„Orðsporið fleytti þessu áfram“

Það má segja að bakaralistin sé bræðrunum Guðmundi og Sigfúsi Guðfinnssonum, í Brauðhúsinu í Grímsbæ, í blóð borin, en faðir þeirra, Guðfinnur Sigfússon, rak Bakarí Grímsbæjar um árabil. Í fyrstu var um hefðbundið bakarí að ræða en eftir að Sigfús kom aftur heim með kunnáttu úr námi í Svíþjóð í kringum 1990, breyttust áherslur hægt og sígandi og í dag eru öll brauðin með lífræna vottun ásamt því að vöruúrvalið hefur teygst yfir í fjölmargar lífrænt vottaðar vörur.

„Eftir að Sigfús bróðir kom heim úr náminu byrjuðum við að bjóða upp á heilkorna lífræn súrdeigsbrauð um 1990 og fluttum sjálfir inn heilt korn frá lífrænni myllu í Gӓrna í Svíþjóð. Það var hægur stígandi til að byrja með en síðan fór þetta að rúlla mjög vel og höfum við verið með mjög traustan viðskiptamannahóp í gegnum tíðina,“ útskýrir Guðmundur.

20230502 122208

Strax mikil eftirspurn

Faðir Guðmundar og Sigfúsar, Guðfinnur Sigfússon, hóf rekstur Bakarís Grímsbæjar fyrir 50 árum í sama húsnæði og bræðurnir reka nú Brauðhúsið. Það lá beinast við fyrir þá bræðurna að feta í fótspor pabba síns.

„Við keyptum myllu til að mala heilkornið sem við fluttum inn frá Svíþjóð eftir námið hjá mér og gerðum tilraunir með súrdeig. Í fyrstu var þetta góð viðbót við vöruúrvalið hjá pabba en það var ákveðinn hópur sem hafði beðið eftir þessu því það var strax eftirspurn eftir lífrænu brauðunum. Við þurftum aldrei að auglýsa því orðsporið fleytti þessu áfram,“ segir Sigfús og Guðmundur bætir við:

„Í dag erum við með 20 tegundir af brauðum sem er eiginlega of mikið en við viljum bjóða upp á það sem viðskiptavinurinn kallar eftir. Við höfum lokað um helgar og fólk lærir inn á það, oft er einmitt mikið að gera hjá okkur á föstudögum fyrir helgina.“

20230502 120317

Bakað úr íslensku heilhveiti í vetur

Þegar talið berst að framtíðarhorfum og því áhyggjuefni að hver sérvöruverslunin á fætur annarri leggi upp laupana á höfuðborgarsvæðinu ætla bræðurnir að halda sínu striki og eru hvergi bangnir.

„Eftir því sem fleiri sérvöruverslanir hverfa þá eykst vöruúrvalið óhjákvæmilega hér. Þetta er alþjóðlegt vandamál með sérvöruverslanir og kannski ekkert skrýtið að þróunin sé eins hér, það er, að meira og meira færist inn í stórverslanir. Það hefur þó ekki virkað fyrir okkur að fara með vörurnar sem við framleiðum inn í stórmarkaðina, fyrir utan Melabúðina og Fjarðarkaup,“ útskýrir Sigfús og Guðmundur segir jafnframt:

„Við erum alltaf í þeirri stöðu að vera í baráttu um hráefnisverð en lengi vel fluttum við inn sjálfir en núna sér heildsali um þetta fyrir okkur vegna þess að hann fær betri verð á flutninginn. Síðan finnst okkur einstaklega ánægjulegt að í fyrsta skipti í vetur höfum við náð að baka heilhveitibrauð úr íslensku heilhveiti frá Vallanesi en það kom vel þroskað til okkar og kjörið til notkunar svo við vonum að þetta haldi áfram um ókomin ár.“