Framboð lífrænt vottaðra matvæla er stöðugt að aukast í samræmi við eftirspurn neytenda sem þurfa að fá áreiðanlegar upplýsingar um gæði og kosti þessara vara. Í þrem fyrri pistlum hefur verið fjallað í stuttu máli um vísindalegar rannsóknir á hveiti, grænmeti, ávöxtum og mjólk frá búum með vottaða lífræna búskaparhætti, í mörgum löndum. Hér verður vikið að slíkum rannsóknum á kjöti. Miðað við hinar fæðutegundirnar hefur legið minna fyrir af birtum vísindalegum niðurstöðum um kjöt til þessa.
Sem fyrr er byggt á hinum fjölþjóðlegu rannsóknum á lífrænt vottuðum matvælum sem Háskólinn í Newcastle upon Tyne í Englandi hefur haft forgöngu um síðan fyrir aldamótin 2000.
Unnið var með stórt gagnasafni úr 67 ritrýndum vísindagreinum þar sem 25 sérfræðingar frá 13 háskólum og rannsóknarstofnunum í Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku, Grikklandi, Ítalíu, Noregi, Póllandi, Sviss og Tyrklandi lögðu hönd á plóginn. Þótt þessar samanburðarrannsóknir á milli lífrænna og annarra búskaparhátta séu smærri í sniðum en þær sem gerðar hafa verið á hveiti, grænmeti, ávöxtum og mjólk gefa niðurstöður þeirra vísbendingar sem geta skipt neytendur máli. Athygli vekur hve vísindamennirnir benda vel á tiltekna vankanta á gögnunum og uppgjörinu og eru varkárir í ályktunum sínum.
Niðurstöður framangreindra rannsókna tóku einkum til nautakjöts, lambakjöts og geitakjöts, nokkuð til svínakjöts, en aðeins að litlu leyti til kjúklingakjöts. Nokkur munur kom fram á milli kjöttegunda en gögnin leyfðu ekki samanburð á milli búfjárkynja innan hverrar búfjártegundar. Mestu máli skiptu beit og fóðrun líkt og þekkt er fyrir mjólk og mjólkurafurðir. Mismunurinn á lífrænt vottuðu kjöti og öðru, framleiddu við aðra búskaparhætti, oft með mikill kornfóðrun, fólst einkum í innihaldi æskilegra fitusýra á borð við omega-3 sem geta haft áhrif á heilsufar, svo sem á hjarta og æðakerfi. Helgast þessi mismunur einkum af meiri notkun grasafurða, bæði við fóðrun og beit á lífrænt vottuðum búum, ekki aðeins fyrir jórturdýr heldur einnig fyrir svín sem nýta töluvert jurtafóður hafi þau aðgang að beitilandi. Því meiri kornfóðrunin, þeim mun óhagstæðara fitusýrusamsetningin, líkt og í mjólkinni. Vísbendingar komu fram um að lífræna kjötið væri járnríkara ( Fe) ogí því væri minna af hinum eitraða þungmálmi kadmíum (Cd). Til viðbótar þessum niðurstöðum er bent á þrjú kosti sem lífrænar kjötafurðir hafa umfram aðrar sem framleiddar eru við ólíka búskaparhætti og geta haft áhrif á hollustu afurðanna:
- lítið eða ekkert af eiturefnaleifum
- lítið eða ekkert af sýklalyfjaleyfum
- erfðabreytt fóður alls ekki notað
Megin niðurstöðurnar eru þessar: Lífrænt kjöt er næringarríkara og hollara en kjöt sem framleitt er við aðra búskaparhætti.
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson þýddi og endursagði úr vísindagreininni:
Dominika Srednicka-Tober o.fl. ( 2016). Composition differences between organic and conventional meat: a systematic literature review and meta-analysis. British Journal of Nutrition 115, 994-1011.