Ræktað til framtíðar

Lífrænu samtökin Økologisk Norge í Noregi hafa undanfarin ár unnið að því að opna tíu nýja skólagarða á hverju ári í landinu en síðastliðin 30 ár hafa skólagarðar af þessu tagi horfið einn af öðrum. Slagorð verkefnisins er; „Við ræktum framtíðina!“. Markmið samtakanna er að þurrka rykið af skólagörðum, styrkja hugmyndafræðina á bakvið þá og nútímavæða.

Áhugi á skólagörðum í Noregi hefur aukist en á þriggja ára tímabili, frá 2020-2023, er Økologisk Norge að takast að byggja upp 40 nýja skólagarða við skóla í austurhluta landsins. Þegar skólar ákveða að vera með í verkefninu fá þeir í hendur handbók frá samtökunum ásamt aðgangi að heimasíðu verkefnisins þar sem finna má ýmsan fróðleik. Þar að auki er árlega haldið námskeið þar sem forsvarsmenn þátttakenda, ásamt fleiri tengdum aðilum geta fræðst meira um verkefnið og deilt reynslusögum.  

Forsvarsmenn Økologisk Norge vonast til að í gegnum verkefnið muni skilningur aukast á því hvernig matur, heilsa, náttúra og umhverfi vinni þétt saman þegar kemur að matvælaframleiðslu. Von þeirra er að þegar til lengri tíma litið muni verkefnið verða einn liður í því að auka kunnáttu fólks á matvælaframleiðslu og sjálfbærni.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um verkefnið hér

Mynd: Økologisk Norge