Í vikunni voru drög að nýrri matvælastefnu gefin út sem matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, mun kynna á Matvælaþingi þann 22. Nóvember í Hörpunni. Matvælastefnunni er ætlað að verða leiðarljós fyrir stefnumörkun í landbúnaði, sjávarútvegi og fiskeldi og er afar ánægjulegt að sjá hversu mikil áhersla er á að styrkja innlenda matvælaframleiðslu með hringrásarhagkerfið að leiðarljósi ásamt sjálfbærni í framleiðslu til að styrkja stoðir fyrir fæðuöryggi landsins.
Í drögunum kemur fram að efling lífrænnar framleiðslu sé lykilþáttur í að auka sjálfbærni í matvælaframleiðslu, þar sem lífræn framleiðsla sé til þess fallin að minnka kolefnisspor og varðveita líffræðilegan fjölbreytileika, auk þess sem hún stuðlar að bættri dýravelferð. Í kaflanum „Grípum tækifærin, en mætum jafnframt áskorunum“, er talað um að til að ná sjálfbærni í matvælaframleiðslu þurfi að efla lífræna matvælaframleiðslu.