Aðgerðir til stóreflingar lífrænnar framleiðslu

Í morgun kynnti Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, drög að fyrstu áætlun um eflingu lífrænnar ræktunar sem unnin hefur verið á vegum stjórnvalda. Áætlunin er í fjórtán liðum þar sem meðal annars er komið inn á lengingu aðlögunarstuðnings, álag á stuðningsgreiðslur, fjárfestinga-, og tækjastyrki, eflingu rannsókna, stuðning við Lífrænt Ísland, halda skuli Lífræna daginn árlega og fleira. Markmið stjórnvalda verði jafnframt að 10 prósent landbúnaðarlands verði vottað lífrænt fyrir árið 2040.

Aðgerðaáætlunin var unnin í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem eitt áhersluverkefnið var að móta heildstæða áætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu. Haustið 2022 var ráðgjafafyrirtækinu Umhverfisráðgjöf Íslands, falið að móta tillögur að aðgerðaáætluninni sem kynnt var í dag.

Srs 5732

Ryðja hindrunum úr vegi
Aðgerðirnar sem lagt er til að ráðist verði í eiga það sameiginlegt að vera líklegar til að ryðja hindrunum úr vegi, þannig að Ísland standi nær öðrum ríkjum Evrópu á þessu sviði. Þær eru settar fram í 14 liðum sem fjalla um eftirfarandi:

 • Í stað núverandi aðlögunarstyrkja verði boðið upp á fimm til sjö ára aðlögunarstuðning. Styrkir verða veittir yfir tveggja til þriggja ára tímabil til að mæta kostnaði nýrra framleiðenda vegna lögbundinnar aðlögunar að lífrænni framleiðslu undir eftirliti vottunarstofu, þ.m.t. kostnaði vegna breytinga á húsakosti, endurnýjunar tækjabúnaðar, endurræktunar, lækkunar tekna vegna minni framleiðslu, efnagreininga, námskeiða, ráðgjafar, skýrslugerðar og fyrstu úttekta vottunarstofu.
 • Kannaðir verðir kostir þess að lífrænum framleiðendum verði greitt sérstakt álag á almennar stuðningsgreiðslur. Álag yrði greitt á stuðningsgreiðslur að loknu  aðlögunartímabili. 
 • Framleiðendur geti sótt um sérstaka fjárfestinga- og tækjastyrki til kaupa á sérhæfðum búnaði sem stuðlar að aukinni framlegð og bættri nýtingu lífræns áburðar, svo sem róbótum, niðurfellingarbúnaði til áburðardreifingar, tækjum til safnhaugagerðar, tækni til nákvæmnislandbúnaðar, illgresishreinsa (róbóta) o.fl.
 • Kannaðir verða kostir þess að sérstakir styrkir verði boðnir afurðafyrirtækjum í landbúnaði til að mæta kostnaði vegna lífrænnar vottunar.
 • Nýttar verði greiningar á mögulegri framleiðslu á áburði og fóðri sem uppfyllir skilyrði reglugerða um aðföng í lífrænni framleiðslu, bætt við frekari greiningum ef ástæða þykir til og í framhaldinu tekin ákvörðun um næstu skref.
 • Hluti af framlögum til rannsókna í landbúnaði verði varið til rannsókna á sviði lífrænnar framleiðslu við Landbúnaðarháskóla Íslands og annarra háskóla. Þá verður einnig hvatt til aukins samstarfs, s.s. á milli VOR, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla Íslands og annarra eftir því sem við á í því skyni að miðla þekkingu og fræðslu til framleiðenda. 
 • Hvetja lífræna framleiðendur til að sækja um í Matvælasjóð og aðra sjóði sem styðja við nýsköpun, vöruþróun, rannsóknir og þróun.
 • Bæta gagnaöflun um hlutdeild lífrænnar framleiðslu á innlendum markaði. Leitað verði samstarfs við Vottunarstofuna Tún ehf. og Matvælastofnun um árlega samantekt og birtingu heildartalna úr árlegum skýrslum skráðra og vottaðra framleiðenda, innflytjenda og vinnsluaðila, með það að markmiði að hlutdeild lífrænt vottaðrar vöru, innfluttrar sem innlendrar, verði þekkt og gerð opinber á hverjum tíma.
 • Verkefninu Lífrænt Ísland verði viðhaldið og því tryggt fjármagn til áframhaldandi starfsemi með samningi matvælaráðuneytisins við VOR.
 • Lífrænu Íslandi verði falið að standa framvegis fyrir sérstökum lífrænum degi 23. september ár hvert, eða á annarri heppilegri dagsetningu, í tengslum við Organic Day Europe. Slíkur dagur var í fyrsta sinn haldinn á Íslandi haustið 2022 og aftur 2023.
 • Matvælaráðuneytið veiti árlega viðurkenningu/verðlaun til aðila sem þykja hafa skarað fram úr í framleiðslu, nýsköpun, vöruþróun, markaðssetningu, sölu eða kynningu á lífrænum vörum.
 • Á tveggja ára fresti verði gefin út stöðuskýrsla um stöðu aðgerða og árangurinn af framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar á nýliðnu tímabili.
 • Aðgerðaáætlunin verði endurskoðuð eigi sjaldnar en á fimm ára fresti, í fyrsta sinn eigi síðar en fyrir 1. janúar 2029.
 • Þegar aðgerðaáætlunin hefur tekið gildi verða ákvæði reglugerða sem gilt hafa um stuðning við lífræna framleiðslu, endurskoðaðar til að þær endurspegli nýtt fyrirkomulag. Jafnframt verði tryggt að aðgerðaáætlunin og aðrar stefnur á sviði matvæla verði samræmdar.

Þar að auki var komið inn á aðgerðir sem heyra undir önnur ráðuneyti en Matvælaráðuneytið og bent var á eins og að gera samning við LBHÍ um skyldunámskeið í lífrænni framleiðslu við upphaf háskólanáms við skólann, stofnuð verði staða prófessors á sviði lífrænnar framleiðslu við skólann ásamt því að komið verði á sérstakri námsbraut um lífræna framleiðslu á háskólastigi. Aðstaða til rannsókna og verklegrar kennslu verði bætt ásamt því að sérstök greining verði gerð á möguleikum þess að auka áherslu á lífræna framleiðslu við endurskoðun og framkvæmd Byggðaáætlunar. Einnig að innkaup og framboð á lífrænt vottuðum vörum og vörum úr nærumhverfi fái aukið vægi þegar gátlistar „Grænni skrefa“ í ríkisrekstri verði endurskoðaðir.

Slóð á aðgerðaráætlunina má nálgast hér

Slóð á streymi frá fundinum má nálgast hér

Srs 5283

/Myndir: Sigurjón Ragnar