Hvers vegna lífrænt ? Rannsóknir á heilsufari og lýðheilsu

Hvers vegna lífrænt ?

Í pistlunum fjórum hér að framan hafa verið kynntar í stuttu máli niðurstöður fjölþjóðlegra rannsókna sem hafa sýnt að lífrænt vottuð matvæli eru að ýmsu leyti hollari, næringarríkari og jafnvel bragðbetri en þau sem framleidd eru við aðra búskaparhætti. Hér verður einkum vísað í rannsóknir sem hafa leitast við að tengja þessar niðurstöður við einstaklingsbundið heilsufar og lýðheilsu. Þær voru gerðar á árunum 1996-2019 í 12 löndum;  Ástralíu, Bandaríkjunum, Brasilíu, Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Noregi, Sviss, Svíþjóð og Þýskalandi. Gagnagrunnurinn byggðist á samtals 35 rannsóknum, sem spönnuðu tímabilið frá fósturskeiði og upp í efri ár. Fjöldi vísindamanna kom að þessum rannsóknum en níu þeirra stóðu að birtingu yfirlitsgreinanna frá 2017 og 2020 sem hér er vitnað í (1 og 2).

Vísindamennirnirbenda á að rannsóknir af þessu tagi séu  vandasamar og túlkun niðurstaðna  krefjist mikillar varkárni.  Vissulega sé gagnlegt að afla upplýsinga um einstaka þætti svo sem andoxunarefni, omega 3-fitusýrur og eiturefnaleyfar í blóði, en til að fá afgerandi niðurstöður sé þörf langtímarannsókna til þess að greina ákveðnar tengingar við heilsufarsþætti, hvort sem um er að ræða t.d. fósturgalla eða tiltekna sjúkdóma í fólki á ýmsum aldri. Þá þurfi að miða við heildarfæði hvers og eins fremur en einstakar tegundir matar. Þótt vísindamennirnir telji ekki enn unnt að gefa út ákveðnar yfirlýsingar um heilsubætandi áhrif lífrænna matvæla leggja þeir fram nokkrar sterkar vísbendingar um þessi tengsl og þá helst þessar:

Aukin neysla lífrænna matvæla virðist m.a. draga úr ófrjósemi í bæði körlum og konum, fósturgöllum, meðgöngutruflunum, eyrnabólgu, ofnæmisviðbrögðum, efnaskiptatruflunum, offitu og eitlakrabbameini. Þá eru einnig jákvæðar vísbendingar, þó veikari, um tengsl við hjarta- og æðasjúkdóma, taugahrörnunarsjúkdóma og ákveðnar tegundir krabbameina, auk eitlakrabbameins.

Ofangreindar rannsóknir tóku ekki til hugsanlegra áhrifa erfðabreyttra matvæla á heilsu fólks, en ein veigamesta ástæða þess að neytendur kaupa lífrænt vottuð matvæli er sú að erfðabreyttar lífverur eru bannaðar við framleiðslu þeirra. Þar hafa rannsóknirnar eingöngu byggst á dýratilraunum og eru niðurstöðurnar enn umdeildar. Samt hafa nú þegar komið fram vísbendingar um m.a. líffæraskemmdir, hormónatruflanir, offitu, fæðuóþol og æxlamyndanir, auk hærri dánartíðni í tilraunadýrum sem hafa fengið fóður með erfðabreyttu hráefni (GMOs).

Þá er rétt að hafa í huga að fleiri gæðaþættir en næringargildi og hollusta eru að auka eftirspurn neytenda eftir lífrænt vottuðum matvælum. Þar hefur borið hæst bæði betri meðferð landbúnaðarlands og búfjár en tíðkast við aðra búskaparhætti, og á seinni árum einnig verndun líffræðilegrar fjölbreytni, alhliða umhverfisvernd og  meiri kolefnisbindingu lífrænnar ræktunar.

Þegar öll kurl eru komin til grafar verða heildarniðurstöðurnar þessar:  Lífræn matvæli eru næringarríkari og hollari en þau sem framleidd eru við aðra búskaparhætti, og lífrænn landbúnaður hefur yfirburði vegna jarðvegsverndar, bættrar velferðar búfjár og kolefnisbindingar.

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson þýddi og endursagði úr eftirtöldum fjórum vísindagreinum (1-4) og einu riti þar sem niðurstöður úr 124 vísindagreinum og skýrslum eru dregnar saman (5):

  1. Marcin Baranski o.fl. ( 2017). Effects of organic food consumption on human health; the jury is still out. Food and Nutrition Research, Vol. 61, No. 1: 1-5.
  2. Venessa Vigar o.fl. (2020). A systematic review of organic versus conventional food consumption: is there a measurable benefit on human health ? Nutrients, 12,7;doi: 10.3390/nu12010007: 32 pp. www.mdpi.com/journal/nutrients
  3. Giles-Eric Séralini o.fl. (2014). Answers to critics: Why there is a long term toxicity due to NK603 Roundup-tolerant genetically modified maize and to a Roundup herbicide. Food Chemistry and Toxicology, Vol. 53: 476-483.
  4. Vonne Lund (2006). Natural living-a precondition for animal welfare in organic farming. Livestock Science, Vol. 100, Issue 2-3: 71-83.
  5. Adrian Muller o.fl. (2016). Organic farming, climate change mitigation and beyond. Reducing the environmental impact of EU agriculture. Publication from the IFOAM EU Group in cooperation with FiBL : 71 pp. ( www.ifoam-eu.org).