Matland vill meira lífrænt

Matland er fjölmiðill og vefverslun með matvæli þar sem höfuðáherslan er lögð á að geta uppruna vörunnar sem er til sölu. Nú nýlega hóf Matland að selja ferskt lífrænt nautgripakjöt frá Bióbú og nokkrar tegundir af grænmeti hafa ratað í hillurnar í vefbúðinni. Þá er lífræna lambakjötið frá Sölvanesi í Skagafirði á boðstólum hjá Matlandi. En betur má ef duga skal því markaðurinn vill meira lífrænt að sögn eigenda Matlands.

Fyrirtækið var stofnað árið 2022 en það eru þeir Tjörvi Bjarnason og Hilmar Steinn Grétarsson sem reka það frá degi til dags. Þeim fannst vanta á markaðinn möguleika fyrir neytendur að kaupa upprunamerktar gæðavörur úr sveitinni. Nýlega opnuðu þeir afhendingarstað á Hrísateig þar sem viðskiptavinir geta komið og sótt sínar vörur. Ef þeir eru ekki á staðnum þá notar fólk kóða til þess að komast inn og afgreiðir sig sjálft.

Inni á vefsíðunni www.matland.is er alltaf eitthvað nýtt í boði og þar fara öll viðskiptin fram. Tjörvi segir að meginhugmyndin sé að fjalla um framleiðendur í miðlinum og þar geti lesendur keypt vörurnar þeirra og nálgast með auðveldum hætti. Að auki býður Matland upp á heimsendingu á höfuðborgarsvæðinu og að senda vörur um allt land með flutningabílum Samskipa.

„Við höfum aukið jafnt og þétt vöruúrvalið og lífrænar vörur eru nokkuð stór hluti af okkar vöruframboði. Þar munar mestu um kjötvörurnar frá vinum okkar í Biobú. Í vetur byrjuðum við að selja ferskt kjöt frá bæjum sem leggja inn mjólk hjá Biobú og það hefur farið vel af stað. Fólk kann að meta að fá góðar lífrænar steikur en þær hafa ekki verið aðgengilegar til þessa svo neinu nemi. Þetta eru klassískir bitar eins og ribeye, lundir, T-beinssteikur, Tomahawk, fillé, mjaðmasteikur, osso bucco og svo nýjungar eins og Pichana og NY-strip. Að auki erum við með frosið hakk, bollur og gúllas frá sömu bæjum. Sláturhúsið í Brákarey verkar kjötið fyrir Biobú en það er eina húsið með lífræna vottun um þessar mundir,“ segir Tjörvi.

Tjörvi segir að neytendur taki lífræna kjötinu vel. Það sé ákveðinn hópur sem þekki það vel og svo eru þeir sem vilja gjarnan prófa og bera saman við það hefðbundna.

„Það hefur komið ánægjulega á óvart að heyra um viðtökur fólks sem eru almennt mjög góðar. Hluti af bæjunum er eingöngu með grasfóðraða gripi og það er eftirspurn eftir því. Almennt veit fólk ekki mikið um hvað felst nákvæmlega í lífrænu vottuninni en við reynum eftir fremsta megni að miðla upplýsingum um það. Þeir neytendur sem pæla í hlutunum sjá það fljótlega í hendi sér að lífrænu áherslurnar eru jákvæðar. Enginn tilbúinn áburður, meira húspláss og strangar reglur um lyfjanotkun gera vörurnar eftirsóknarverðar,“ segir Tjörvi. Hann nefnir að auki að kjötið sem verkað er í Brákarey fái að hanga í um tvær vikur sem geri gæfumuninn. „Kjötið verður meyrara fyrir vikið“.

Matland 2

Lífrænt lambakjöt úr Skagafirði

En það er ekki bara nautgripakjöt sem er í boði á Matlandi því lífræna lambakjötið frá Sölvanesi í Skagafirði kom í sölu fyrir nokkrum vikum. „Lambakjötið frá Rúnari Mána og Eydísi í Sölvanesi er fullmeyrnað og verkað af bændunum sjálfum í vörusmiðju Biopól á Skagaströnd. Virkilega gott kjöt sem gaman er að selja,“ segir Tjörvi.

Vikulegir grænmetiskassar

Matland hefur frá upphafi boðið upp á vikulega grænmetiskassa í samvinnu við bændur og Sölufélag garðyrkjumanna. Þar slæðist reglulega inn lífrænt ræktað grænmeti en það mætti vera miklu meira að mati Tjörva.

„Grænmetiskassarnir fara í dreifingu á fimmtudögum á höfuðborgarsvæðinu og koma á föstudagsmorgnum út á landsbyggðina. Fólk vill alltaf fá eitthvað nýtt og það hefur stundum reynst snúið yfir svörtustu vetrarmánuðina að bjóða upp á nýjungar. En við höfum verið heppnir með samstarfsaðila og bændur eru allir af vilja gerðir að standa sig. En það mættu vissulega fleiri spreyta sig á lífrænu ræktuninni því eftirspurnin er fyrir hendi. Við höfum m.a. boðið upp á lífrænt ræktaðar kartöflur, kál, gulrætur, rabarbara og hnúðkál.“

Matland 3

Tjörvi segir að planið sé að auka veltuna og ná til stærri hóps viðskiptavina. „Við höfum vaxið hægt en örugglega á þeim rúmu tveimur árum sem Matland hefur starfað. Við finnum að nágrannar okkar í Laugarneshverfinu hafa tekið okkur fagnandi en eftir að við opnuðum afhendingarstaðinn á Hrísateig erum við meira áberandi en áður. Að hluta þjónustum við veitingastaði en kjöt og grænmeti frá okkur hefur m.a. verið á matseðlum hjá Michelin-veitingastaðnum Dill, Edition, Vox á Hilton og Kastrup síðustu mánuði. Það eru ótal tækifæri sem felast í því að fjalla um uppruna okkar vara og það kunna kaupendur að meta, hvort heldur sem er metnaðarfullir veitingamenn eða kröfuharðir neytendur á smásölumarkaði. Við höldum því ótrauðir áfram,“ segir Tjörvi Bjarnason hjá Matlandi.

Allar nánari upplýsingar um Matland og vörurnar sem þar er að finna má sjá á vefsíðunni www.matland.is