni Tún og fengu þau svo lífræna vottun í fyrra. „Það skiptir okkur gríðarlega miklu máli að geta boðið upp á vörur sem eru ræktaðar á sem heilnæmasta hátt. Við vildum geta ræktað án eiturefna og tilbúins áburðar og með því verndað heilsu fólks. Einnig að rækta jörðina á sem umhverfisvænastan hátt fyrir komandi kynslóðir,“ segir Sunna að lokum. 

Þess má geta að Sunna verður með erindi á rafrænu málþingi á vegum Fagráðs í lífrænum búskap sem haldið verður á vef Bændablaðsins 12. nóvember frá kl. 10 – 16. Yfirskrift erindi hennar er „Lífræn framtíð á Norðurlandi – sjónarmið nýliða.“