Hvers vegna lífrænt ? Rannsóknir á hveiti

Lífrænir búskaparhættir eru mjög frá brugðnir þeim sem tíðkast nú í hinum efnavædda landbúnaði sem oft er kallaður hefðbundinn þótt hann sé í raun afsprengi seinni tíma tæknibreytinga og þróunar. Hér á landi byggðist mest öll búvöruframleiðsla á lífrænum grunni fram yfir miðja liðna öld.

Mikilvægt er að neytendur fái traustar upplýsingar um gæði matvæla, ekki aðeins frá bændum og úrvinnsluaðilum heldur einnig frá vísindamönnum sem stunda margvíslegar rannsóknir og bera m.a. saman lífrænt vottuð matvæli og önnur sem á markaði eru. Slíkar niðurstöður hafa verið að koma fram á seinni árum.  Hér er birtur fyrsti pistilinn  um slíkan samanburð og er byrjað á hveiti.

Háskólinn í Newcastle í Englandi átti frumkvæði að fjölþjóðlegum rannsóknum sem hófust fyrir um áratug. Þær hófust með því að vísindamenn frá mörgum löndum tóku saman niðurstöður 343 matvælarannsókna sem birtar höfðu verið í  ýmsum vísindaritum og gerðu á þeim mjög ítarlega, tölfræðilega greiningu. Þar með var einnig byggt á niðurstöðum rannsókna á stóru tilraunalandi háskólans skammt frá Newcastle upon Tyne. Fyrstu ritrýndu og birtu niðurstöðurnar komu 2011 og stöðugt eru að bætast við nýjar upplýsingar sem er mjög áhugaverðar fyrir bæði bændur og neytendur. Þar sem hveiti er veigamikil korntegund um allan heim, bæði til manneldis og í dýrafóðri, er byrjað á því, en síðar verður fjallað um grænmeti, ávexti , mjólk og kjöt.

Í þessum rannsóknum kom fram að fjórum sinnum meira var af plöntuvarnarefnum á borð við illgresiseyða og sveppaeitur  í því korni sem ekki var ræktað með lífrænu hætti. Tekið var fram að þessi mengun hafi aðeins komið fram í 10%  lífrænu sýnanna, sennilega vegna úða sem hafði borist frá aðliggjandi ökrum þar sem slík eiturefni voru í notkun. Þá kom fram að lífræna kornið hafði raunhæft minna af eitruðum þungmálmum svo sem kadmíum (Cd).  Þegar kom að andoxunarefnum  sem eru mikilvæg fyrir líkamann var í öllum tilvikum mun meira af þeim í lífræna korninu og getur það skipt miklu máli til að bæta heilnæmi fæðunnar. Þegar  kom að köfnunarefni (N), en mikið er af því í tilbúnum áburði sem ekki er leyfður við lífræna ræktun, var miklu minna af nítrötum í lífræna korninu, en sum þeirra hafa verið tengd við aukna áhættu á magakrabbameini.

Skemmst er frá að segja að nýjustu rannsóknirnar sem eru liðir í þessu fjölþjóðlega verkefni, gjarnan kenndu við Háskólann í Newcastle, staðfesta framangreindar niðurstöður. Í þeim var m.a. rannsakað  malað hveiti sem fékkst í stórmörkuðum á Bretlandseyjum og í Þýskalandi 2015 og 2017 og voru niðurstöðurnar birtar 2020 og þykja marka tímamót. Þar kom fram mjög mikill munur á hvítu hveiti og heilhveiti.  Sérstaklega kom  yfirburða næringargildi og hollusta lífræns heilhveitis fram í miklu meiru af andoxunarefnum og steinefnum og einnig var miklu minna af eiturefnaleifum í því.  Við samanburð á hveititegundunum, venjulegu hveiti ( Triticum aestivum), sem nú á dögum er mest ræktað, og  spelthveiti ( Triticum spelta),reyndist hið síðarnefnda heldur snefilefnaríkara.

  Megin niðurstöðurnar eru því þessar: Lífrænt heilhveiti hefur mikla yfirburðu hvað næringargildi og hollustu varðar umfram hvítt hveiti, hvort sem búskaparhættirnir eru lífrænir eða ekki.

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson þýddi og endursagði úr eftirtöldum vísindagreinum:

  1. Julia Cooper o.fl. Journal of Agriculture and Food Chemistry, 15 April 2011.
  2. Marcin Baranski o.fl. British Journal of Nutriton, 6 May 2014.
  3.  Juan Wang o.fl. Food Chemistry, 4 May 2020.
  4. Juan Wang o.fl. Food Cehemistry, 11 May 2020.

Mynd: Vetrarhveiti í Vallanesi