Ég hef undanfarið verið að velta fyrir mér því sem ekki stendur á umbúðunum á mat. Á matarumbúðum standa innihaldsefni og samsetning á næringarefnum s.s. kolvetni, prótein, fitu, trefjar og salt. En það stendur ekki utan á matarumbúðum hvort maturinn er meðhöndlaður með einhverjum efnum. Eins og til dæmis þurrkaðar apríkósur.
Nýlega komst ég að því að þurrkaðar apríkósur eiga að vera brúnar á litinn en þær sem þú sérð út í búð eru venjulega skærappelsínugular. Það er vegna þess að búið er að meðhöndla þær með sulfur dioxide eða brennisteinsdíoxíði til þess að þær líti betur út. Lífrænar þurrkaðar apríkósur eru brúnar á litinn, sem er þeirra rétti litur, en ekki má meðhöndla lífrænt vottaðar vörur með brennisteinsdíoxíði.
Mér finnst persónulega þær lífrænu betri á bragðið og þær endast vel. Brennisteinsdíoxíð er efni sem getur valdið astma og ofnæmi og ekki þarf að taka það fram á umbúðum þegar matur er meðhöndlaður með þessu efni.
Það sama á við um hvítan sykur. Ég hélt alltaf að sykur væri skjannahvítur á litinn en það er ekki rétt. Náttúrulegur ómeðhöndlaður sykur er brúnleitur á litinn. Þessi hvíti sykur sem við þekkjum er svona á litinn því einnig er búið að meðhöndla hann með brennisteinsdíoxíði og það þarf ekki að taka það fram á umbúðunum.
Svo eru það eiturefnaleifarnar. Lífrænt vottaðar vörur eru með þessa staðfestingu á að framleiðandinn hafi ekki notað eitur í ræktuninni. En það stendur ekki á öðrum vörum sem ekki eru lífrænar ef eitur er notað. Það stendur til dæmis ekki “þessir tómatar eru eitraðir 5 sinnum yfir ræktunartímann ” eða “það mælast eiturefnaleifar á þessari tegund af eplum ár hvert” þó oft sé það staðreyndin.
Þannig að þessar upplýsingar eru faldar fyrir okkur neytendum og við höfum enga ástæðu til að halda að eiturefnaleifar finnist í matnum sem við erum að kaupa – ekki fyrr en við gröfum upp árlegu eftirlitsskýrslur frá EFSA þar sem kemur í ljós að um 50% af öllum sýnum sem tekin eru á mat í Evrópusambandinu innihalda leifar af eiturefnum, ekkert eða einungis brot af því finnst í lífrænt vottuðum vörum.
Anna María Björnsdóttir, lífrænn neytandi