Eiturefnaleifar í matnum okkar

Evrópusambandið, nánar tiltekið Evrópska matvælaöryggisstofnunin (EFSA), gefur árlega út skýrslur um eiturefnaleifar (varnarefnaleifar) í mat í allri Evrópu. Nýjasta skýrslan var að koma út og er fyrir árið 2021.
Á árinu 2021 voru tekin 87.863 sýni af matvælum í Evrópu og aðalatriði skýrslunnar eru eftirfarandi:

 • Engin eiturefni fundust í 48.916 sýnum eða 55,7%.
 • Í 35.483 sýnum eða 40,4% fundust leifar eins eða fleiri eiturefna innan
  löglegra marka. Mörg eiturefni saman fundust í 23.177 sýnum eða
  26,4% sýnanna og mest fundust 39 mismunandi eiturefnaleifar í einu og
  sama sýninu, í rúsínum.
 • Í 3,9% sýnanna voru eiturefnaleifar yfir því sem löglegt er.
 • Í 96,1% sýnanna voru eiturefnaleifar innan löglegra marka eða engar
  eiturefnaleifar.
  Okkur langaði að átta okkur á því hversu mikið lífræna vottunin væri að skila
  sér í sambandi við magn eiturefnaleifa sem eru að finnast í mat. Í því
  samhengi lásum við skýrsluna vandlega og komust að tvennu:
 1. Lífrænu vörurnar lækka meðaltalið

  Í skýrslu EFSA er lögð áhersla á heildartölur fyrir allan mat í Evrópu, að lífrænum mat og barnamat meðtöldum. Í fljótu bragði er ekki hægt að sjá aðskildar tölur fyrir almennan mat annars vegar (þ.e.a.s. mat sem hvorki er með lífræna vottun né er barnamatur) og annan mat (lífrænan og barnamat) hins vegar. Almenni maturinn er samt sem áður 90,7% sýnanna. Aftur á móti er hægt að finna sundurliðun á eiturefnaleifum sem fundust í lífrænum vörum og barnamat. Eftir að hafa dregið tölurnar fyrir lífrænan mat frá heildarútreikningum komu fram breyttar tölur yfir eiturefnaleifar í almennum vörum sem ekki eru með lífræna vottun:
 • Sýni án nokkurra eiturefnaleifa í almennum vörum eru þá 53,5%.
 • Sýni með eiturefnaleifar innan löglegra marka í almennum vörum eru þá
  42,2%.
 • Sýni með eiturefnaleifar yfir löglegum mörkum í almennum vörum eru
  4,1%.
 • Samtals sýni með eiturefnaleifum undir og yfir löglegum mörkum í
  almennum vörum er 46,3%.
  Þrátt fyrir að þetta séu einungis nokkur prósentustig, þá er greinilegt að
  lífrænu vörurnar eru að lækka meðaltalið fyrir heildina. Það eru upplýsingar
  sem við teljum að neytendur eigi rétt á að fá og skýrslan dregur ekki fram sem
  aðalatriði.

2. Munurinn á eiturefnaleifum í lífrænum vörum og almennum vörum
Áhugavert er að rýna sérstaklega í muninn á matvörum með lífræna vottun og þeim sem ekki eru með slíka vottun. Í skýrslu EFSA voru tekin 6.530 sýni úr lífrænt vottuðum vörum.

 • 5.408 sýni, eða 82,8% sýnanna innihéldu engar eiturefnaleifar.
 • 1.005 sýni innihéldu eiturefnaleifar innan löglegra marka, sem jafngildir
  15,4% sýnanna
 • 117 sýni, eða 1,8% sýnanna innihéldu eiturefnaleifar yfir því sem löglegt
  er.
  Eina túlkunin á ofangreindum tölum í skýrslunni, var að leggja saman þann
  fjölda sýna úr lífrænum vörum sem innihéldu einhverjar mælanlegar
  heildareiturefnaleifar (innan löglegra marka eða yfir mörkum) sem voru þá
  17,2%.

Eftirfarandi tafla sýnir glöggt muninn á lífrænt vottuðum matvörum og öðrum matvörum skv. skýrslu EFSA:

Tafla anna

Eins og sjá má á töflunni er mikill munur á lífrænt vottuðum matvörum og öðrum matvörum hvað eiturefnaleifar varðar. Þannig voru 82,8% af lífræna matnum alveg laus við mælanleg eiturefni en aðeins 53,5% af öðrum mat sem sýni voru tekin úr. Með öðrum orðum fundust einhverjar eiturefnaleifar í 17,2%
af lífræna matnum en í 46,3% af þeim mat sem ekki var með lífræna vottun. Þar af greindust eiturefni yfir leyfilegum mörkum í 1,8% sýna úr lífrænt vottuðum mat, en í 4,1% sýna úr öðrum mat. Hér eins og víðar segir meðaltalið ekki alla söguna.

Kokteiláhrifin
Umræða um hin svokölluðu kokteiláhrif eiturefna í umhverfi okkar hefur veriðað færast í aukana. Kokteiláhrifin eru samlegðaráhrif efna, sem lýsa sér þannig að efnin magna hvert annað upp þegar þau koma saman. Áhrifin sem efnin valda í sameiningu verða þá meiri en ætla mætti þegar áhrif hvers efnis um sig eru skoðuð og lögð saman. Þetta er akkúrat það sem á sér stað við raunverulegar aðstæður. Við verðum stöðugt fyrir kokteiláhrifum eiturefna sem koma m.a. úr matnum sem við borðum, matarumbúðum, húsgögnum, textílvörum, byggingavörum, snyrtivörum o.fl. Þetta eru efni sem geta verið
hormónatruflandi, haft neikvæð áhrif á taugakerfið eða verið krabbameinsvaldandi. Mörg eiturefnanna sem notuð eru í ræktun og eru að mælast í Evrópu ár hvert geta haft þessi áhrif. Árið 2012 lét Norræna
ráðherranefndin taka saman skýrslu um kokteiláhrifin, en þar er varað við þessum áhrifum og vísað í rannsóknir sem gefa til kynna mikinn mun á eituráhrifum eftir því hvort efnin koma fyrir eitt og sér eða fleiri saman. Jafnvel efni sem sýna engin eituráhrif ein og sér sýndu eituráhrif þegar þau voru
rannsökuð saman. (http://norden.diva-portal.org/smash/get/diva2:702829/FULLTEXT01.pdf).

Reglur um notkun á eiturefnum taka ekki mið af því að við erum stöðugt að verða fyrir áhrifum af mörgum efnum í einu, heldur er áhætta efnanna metin út frá hverju efni fyrir sig. Við vitum því t.d. ekkert um samverkandi áhrif þeirra 39 efna sem fundust á rúsínunni (sjá framar).

Sumir telja að ekki sé hægt að treysta lífrænni vottun og auðvitað er erfitt að vera 100% viss um hverja einustu vöru á markaði. Árlegar mælingar Evrópusambandsins sýna þó ár eftir ár mikinn mun á innihaldi eiturefnaleifa í almennum vörum annars vegar og lífrænum vörum hins vegar, þar sem lífrænu vörurnar eru undantekningarlaust með mun lægra innihald eiturefnaleifa heilt á litið. Það þýðir að eftirlitið með lífrænni ræktun er að skila sér, þó að sjálfsögðu megi gott bæta.

Fyrir neytendur eru aðalatriðin í skýrslunni ekki að 96,1% sýnanna innihaldi eiturefnaleifar innan löglegra marka eða engar eiturefnaleifar eins og þau leggja áherslu á, heldur að 82,8% sýnanna úr lífrænt vottuðum vörum innihalda engar eiturefnaleifar og 46,3% sýna úr mat sem ekki er með lífræna vottun innihalda leifar af eiturefnum en slíkar leifar finnast aðeins í 17,2% lífrænu sýnanna í Evrópu.

Linkur á skýrsluna:
https://efsa.onlinelibrary.wiley.com/doi/10.2903/j.efsa.2023.7939

Neytendur þekkja lífrænt vottaðar vörur á Evrópulaufinu.

Eu organic logo colour rgb

Höfundar: Anna María Björnsdóttir fræðslufulltrúi Lífræns Íslands og Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur og eigandi Environice.