Hvers vegna lífrænt ? Rannsóknir á mjólk

Lífræn matvælaframleiðsla er víða í sókn, ekki aðeins vegna gæða afurðanna heldur einnig vegna þess að lífræn ræktun er vænleg leið til að draga úr sótspori landbúnaðar, minnka stórlega mengun af völdum hans og bæta velferð búfjár. Í tveim fyrri pistlum var gerð grein fyrir vísindalegum  rannsóknum á lífrænt vottuðu hveiti, grænmeti og ávöxtum. Hér verður farið yfir í búfjárafurðir og greint frá  niðurstöðum víðtækra samanburðarrannsókna á mjólk.

Líkt og í fyrri pistlum er byggt á hinum fjölþjóðlegu rannsóknum sem Háskólinn í Newcastle í Englandi hefur unnið að um langt árabil en í þeim voru dregin saman mjög umfangsmikil gögn frá undanförnum 20-25 árum. Auk þess er vitnað í  nokkrar fleiri rannsóknir, aðallega á kúamjólk, en einnig hefur  sauðamjólk komið við sögu á seinni árum.  Kúamjólkurrannsóknirnar hafa byggst á stórum gagnasöfnum, einkum frá Þýskalandi, Bretlandseyjum, Ítalíu, Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Sviss, Bandaríkjunum og Brasilíu, og hafa niðurstöðurnar birst í nær 200 ritrýndum vísindagreinum. Sauðamjólkurgögnin eru eingöngu byggð á all umfangsmiklum grískum samanburðarrannsóknum á eyjunni Krít á austanverðu Miðjarðarhafi og voru niðurstöðurnar birtar í vísindariti 2020, sbr. 5. heimild í tilvísanaskránni.

Það sem vekur fyrst athygli við yfirferð vísindagreinanna er hið mikla samræmi á milli niðurstaðna hinna ýmsu rannsókna og eykur það traust á hagnýtu gildi þeirra fyrir neytendur mjólkur frá lífrænt vottuðum búum. Mismunur á mjólk frá þeim og þeirri sem framleidd er við aðra búskaparhætti er fyrst og fremst sá að lífræna mjólkin hefur mun meira af æskilegum fitusýrum. Þar munar mest um hinar mikilvægu omega 3 – fitusýrur en af þeim er allt að tvisvar sinnum meira í lífrænu mjólkinni og getur slíkt haft jákvæð áhrif á heilsufar, svo sem fyrir hjarta og æðakerfi. Lífræna mjólkin reyndist einnig vera járnríkari (Fe) en ekki kom fram munur á magni próteins og fitu eftir mjólkurtegundum. Á lífrænum kúabúum er byggt mun meira á beit og heyfóðrun en almennt gerist við mjólkurframleiðslu og eru það taldar veigamestu ástæður þess að lífræna mjólkin hefur æskilegri hlutföll fitusýra og er því hollari. Hafa skal í huga að á lífrænum kúabúum er leyfileg notkun fóðurbætis aðeins um eða innan við 10% af heildarfóðri, miklu minni en almennt gerist við nútíma mjólkurframleiðslu. Eftir því sem meira af korni er notað og minna af grasi og grasafurðum verður fitusýruhlutfallið óhagstæðara, hvort sem kúabúið er með lífræna vottun eða ekki. Því er það þekkt sums staðar erlendis að mjólk framleidd að mestu með beit og heyfóðrun er greidd hærra verði og þá venjulega því hæsta fyrir þá lífrænu því að hún hefur að auki a.m.k. tvenns konar kosti miðað við aðra mjólk:

  1. lítið eða ekkert af eiturefnaleifum
  2. lítið eða ekkert af sýklalyfjaleifum

Hvort tveggja getur skipt miklu máli með tilliti til heilsufars.

Hvað sauðamjólkina varðar kom einnig fram greinlegur munur hjá ánum sem bendir í sömu átt og hjá kúnum. Eftir því sem beit og grasfóðrun er meiri og fóðurbætisnotkun minni er fitusýruhlutfallið hagstæðara, einkum omega-3.

Megin niðurstöðurnar eru því þessar: Lífræn mjólk er næringarríkari og hollari en mjólk sem framleidd er við aðra búskaparhætti.

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson þýddi og endursagði úr eftirtöldum vísindagreinum:

  1. Dominika Srednicka-Tober o.fl. British Journal of Nutrition 115, 1043-1060, 2016.
  2. Charles M. Benbrook o.fl. Food Science Nutrition 6, 681-700, 2018.
  3. Sokratis Stergiadis o.fl. Food Chemistry 251, 93-102, 2018.
  4. Hannah Davis o.fl. Sustainability 12, 3688, 1-15, 2020.
  5. Nicolas Voutzourakis o.fl. Sustainability 12, 1228, 1-16, 2020.

Mynd: Íslenskar kýr á beit á Neðra-Hálsi í Kjós