Framleiðslan tvöfaldast á örskömmum tíma

Undanfarin misseri hafa forsvarsmenn Bio-bú endurskipulagt allan reksturinn í kjölfarið af því að mjólkurinnlegg til þeirra er að tvöfaldast þegar framleiðsla bændanna á Eyði-Sandvík bætist við starfsemina. Þar að auki jókst vöruúrval fyrirtækisins til muna fyrir tveimur árum þegar lífrænt nautakjöt fór á markað undir þeirra merkjum og keypt var fyrirtækið Skúbb ísgerð, þar sem ísinn er gerður frá grunni.

„Við vorum að setja þrjár bragðtegundir af grískri jógúrt á markað undir lok síðasta árs og viðbrögðin létu ekki á sér standa, þau fóru fram úr okkar björtustu vonum. Við erum með átta tegundir í grísku jógúrtinni í tveimur mismunandi stærðum en það er skemmtilegt að segja frá því að við vorum fyrst til að framleiða gríska jógúrt hér á landi fyrir 17 árum,“ segir Ása Hlín Gunnarsdóttir, forstöðumaður markaðs- og þróunarmála.

Unnamed
Bræðurnir Sverrir og Helgi í höfuðstöðvum Bio-bú við Gylfaflöt í Grafarvogi en fyrirtækið hefur nú tryggt sér húsnæði við hlið þess sem nú er nýtt til framleiðslu, pökkunar og geymslu


Meiri mjólk og fleiri vörur

Hjá Bio-bú starfa 10 manns og mjólkina sækir fyrirtækið til bænda í lífrænni ræktun á bæjunum Neðra-Hálsi í Kjós, Búlandi og Eyði-Sandvík.

„Við erum þegar að nýta um helming af framleiðslunni frá Eyði-Sandvík og munum að endingu nýta alla framleiðsluna frá þeim, líklega strax á þessu ári. Bændurnir í Eyði-Sandvík eru jafnstórir og hinir tveir til samans sem við höfum verið að fá mjólk frá svo loksins gátum við bætt í vöruúrval grísku jógúrtinnar með fleiri bragðtegundum,“ segir Helgi Rafn Gunnarsson, framkvæmdarstjóri Bio-bú og bætir við:

„Við erum komin með 17 vöruflokka í dag og erum að sjá stækkandi markað í veitingahúsa- og hótelgeiranum ásamt mötuneytunum. Annars er þetta stöðugt umhverfi og vörurnar seljast jafnt og þétt. Einnig gaman að segja frá því að salan á lífrænu drykkjarmjólkinni eykst með hverjum mánuðinum. Við erum samkeppnishæf í verðum þrátt fyrir að við séum að borga um 35 prósentum meira fyrir mjólkina en þetta hefst allt með útsjónarsemi.“

Biobu perahunang 500g
Eftir að fyrirtækið fór að taka við mjólkurinnleggi frá bændunum í Eyði-Sandvík hefur það nú úr helmingi meiri mjólk en áður til að framleiða úr og því var ákveðið að stækka vörulínu grískrar jógúrtar

Sérstaða í vinnsluaðferðunum

Fyrir tveimur árum stækkaði reksturinn enn frekar þegar fyrirtækið byrjaði að selja nautakjöt undir merkjum Bio-bú og keypti Skúbb ísgerð.

„Sláturhúsið í Borgarnesi sér um að vinna kjötið og pakka því fyrir okkur og það hefur gengið mjög vel, sífellt fleiri kaupendur bætast við. Kjötið fæst í Hagkaup, Frú Laugu og Matlandi svo sér Garri um sölu til stóreldhúsa og mötuneyta,“ útskýrir Helgi og Ása Hlín bætir við varðandi ísframleiðsluhlutann:

„Við erum búin að stórbæta framleiðsluna í ísnum og fleiri stoðir eru komnar undir þann rekstur. Þegar við tókum við voru þrjár ísbúðir en við tókum fljótlega ákvörðun um að loka tveimur þeirra. Við gerum ísinn frá grunni í smáum framleiðslulotum, t.d. eru engin óþarfa efni notuð í hann s.s. litar- eða mýkingarefni, sem skýrir alvöru bragð sem allir verða að smakka til að upplifa. Áherslan hér í öllu er jú að vinna hlutina sem allra allra minnst og það er okkar sérstaða.“