Lífræn hugmyndafræði lykillinn að heilnæmi

Myndin “Glúten – þjóðarógn ?”, sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu á dögunum, er sláandi heimildarmynd, sem veitir innsýn í vinnubrögð við ræktun á hveiti fyrir matvælaiðnaðinn í heiminum. Í myndinni kemur fram hversu langt stórfyrirtæki eru tilbúin til að seilast í framleiðslu á ódýrum matvælum, með notkun eiturefna, sem sannarlega er blekking. Myndin sýnir glöggt og fjallar um hversu mikilvægt lífræna vottunarkerfið er fyrir neytendur enda er notkun á slíkum eiturefnum með öllu óheimil í lífrænni ræktun. Mikilvægt er að neytendur leiti eftir evrópska vottunarmerkinu á vörum til að tryggja að slíkum framleiðslustöðlum sé sannarlega fylgt.

Í myndinni er sýnt fram á kerfisbundna úðun illgresiseyðis, sem meðal annars inniheldur glýfósat, yfir kornakra skömmu fyrir uppskeru í því skyni að skera niður kostnað. Þessi vinnubrögð eru meðal þeirra sem talin eru ýta undir glútenóþol hjá fjölda fólks. 

Í myndinni kemur fram að glúten, sem er meðal annars að finna í hveiti, bygg og rúgi, sé í nútímasamfélagi litið á sem eitur af mörgum og glútenlausu hreyfingunni líst við bylgju eða ákveðinni tískustefnu. Vert sé þó að hafa í huga að á bakvið það sé milljarðaiðnaður sem byggir á að upphefja glúten sem eitur. Sá málflutningur þarfnast gagnrýninnar skoðunar að mati ýmissa fræðimanna. Um 25 prósent Bandaríkjamanna sneiða í dag framhjá neyslu á glúteni á meðan hátt í 15 prósent Evrópubúa eru í sömu stöðu.  


Meltingarvandi, liðverkir og heilaþoka
Um 2,5 % jarðarbúa þjást af sjálfsofnæmissjúkdómnum glútenóþoli en einkenni hans eru ýmiss konar eins og meltingarvandi, liðverkir, heilaþoka og fleira. Í heimildarmyndinni „Glúten – þjóðarógn?“ kemur fram að i dag eru fjórum sinnum fleiri jarðarbúar sem þjást af glútenóþoli en á sjötta áratugnum en ástæðan fyrir aukningunni eru umhverfislegir þættir, það er, þróun í matvælaframleiðslu.

Annar þáttur, sem er vísindamönnum ráðgáta, er svokallað glútennæmi, þar sem einstaklingur sýnir ekki sjálfsofnæmisviðbrögð eins og við glútenóþoli en mikil aukning hefur verið í þess konar kvillum hjá fólki undanfarinn áratug. Það sem er þó mótsagnakennt í þessu öllu saman er að þó að við neytum að meðaltali minna af kornvörum, þar með talið glúteni, í dag en fyrir nokkrum áratugum þá fær fólk sem neytir unninna matvara óafvitandi í sig meira af glúteni en ella.

Spraying plants

Ógnar fæðuöryggi heimsins
Farið er yfir í myndinni þá miklu breytingu sem varð í landbúnaði í kjölfar heimsstyrjaldarinnar síðari þegar menn sátu uppi með mikinn lager af nítrati og fosfati eftir sprengjuefnaframleiðslu stríðsins. Þá hófst þróun í þá átt að nýta þessi efni til áburðar í landbúnaði og úr varð skjótur ávinningur. Stuttu síðar hófst einnig notkun á illgresiseyði.

Sláandi aukna tíðni ýmissa sjúkdóma hafa vísindamenn rannsakað og sjá að samhengi er milli þess og aukningar á glýfósati í matvælum, en það er virka efnið í fjölmörgum illgresiseyðum á markaðnum í dag. Glýfósat er að finna í mörgum kornvörum og er magn þess í umferð bein afleiðing efnaiðnaðar, það er skordýra-, og illgresiseyðis við ræktun matvæla. Í myndinni er einnig tæpt á því áhyggjuefni að aðeins fjögur fyrirtæki á heimsvísu ráða yfir 70 prósentum af kornmarkaði og þrjú fyrirtæki yfir plágueitri og eignarétti á útsæði. Þessi samþjöppun ógnar meðal annars fæðuöryggi heimsins.

Þegar allt kemur til alls þá eru til aðrar leiðir en nútíma iðnaðarlandbúnaður eins og að snúa sér frekar að landbúnaðarvistfræði. Í lok myndarinnar er komið inn á að hægt sé að fæða jarðarbúa með því að stunda eingöngu lífrænan landbúnað. Niðurstaðan er sú að jarðarbúar sem heild verða að krefjast breytinga á matvælakerfum heimsins.

Slóð á heimildarmyndina má finna hér

/Myndir: Unsplash