Trúir ekki á styttri leiðir fyrir skammtímaávinning

Gunnar Bjarnason keypti, ásamt fjölskyldu sinni, Litlu-Hildisey í Landeyjum árið 2018. Þar er stunduð kartöflu-, korn-, og belgjurtaræktun. Lífræn ræktun var aldrei spurning að sögn Gunnars sem selur nú kartöflur sínar í nýstárlegum pakkningum undir merkinu Bíobóndinn.

„Ég held að ég hafi alltaf verið bóndi þó ég hafi haft lifibrauð af öðru í gegnum árin. Ég hef rekið tæknifyrirtæki lungann af starfsferlinum en verið heillaður af ræktun síðan ég man eftir mér og ræktað plöntur, fugla og fiska. Eftir að ég fór að sökkva mér dýpra ofan í það hvernig matvælaiðnaðurinn virkar talaði það mjög sterkt til mín að reyna mig við lífræna ræktun. Ég hef unnið við það alla tíð að leysa vandamál og því er þetta sérstaklega skemmtilegt ferðalag. Ég trúi ekki á aðferðafræðina sem sumir tala fyrir að hámarksuppskera eða hámarkshagnaður sé það eina sem skipti máli og það sé aukaatriði að við séum að ganga freklega á auðlindir jarðarinnar, eins og t.d. fosfórnámur, útrýma skordýrum með eitri og eyða lífrænu efni í jarðveginum. Við getum og eigum að nýta náttúruna á ábyrgan hátt og vinna með lífríkinu frekar en stytta okkur leiðir fyrir skammtímaávinning,“ útskýrir Gunnar.

416540648 1183769509293617 2704528874491634844 n


Uppáhalds grænmetið

Í Litlu-Hildisey er ræktað ýmislegt en korn og belgjurtir í skiptirækt við kartöflurnar er fyrirferðarmest. Kartöflurnar eru nú til sölu í nokkrum verslunum en Bananar sjá um dreifingu þeirra.

„Kartöfluræktin kom til vegna þess að það er mitt uppáhalds grænmeti. Eftir að ég smakkaði bygg í fyrsta skipti fyrir 10 árum þykir mér óskiljanlegt að við skulum flytja inn hrísgrjón í gríðarlegu magni. Það er vitað að þungmálmar, sveppaeitur, skordýraeitur og illgresiseitur er oftar en ekki til staðar í innfluttum hrísgrjónum. Lífrænt bygg er að mínu mati á allan hátt betra fyrir okkur fyrir utan að mér þykir það miklu betra á bragðið,“ segir Gunnar en byggið frá þeim fer til Móður Jarðar í Vallanesi sem er selt undir þeirra nafni og segir Gunnar það mikinn heiður fyrir þau að afurðin uppfylli kröfur þeirra.

20231124 193237 1

Gjaldþrota stefna

„Ég hef ræktað með „nýmóðins aðferðum“, svo sem notað tilbúinn áburð í gegnum árin í minni hobbíræktun, en því meira sem ég lærði um það hvernig iðnvæddur landbúnaður er stundaður víðast hvar í heiminum varð ég sannfærður um að þetta er gjaldþrota stefna til lengri tíma. Það er lífsnauðsynlegt að nálgast matvælaframleiðslu með öðrum hætti og í raun galið að á sama tíma og grímulaus rányrkja á auðlindum jarðarinnar er stunduð skuli bændur víðast hvar í heiminum búa við þröngan kost. Ég hef ekkert á móti hefðbundinni ræktun og dæmi ekki þá sem nota þannig ræktunaraðferðir, en til lengri tíma tel ég slíka ræktun ekki ganga upp, hvorki fyrir bændur né náttúruna. Það er miklu betra fyrir okkur að fínstilla aldagamlar ræktunaraðferðir núna áður en skóinn kreppir þegar kemur að framboði á efnum. Áburðarverðshækkanir fyrir skömmu síðan ætti að hafa kveikt ljós hjá fólki um fýsileika þess að gera okkur minna háð örfáum efnaframleiðendum í útlöndum.“