Viðræður um búvörusamninga hafa staðið yfir í Noregi og samtök lífrænna framleiðenda í landinu biðlað til samningsaðila að leggja áherslu á lífrænar aðferðir til að stuðla að öruggari ræktun á óvissutímum, meiri viðbúnað á landsvísu og aukins matvælaöryggis. Samtökin skiluðu fyrr á þessu ári inn 14 blaðsíðna kröfugerð til samningsaðila til eflingar lífrænnar framleiðslu í landinu.
Samtökin benda á að með lífrænum aðferðum sé hlúð að jarðvegi sem getur verið ónæmari bæði gegn flóðum og þurrkum. Farið er fram á aukna styrki til skiptiræktunar sem séu undirstaða heilbrigðrar og sjálfbærrar plöntuframleiðslu. Samtökin mæla með 20% viðbótarsvæðisstyrk fyrir framleiðendur sem stunda skiptiræktun, hvort sem þeir gera það upp á eigin spýtur eða í samvinnu við aðra. Þetta er talið geta aukið samstarf milli framleiðenda ásamt því að auka heilbrigði jarðvegs og dregið geti úr þörf fyrir notkun skordýraeiturs.
Meiri áhersla á beitarauðlindir
Einnig er lagt til að ríkið þar í landi standi straum af hærra verði lífrænnar mjólkur og í því sambandi er vitnað í skýrslu Landbúnaðarstofnunar Noregs frá árinu 2022 þar sem fjallað var um virðiskeðju lífrænnar mjólkur. Í skýrslunni var lagt til að stjórnvöld greiddu stærri hluta af kostnaðarauka við lífræna mjólkurframleiðslu.
Þar að auki er farið fram á stóraukna niðurgreiðslu á úthagabeit fyrir allan landbúnað því aukin beitarnýting sé lykilatriði í því að allt landið sé nýtt og þar sé á ferð hugmyndafræði sem stuðli að góðri auðlindanýtingu og aukinni velferð dýra. Meiri beit leiði einnig til aukinnar geymslu kolefnis í jarðvegi. Samtökin telur að nýta verði beitarauðlindir og land sem hentar til fóðurræktunar í meira mæli. Hægt sé að gera ráðstafanir fyrir beit nautgripa á víðavangi með nýrri en dýrri tækni eins og sýndargirðingum.
Árið 2030 verði 25% lands lífrænt vottað
Samtökin vilja einnig að allar heilbrigðar geitur, bæði kven-, og karldýr fái að lifa á beitartímabilinu. Markvisst skal leitast við að gera geitakjöt að söluvöru. Ásamt því er mælt með aukinni áherslu á meiri framleiðslu á lífrænu kjúklinga-, og svínakjöti þar sem stuðningur til fóðurkaupa verði að koma til.
Bent er á að neysla á lífrænum vörum aukist með hverju ári í Noregi og því verði stjórnvöld að fylgja með. Einn möguleikinn væri til dæmis að fella niður virðisaukaskatt á lífrænu grænmeti og ávöxtum, þar sem enn sé töluverður verðmunur á lífrænum vörum í þessum flokki í samanburði við vörur úr hefðbundinni ræktun. Samtökin óska eftir að stjórnvöld setji sér markmið um að fyrir árið 2030 verði 25% ræktanlegs lands lífrænt vottað ásamt því að 25% matvæla sem keypt eru inn á vegum hins opinbera séu lífræn.
/okologisknorge.no