Fagna ótrúlegu starfi kvenna í lífrænni ræktun

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti á dögunum lista yfir keppendur sem komust í úrslit í fyrstu lífrænu verðlaunum til kvenna, sem sambandið stendur fyrir og verður árlegt héðan í frá. Verðlaununum var hleypt af stokkunum fyrr í ár sem hluti af skuldbindingu sem gerð var í aðgerðaráætlun um þróun lífrænnar framleiðslu með það að markmiði að viðurkenna ágæti lífrænu fæðukeðjunnar, allt frá bónda til veitingastaða. Markmið verðlaunanna er að verðlauna bestu og nýstárlegustu lífrænu aðilana sem leggja sitt af mörkum til að draga úr áhrifum landbúnaðarins á loftslag og umhverfi.

Evrópusamtök bænda Copa-Cogeca eru samstarfssamtök Evrópusambandsins og höfðu umsjón með umsóknar- og valferli fyrir flokkinn besti kvenkyns lífræni bóndinn. Alls bárust 37 umsóknir frá 12 aðildarríkjum þar sem úrval var af áhugaverðum og nýstárlegum verkefnum sem sýndu virkan nýsköpunar- og frumkvöðlaanda kvenbænda í greininni. Valið var gríðarlega erfitt vegna hæfni umsækjendanna en hér að neðan má sjá þær þrjár sem valdar voru út frá verkefnum þeirra og kynningu:

  1. Katharina Lichtmannsperger – Austurríki

Katharina rekur mjólkurbú með mikilvæga áherslu á að draga úr umhverfisáhrifum þess og viðhalda sterkum og djúpum tengslum við nærsamfélagið og samfélagið í heild. Hún framleiðir eigin aðföng auk þess að skapa samlegðaráhrif við skóginn sem hún á og stjórnar. Hún rekur fræðsluverkefni í skólum og styður við ferðaþjónustu á sínu svæði og er mjög virk í að efla þátttöku dómnefndarkvenna í lífrænum landbúnaði.

  • Nazaret Mateos Álvarez – Spánn

Nazaret er ungur frumkvöðull og bóndi úti á landsbyggðinni við Palencia á Spáni. Hún rekur Entresetas, lítið dreifbýlisfyrirtæki, sem sérhæfir sig í ræktun og markaðssetningu lífrænna sælkerasveppa. Í framleiðslu sinni fylgir hún náið meginreglunni um hringrásarhagkerfið og leggur áherslu á sem minnsta notkun aðfanga. Einnig leggur hún áherslu á að skapa samlegðaráhrif milli skógar og landbúnaðar og nýtir það sem hún getur úr skóginum fyrir framleiðsluna. Þar að auki er Nazaret í samstarfi við skóla um umhverfisfræðslu til nemenda ásamt því að tengja börn og eldri kynslóðir saman í gegnum vinnustofur.

  • Sara Vezza – Ítalía

Sara er ástríðufullur lífrænn vínframleiðandi sem vinnur í nánu samspili við umhverfið og leggur áherslu á að auka líffræðilegan fjölbreytileika í vínræktinni og við skógrækt. Hún leggur áherslu á þrjá meginþætti sem eru: hefð, tengsl við landssvæðið og virðingu fyrir umhverfinu með sjálfbærri framleiðslu. Auk þess býður hún upp á fræðsludagskrá fyrir ferðamenn og tekur virkan þátt í fræðsluskólum.

Sigurvegarinn fyrir besta kvenkyns lífræna bóndann verður tilkynnt á opinberri verðlaunaafhendingu í Brussel þann 23. september næstkomandi í tilefni af lífræna degi Evrópusambandsins. Samstarfsaðilar verðlaunanna eru Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Evrópuþingið, Ráð Evrópusambandsins, Efnahags- og félagsmálanefnd Evrópu, Evrópunefnd svæða, Copa-Cogeca og IFOAM.