Lífræna nautakjötið fær góðar viðtökur

Fyrir rúmu ári síðan kom á markað lífrænt nautakjöt frá Biobú og hefur verið góður stígandi á þessu ári í sölu á kjötinu. Helgi Rafn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Biobú, segir þetta góða viðbót við aðrar vörulínur fyrirtækisins og að ferlið í byrjun hafi gengið vel fyrir sig.

„Staðan á þessum kjötmarkaði er eins og þegar Biobú byrjaði fyrir 19 árum, þá vorum við með jógúrt í þremur búðum og það er eiginlega sama núna. Það eru fjórar vörutegundir í þremur verslunum en þetta eru bara fyrstu skrefin í þessu ferli. Þetta byrjar rólega enda erum við að gera þetta í hjáverkum, en það er búin að vera mikil aukning í vor og sumar. Eins og er kemur allt kjötið frá Neðra Hálsi í Kjós en næstu skref hjá okkur eru að koma kjötinu í fleiri verslanir og taka svo gripi frá hinum bæjunum,“ segir Helgi Rafn.


Hugsað lengi um ný vörumerki

Helgi Rafn og starfsfólkið í Biobú höfðu hugsað það í töluverðan tíma að auka við vöruúrvalið og ákváðu þau að láta slag standa þegar nýtt lógó var hannað fyrir fyrirtækið.
„Fyrir rúmu ári fórum við í naflaskoðun og breyttum um vörumerki. Á þeim tíma vorum við að fara hanna nýjar umbúðir og tókum þá umræðu hvort við ættum að halda okkur við gamla lógóið eða gera nýtt vörumerki og fara út í fleiri greinar. Við höfum hugsað þetta í gegnum tíðina að það vanti ansi mikið af öðrum vörumerkjum, fyrir utan mjólkina. Þá áttuðum við okkur að því að við höfum aðgang að kýrkjöti, en það er sífelld endurnýjun á bæjunum á kúnum og því fannst okkur það tilvalið að finna leið til að koma þessu á markaði,“ útskýrir Helgi Rafn og bætir við:
Það gilda sömu lögmálin um kjötið og mjólkurvörurnar en þarna eru það gripirnir sem gefa mjólkina. Þessir bæir nota ekki tilbúinn áburð á túnin og strangari kröfur eru um útivist ásamt því að kýrnar fá lífrænan fóðurbæti og gripirnir eru vottaðir eins og mjólkin og aðrar lífrænar vörur. Það er eðlileg hringrás í ferlinu. Það gekk mjög vel að fá vottunina en við þurftum að finna sláturhús því SS hafði ekki áhuga á að fá vottun á kjötið. Sláturhúsið í Borgarnesi hafði áhuga og fékk vottun en við sjáum sjálf um flutningana og sá liður er í þróun hjá okkur, þegar við byrjum að taka kjöt frá öðrum bæjum.“

Dora Ruf og Kristján Oddsson eru frumkvöðlar í lífrænni ræktun á Íslandi og búa á Neðra-Hálsi í Kjós. Mynd / TB

Biobú hefur í kynningarefni tilgreint þrjár góðar ástæður fyrir því að velja lífrænt og eru þær eftirfarandi:

1. Af heilbrigðisástæðum

Með því að velja vottuð lífræn matvæli ert þú að forðast sjálfkrafa mörg hættuleg aukaefni í matvælum – eins og gervisætuefni (aspartam, súkralósa) og gervimatvælafitur, rotvarnarefni og fleira sem er bannað að nota í lífrænni framleiðslu. Öll aukaefni notuð í matvinnslu verða að vera af lífrænum uppruna. Allt sem er genabreytt er einnig bannað.

2. Af umhverfisástæðum

Í lífrænni framleiðslu er bannað að nota auðleystan tilbúinn áburð og kemísk varnarefni gegn skordýrum og illgresi. Við lífræna ræktun verður engin mengun vegna kemískra efna auk þess sem útskolun á næringarefnum er haldið í lágmarki. Lífræn ræktun byggist á því að viðhalda lokaðri hringrás næringarefna, þar sem notuð eru öll þau lífrænu næringarefni sem til falla á búinu sjálfu.

3. Af dýravelferðarástæðum

Í lífrænum búskap er dýrum ætlaður betri aðbúnaður en almennar reglur segja til um. Það er gert til að dýrin geti hreyft sig meira og betur notið eðlislægrar hegðunar. Betri aðbúnaður og lífrænt ræktað fóður, þar sem ekki er fóðrað m.t.t. hámarksafurða, er okkar leið til að skapa heilbrigðan bústofn, þar sem lyfjanotkun er að mestu óþörf.