Koma til móts við sístækkandi hóp neytenda

Eggjaframleiðandinn Nesbú tók fyrr í sumar í notkun nýtt lífrænt hænsnahús í Miklholtshelli í Flóahreppi þar sem framleidd eru lífræn egg samkvæmt stöðlum frá Vottunarstofunni Túni. Nýja húsið, sem er hólfaskipt, tekur í heildina 18 þúsund fugla og telja eigendurnir þetta góða viðbót inn á sístækkandi hóp neytenda sem kjósa lífrænar vörur.

„Við erum með þessari stækkun að svara eftirspurn því það er alltaf hluti neytenda sem kaupir lífrænt ef það er í boði og erum að reyna að koma til móts við þann hóp. Þessi staður í Flóanum verður eingöngu með lífræna framleiðslu en á Vatnsleysuströndinni verðum við áfram í hefðbundnum búskap,“ segir Stefán Már Símonarson, framkvæmdastjóri Nesbús.

Nýju húsin í Miklholtshreppi eru græn á lit og vísa í lífræna framleiðslu

Vetrargarðar og útisvæði

Nýju húsin tvö í Miklholtshelli eru græn á lit sem vísa í lífræna framleiðslu. Eggin frá búinu verða til í öllum betri verslunum að sögn Stefáns.
„Nýju húsin taka 18 þúsund hænur, í hvoru húsi eru sex hólf sem taka hvert um sig þrjú þúsund hænur. Þau eru um tvö þúsund fermetrar að stærð með sérstökum vetrargörðum, sem eru yfirbyggð svæði þar sem fuglinn getur hlaupið um. Einnig hafa fuglarnir aðgang að útisvæðum sem er reyndar ekki hægt að nota núna vegna fuglaflensunnar sem geisar í villtum fuglum hér á landi,“ útskýrir Stefán.