Snúin staða í lífrænni sauðfjárrækt

Eydís Magnúsdóttir og Rúnar Máni Gunnarsson reka ferðaþjónustubú og stunda lífrænan sauðfjárbúskap á Sölvanesi í Skagafirði. Eftir þriggja ára aðlögunarferli í gegnum vottunarstofuna Tún fengu þau loksins vottun á lambakjötið hjá sér fyrir ári síðan. Þá vildi ekki betur til en svo að þau fengu fregnir af því að öll sláturhús í þeirra landshluta myndu ekki endurnýja lífræna vottun sína.

Kostnaðarsamt að sækja um vottun

Nú er Sláturhús Vesturlands í Borgarnesi eina sláturhúsið á landinu sem hefur leyfir til að slátra undir merkjum lífrænnar vottunnar.

„Við erum með samning við SAH að slátra fyrir okkur en þá er það tekið í verktöku og kostnaðurinn fellur á okkur. Við vonumst til að SAH geti slátrað fyrir okkur í september, þetta eru um 300 lömb sem um ræðir en því miður fellur kostnaðurinn á okkur. Sláturhúsin þurfa þó að sækja um lífræna vottun á hverju ári og það er kostnaðarsamt og í fyrra er staðan sú að við gátum ekki markaðssett kjötið sem lífrænt. Ef við sendum gripina í Borgarnes gefur það auga leið að ferðalagið verður mun meira og aukinn kostnaður við flutninga, en við vinnum allt kjötið á Skagaströnd og seljum sjálf. Með þessu móti tvöfaldast flutningsleiðin sem er ekki alveg í takt við lífrænu hugmyndafræðina,“ útskýrir Eydís.

Vottunarkostnaður fellur á bændurna

Vegna breytinga á aðbúnaðarkröfum til lífræns sauðfjárbúskapar, misstu allir sauðfjárbændur á landinu, fyrir utan Sölvanesbændurnir, sína vottun. Kostnaður við vottun, það er að segja hjá sláturhúsinu fellur á Eydísi og Rúnar.

„Við erum að meta það hvort það hreinlega borgi sig að standa í þessu því árlegur vottunarkostnaður mun lenda á okkur og þá er ansi margt sem leggst ofan á lambakjötið. Við myndum vilja sjá að hluti af því fjármagni sem veitt er til stuðnings búgreinum og lífrænum búskap yrði varið til dæmis til að halda starfræktum 2-3 sláturhúsum vítt og breitt um landið þannig að líklegra verði að fleiri bætist við, að þessi möguleiki sé til staðar fyrir bændur og neytendur,“ segir Eydís sem lítur framtíðina björtum augum þrátt fyrir þær hindranir sem þau hafa rekið sig á. Hún telur mikil tækifæri í lífrænum búskap og segir það hafa gengið afar vel að selja allt sem þau framleiða beint frá býli.