Fæðu- og matvælaöryggi verður ekki tryggt í sátt við umhverfi og velferð búfjár nema með markvissri endurskoðun á framleiðsluháttum í landbúnaði

Gífurleg hækkun á verði tilbúins áburðar, innrás Rússa í Úkraínu og loftslagsbreytingar ógna nú fæðu- og jafnvel matvælaöryggi  um allan heim. Í stað þess að treysta í innflutning matvæla er verið að hvetja til aukinnar heimaframleiðslu vegna verulega breyttra aðstæðna nú í seinni tíð. Blekkingin um ódýran mat,  án tillits til framleiðsluhátta, þar með velferðar búfjár, er að leysast upp í því ástandi sem nú blasir við. Nú duga ekki ósjálfbærar tæknilausnir og gylliboð sem sumir stjórnmála- og vísindamenn hafa aðhyllst undir áróðri fjölþjóðafyrirtækja sem afla eigendunum stórgróða á kostnað bæði bænda og neytenda. Þetta er hápólitískt mál þegar öllu er á botninn hvolft.

Töluvert ber á þeirri skoðun um þessar mundir að nú megi slaka á kröfum til umhverfisverndar og velferðar búfjár í tengslum við matvælaframleiðslu. Í Bretlandi er t.d. komin út ný reglugerð sem slakar á kröfum til ræktunar á erfðabreyttum nytjajurtum. Þarna er aðilar innan líftækniðnaðurins að nota tækifærið til að koma vel þekktum gylliboðum á framfæri í gegn um stjórnvöld en neytendur fá ekki að sjá öll spilin á borðinu. Að mínum dómi er iðulega um hreinan áróður að ræða í þessum efnum sem leiðir til upplýsingaóreiðu eða falsfrétta. Skiljanlegt er að fjöldi neytenda láti blekkjast í ljósi mikilla verðhækkana og jafnvel skorts á matvælum.

Gott dæmi um árás óprúttinna stjórnmálamanna og fjölþjóðlegra efnafyrirtækja er nú í gangi gegn lífrænum landbúnaði á Sri Lanka (áður Ceylon). Þar er fæðuskortur og hækkandi matvælaverð skrifað á reikning lífræns búskapar. Verið er að hengja bakara fyrir smið og má m.a. sjá umfjöllun um þetta mál á internetinu. Í stórum dráttum er þetta að  gerast:

Ríkissjóður Sri Lanka var að komast í þrot 2021, m.a. vegna Covid 19-faraldursins sem skaðaði hinn mikilvæga ferðaiðnað þar gríðarlega. Einnig voru skuldir við erlenda banka orðnar mjög miklar, m.a. vegna misráðinna hafnarframkvæmda þar sem Kínverjar komu við sögu. Allt frá því í hinni svokölluðu Grænu byltingu, sem hófst 1965, hafði t.d. uppskera hrísgrjóna verið þrefölduð með gífurlegri notkun tilbúins áburðar og eiturefna. Stjórnvöld, undir forystu Rajapakse þjóðarleiðtoga Sri Lanka lýstu því yfir í ársbyrjun 2021 að ekki væru til gjaldeyrir til að flytja inn tilbúinn áburð. Þegar komið var fram í apríl var slíkur innflutningur hreinlega bannaður og ríkisstjórnin boðaði alhliða innleiðingu lífræns landbúnaðar, án aðlögunar, sem að sjálfsögðu er ekki skynsamlegt. Leitað var ráðgjafar dr. Vandana Shiva, indversks vísindamanns, sem er vel þekkt m.a. í Slow Food og Lífrænu hreyfingunni, en hún flutti erindi um sjálfbæran landbúnað í Háskólabíói  fyrir réttum áratug. Nú er reynt að koma höggi á hana og lífræna framleiðsluhætti þegar hið sanna er að stöðvun á innflutningi tilbúins áburðar var á meðal þeirra ráðstafana sem stjórnvöld hafa gripu til í slæmu kreppuástandi. Matvælaskortur og hækkanir á matarverði á Sri Lanka verða því ekki skrifaðar á reikning lífrænna framleiðsluhátta.

Vissulega þurfa ríkissjóðir að koma til móts við bændur vegna hinna miklu verðhækkana á aðföngum og það er gert hér á landi og víða um heim. Þá er hætt við því að skammtímasjónarmið ráði för um of á sama tíma og við þurfum að líta til framtíðar. Efling lífrænna búskaparhátta, án tilbúins áburðar, eiturefna og erfðabreyttra nytjajurta, bætt velferð búfjár, afnám verksmiðjubúskapar og skynsamleg nýting beitilanda vega þar þungt, ekki síst í ljósi loftslagsmálanna. Þannig verður bæði fæðu- og matvælaöryggi best tryggt þegar til lengri tíma er litið.

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson, búvísindamaður