Eini saltframleiðandinn í heiminum með lífræna vottun

Árið 2012 stofnuðu félagarnir Garðar Stefánsson og Søren Rosenkilde fyrirtækið Norður & Co. Utan um sjálfbæra framleiðslu á sjávarsaltsflögunum Norður Salt þar sem jarðhiti á Reykhólum er nýttur við framleiðsluna.

„Draumur okkar hefur alltaf verið að reka norrænt matvælafyrirtæki með hágæðavörum þar sem umhverfissporið er í lágmarki og verðlag á vörunum sé viðráðanlegt fyrir hinn almenna borgara. Við erum einu framleiðendurnir í heiminum á samskonar vöru sem hefur lífræna vottun. Það krefst mikillar orku að framleiða saltflögur og það sem gerir okkar framleiðslu einstaka er að við notum einungis heitt vatn úr iðrum jarðar og skilum því engum koltvísýringi eftir út í andrúmsloftið, heldur fáum eingöngu stökkar saltflögur við þessa aðferð,“ segir Søren Rosenkilde en fyrirtækið hefur lífræna vottun frá Tún og Ø-merkinu í Danmörku.

Heroshot

Allskyns bragðtegundir

Aðalskrifstofa fyrirtækisins er í Árósum í Danmörku og eru helstu sölumarkaðir á Íslandi og í Danmörku en vörurnar er að finna í 20 löndum um allan heim.

„Helsta söluvaran eru saltflögurnar okkar í neytendapakkningum en einnig gerum við salt með ýmsum bragðtegundum sem vísa í ákveðna íslenska bragðflokka eins og reykt salt, hraunsalt ásamt bláberja- og þarasalt. Síðan erum við alltaf í vöruþróun sem er mjög skemmtilegt en á síðasta ári hófum við innflutning á hágæða lífrænum piparkornum frá Indlandi sem við seljum samhliða saltinu okkar og hefur fengið virkilega góð viðbrögð. Þannig að við höldum áfram á þessari vegferð sem við byrjuðum fyrirtækið á og höldum ótrauð áfram,“ útskýrir Søren.

Reykholt zp7a0609

Søren Rosenkilde, stofnandi og eigandi Norður & Co. segir starfsmenn fyrirtækisins í stöðugri vöruþróun.