Hvers vegna lífrænt ?
Neytendur þurfa að fá traustar upplýsingar um gæði matvæla, helst byggðar á vísindalegum rannsóknum víða um heim. Á undanförnum 20-25 árum hefur verið unnið að samanburðarrannsóknum á lífrænt vottuðum matvælum af ýmsu tagi og öðrum sem framleidd hafa verið með öðrum hætti. Mjög athyglisverðar niðurstöður um þessi efni hafa verið birtar í margs konar miðlum, einkum á seinni árum.
Í fyrri pistli var hveiti gerð nokkur skil en hér verður greint frá veigamiklum niðurstöðum samanburðarrannsókna á grænmeti og ávöxtum.
Auk rannsókna á hveiti átti Háskólinn í Newcastle í Englandi frumkvæði að fjölþjóðlegum samanburðarrannsóknum á lífrænum og öðrum afurðum frá landbúnaði fyrir um áratug. Þær hófust með því að vísindamenn frá mörgum löndum tóku saman niðurstöður 343 matvælarannsókna sem birtar höfðu verið í ýmsum vísindaritum og gerðu á þeim ítarlega, tölfræðilega greiningu. Einnig byggðu þeir á niðurstöðum stórrar ræktunartilraunar á landi háskólans skammt frá Newcastle upon Tyne. Fyrstu ritrýndu og birtu niðurstöðurnar komu 2011 og stöðugt eru að bætast við nýjar upplýsingar sem eru mjög athyglisverðar fyrir bæði bændur og neytendur. Þá ættu stjórnvöld að hafa þær til hliðsjónar við stefnumótun í landbúnaði því að lífrænir búskaparhættir hafa margvíslega kosti sem falla vel að nútímasjónarmiðum, svo sem varðandi bætta lýðheilsu, og umhverfisvernd. Hér verður fjallað um grænmeti og ávexti en síðar um mjólk og kjöt.
Í ofangreindum rannsóknum kom fram að fjórum sinnum meira var af plöntuvarnarefnum á borð við illgresiseyða og sveppaeitur í því grænmeti og ávöxtum sem ekki var ræktað með lífrænum hætti. Þar sem notkun þessara efna er bönnuð við lífræna ræktun fannst ekki nein slík mengun í 90% þeirra sýna. Í þeim tiltölulega fáu sýnum þar sem slík skaðleg mengun kom fram var það talið stafa af krossmengun frá aðliggjandi býlum þar sem verið var að nota þessi eiturefni við ræktunina.
Auk þessa veigamikla mismunar kom fram að bæði lífrænt grænmeti og ávextir höfðu raunhæft minna af eitruðum þungmálmum svo sem kadmíum ( Cd). Þegar kom að andoxunarefnum, sem eru mikilvæg fyrir frumur líkamanns, höfðu lífrænt grænmeti og ávextir mikla yfirburði og getur þessi vitneskja einnig skipt miklu máli til að bæta heilnæmi fæðunnar. Þá kom glögglega í ljós að miklu minna var af nítrötum í lífrænt ræktuðu grænmeti og ávöxtum en slíkum afurðum framleiddum við aðra búskaparhætti sem leyfa mikla notkun á köfnunarefnisríkum (N), tilbúnum áburði.
Hefur mikil neysla nítrata verið tengd aukinni hættu á magakrabbameini. Í niðurstöðum sumra rannsóknanna hafa grænmeti og ávextir reynst vítamínríkari.
Það er fleira en framangreint sem getur haft áhrif á gæði grænmetis og ávaxta sem framleidd eru við mismunandi ræktunarhætti. Bragðgæði grænmetis og ávaxta eru t.d. mjög veigamikill þáttur frá sjónarhóli neytenda og hafa þau gæði verið rannsökuð töluvert erlendis, þó minna en efnasamsetningin. Að ýmsu leyti er erfiðara að rannsaka hina margvíslegu þætti sem ráða bragðgæðum. Er það einkum gert með þrennum hætti; í fyrsta lagi með efnarannsóknum, í öðru lagi með stöðluðum bragðprófunum og í þriðja lagi með neytendakönnunum. Bæði hér á landi og erlendis hefur komið vel í ljós að bragðgæði eru ein veigamesta ástæða þess að neytendur kaupa lífrænt grænmeti svo sem gulræturog ávexti á borð við epli. Ástæður aukinna bragðgæða lífræns grænmetis og ávaxta virðist einkum mega rekja til hás hlutfalls andoxunarefna, hærra hlutfalls þurrefnis, og þar með lægra hlutfall vatns, og hagstæðari sykur- og sterkjuhlutfalla þegar auðleystur tilbúinn áburður er ekki notaður.
Megin niðurstöðurnar eru því þessar: Lífrænt grænmeti og ávextir eru næringarríkar, hollari og oftast bragðbetri en slík matvæli framleidd við aðra búskaparhætti.
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson þýddi og endursagði úr eftirtöldum vísindagreinum og öðrum heimildum:
- Marcin Baranski o.fl. British Journal of Nutrition, 6 May 2014.
- Rachel Tobin o.fl. International Journal of Food Science and Technology 48 (1), 157-162, 2013.
- Scott Trimble. Applied Food Science. Felix Instruments, October 28, 2019.
- Richard C. Theuer. State of Science Reviews: Taste of Organic Food. The Organic Center ( www.organic-center.org),18 pp. 2006.
- Sigrún Höskuldsdóttir. Lífrænt vottuð matvæli. Hverjir kaupa þau og hvers vegna ? B.S. ritgerð í landfræði, Háskóli Íslands, Raunvísindadeild, Jarð- og landfræðiskor, fjölrit 43 bls., júní 2003.