Grunngildi IFOAM, alþjóðasamtaka lífrænu hreyfingarinnar

Ólafur R. Dýrmundsson skrifar:

„ Ég nota ekki tilbúinn áburð”

Höfundur situr ráðstefnu um matvælaframleiðslu, ungur háskólanemi í Aberystwyth í Wales haustið 1971, nánar tiltekið 29. október. Landbúnaðarfélagið (The Agricultural Society of the University College of Wales), sem höfundur hafði gengið í haustið áður, og er enn í, hafði boðið lífrænum bónda til að kynna sjónarmið ólíkum öllum öðrum sem þar voru kynnt. Hann hét Mr. S. Mayall frá býlinu Pimhill Farm á Harper Hill skammt frá Shrewsbury í Shropshire í Englandi en það hérað liggur að Ceredigion í Wales, um 100 km frá Aberystwyth. Þetta er hávaxinn og grannur maður á sjötugs aldri, vel máli farinn. Hann segir okkur að eftir bændaskólanám hafi hann stundað hefðbundinn sveitabúskap frá 1923- 1947. En þá urðu þáttaskil því að hann sagðist hafa verið orðinn sannfærður um að landbúnaðurinn væri að þróast í ranga átt. Meðal annars hafði orðið vart mikillar ófrjósemi í kúnum á Pimhill Farm og ekki væri borin nægileg virðing fyrir jarðveginum og nytjajurtunum. Nú væri tilbúinn áburður ekki notaður á býlinu, ekki heldur nein eiturefni. Leiðbeiningaþjónustan og reyndar allir nema félagsskapurinn The Soil Association, með Lady Eve Balfour í broddi fylkingar, vöruðu hann við aðlögun að lífrænni ræktun, hann yrði kominn í þrot eftir þrjú ár. Þau voru nú orðin 23, bæði búfé og jarðargróði dafnaði vel og afurðasemi búsins hafi ekki aðeins haldist heldur aukist. Höfundi hefur oft verið hugsað til þessa bónda, þess fyrsta í lífrænum búskap sem hann hafði séð og heyrt. Hann sagði ekki mikið um hugmyndafræðina sem bjó að baki búskaparháttunum. Okkur þóttu þeir sérstæðir og athyglisverðir. Mr. Mayall var fyrst og fremst að segja okkur sögu sem sýndi að hann hafði klætt hugmyndafræði The Soil Association í hagnýtan búning, engar skýjaborgir, því að allt virkaði vel á búinu heima í Shropshire. Þess má geta til fróðleiks, að höfundi er kunnugt um að afkomendur þessa minnisstæða bónda stunda enn myndarlegan lífrænan búskap á Pimhill Farm, framleiða mjólk sem byggist á gras- og belgjurtarækt og rækta bæði hveiti og hafra líkt og Mr. Mayall gerði á sínum tíma.

Umhverfisvakning og þjóðfélagsbreytingar

Um og eftir 1960, sérstaklega um 1970, var farið að bera töluvert á gagnrýni á efna- og tæknivæddan landbúnað. Til að byrja með beindist athyglin einkum að  verksmiðjubúskap (e. intensive factory farming) með alifugla og svín þar sem velferð dýranna þótti ábótavant. Eftir útgáfu bókarinnar Silent Spring 1962,eftir bandaríska líffræðinginn Rachel Carson, komst eiturefnanotkun í landbúnaði í sviðsljósið fyrir alvöru og á hagfræði- og þjóðfélagssviðinu olli önnur bók líka straumhvörfum rúmum áratug síðar, Small is Beautiful-Economics as if People Mattered 1973, eftir breska hagfræðinginn Fritz Schumacher, sem m.a. kom við sögu áðurnefndrar Soil Association í Bretlandi á sinni tíð. Á þessum árum varð veruleg náttúruverndar- og umhverfisvakning og margt af því sem framsýnt fólk hafði áhyggjur af þá hefur síðan þróast með mjög neikvæðum hætti. Margar svartsýnu spárnar hafa því miður reynst réttar. Allt tengist þetta þjóðfélagsbreytingum, þar með firringu borgarsamfélaganna. Nú er svo komið að fræða þarf neytendur um landbúnaðinn þannig að þeir átti sig á því að varðveita þurfi búskap í sveitabyggðum til þess að bændur geti haldið áfram að framleiða holl og góð matvæli. Í þeim efnum hefur lífræna hreyfingin gefið góð fordæmi um allan heim en hún vinnur markvisst að miðlun upplýsinga í því skini að efla bæði fæðu- og matvælaöryggi.

IFOAM – alþjóðasamtök stofnuð 1972

Í ljósi þeirrar þróunar sem greint var frá hér að framan fór áhugafólk um lífræna ræktun víða um lönd að bera saman bækur sínar í vaxandi mæli. The Soil Association fór þar framarlega í flokki og nafn frumkvöðulsins Lady Eve Balfour er einkum nefnt í því sambandi. Hún var m.a. þekkt fyrir langtímarannsóknir á blönduðum lífrænum búskap á býli sínu Haughley Farm í Suffolk í Englandi en um þær skrifaði hún tímamótaritgerðina „ The Living Soil”  1977. Stofnendur IFOAM voru frá fimm þjóðum; Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Suður-Afríku og Svíþjóð og var stofnfundurinn haldinn í Versölum við París í Frakklandi 5. nóvember 1972. Aðildarlöndum og félögum fjölgaði smám saman. Nú eiga um 120 þjóðir og nær 900 aðildarfélög í öllum heimsálfum aðild að IFOAM, alþjóðastofnun lífrænu hreyfingarinnar. Frá 1972 báru samtökin heitið  IFOAM – The International Federation of Organic Agriculture Movements en síðan 2005 heita þau IFOAM Organics International með aðsetur í Bonn í Þýskalandi. Starfsemin er mjög fjölþætt og auk þess starfa nær 20 tengdir en þó óháðir hópar um allan heim undir þessum regnhlífarsamtökum. Þeirra á meðal er Evrópuhópurinn, IFOAM EU Group, með aðsetur í Brussel í Belgíu,sem lífræna hreyfingin á Íslandi hefur átt aðild að síðan fyrir aldamót.

Skilgreining á lífrænum landbúnaði

Allt fram á seinni hluta 19. aldar var allur landbúnaður í heiminum lífrænn. Þjóðverjinn Justus von Liebig, frumkvöðull á sviði plöntunæringar og áburðarfræða, varaði við þeirri efnavæðinu sem byggist á notkun auðleystra áburðarefna, tilbúnum áburði. Hann benti á að jarðvegurinn væri lifandi og þar ætti að viðhalda frjóseminni með sjálfbærum hætti, sem sagt með lífrænni ræktun. Helstu frumkvöðlar lífrænna búskaparhátta á öndverðri 20. öld , Rudolf Steiner frá Austurríki og Sir Albert Howard frá Bretlandi þróuðu þessa hugmyndafræði áfram þótt efna- og lyfjavæddur landbúnaður væri í hraðri framþróun. Notkun tilbúins áburðar jókst stöðugt, seinna hér á landi en víða annars staðar. Fyrst voru gerðar tilraunir á Íslandi með tilbúinn áburð rétt fyrir aldamótin 1900 og notkun hans var  ekki mikil nema á stærri kúabúnum fyrr en eftir að Áburðarverksmiðjan í Gufunesi fór að framleiða köfnunarefnisáburð með Haber-Bosch aðferðinni 1954. Á þeim árum jókst mikið innflutningur á þrífosfati og kalí enda stórfelld túnrækt þá og næstu áratugina. Aftur á móti var lífræn ræktun jaðarsett og t.d. lítil sem engin kennsla um þá búskaparhætti fyrir búnaðar- og garðyrkjunema. Víða erlendis var þó lífrænn landbúnaður farinn að skjóta aftur rótum svo að um munaði, sérstaklega í umhverfisvakningunni um 1970 eins og áður var vikið að.

Þar skipti frumkvæði IFOAM miklu máli eftir stofnun samtakanna 1972. Skemmst er frá að segja að þar var strax lögð áhersla á að koma upp viðurkenndri skilgreiningu fyrir lífræna búskaparhætti svo og framleiðslu- og vottunarreglum til leiðbeiningar og upplýsingar fyrir bæði bændur og neytendur. Með vaxandi milliríkjaviðskiptum hafa markaðsmálin komið meira inn í myndina og nú skilgreinir IFOAM lífrænan landbúnað með eftirfarandi hætti:

Lífrænn landbúnaður er framleiðslukerfi sem viðheldur heilbrigðum jarðvegi, vistkerfum og fólki. Hann byggist á vistfræðilegum aðferðum, líffræðilegri fjölbreytni og staðbundnum framleiðsluferlum, fremur en  notkun aðfanga sem geta haft neikvæð áhrif. Lífrænn landbúnaður sameinar hefðir, nýsköpun og vísindi sem eru til hagsbóta fyrir sameiginlegt umhverfi, sanngjörn samskipti og mikil lífsgæði fyrir alla sem hlut eiga að máli.

Grunngildi lífræns landbúnaðar

Skilgreining IFOAM á lífrænum landbúnaði er mjög almennt orðuð en felur þó í sér ákveðna stefnumótin. Auk hennar hafur IFOAM endurskoðað grunngildi lífræns landbúnaðar oft á liðnum árum með tilliti til ýmissa breytinga á heimsvísu. Þar má m.a. nefna mikla umfjöllun á seinni árum um notkun erfðabreyttra lífvera (GMOs) í efna- og lyfjavæddum landbúnaði víða um lönd, og loftslagsbreytingar af manna völdum eru mikið í umræðunni hjá IFOAM. Nú er lögð áhersla á eftirtalin fjögur grunngildi:

Heilsa –Þess skal gætt að matvæli og aðrar lífrænt vottaðar vörur séu hollar og heilnæmar og stuðli að góðri heilsu manna og dýra. Þar með sé borin virðing fyrir gróðurmold, lífverum, bændum og öðrum þeim sem vinna við framleiðsluna þannig að heilbrigði sé ekki misboðið.

Leitast skal við að fyrirbyggja sjúkdóma í nytjajurtum og búfé með náttúrulegum aðferðum.

Vistfræði- Tekið skal fullt tillit til vistkerfa á hverjum stað og þeim ekki misboðið með of miklu álagi, svo sem vegna mengunar, jarðvegseyðingar, skógareyðingar og rányrkju. Viðhaldið skal sem mestri líffræðilegri fjölbreytni við ræktun og nýtingu beitilanda og aðeins skulu nota lífræn áburðarefni sem byggja upp langtímafrjósemi jarðvegs. Nýta skal vistvæna tækni og örva nýsköpun sem byggir á vísindalegum grundvelli.

Sanngirni- Öll samskipti og viðskipti skulu byggð á traustum samfélagslegum grundvelli þar sem bændur og landbúnaðarverkamenn fá sanngjarnt verð fyrir þær afurðir sem þeir framleiða. Gætt skal jafnréttis karla og kvenna og virt skulu mannréttindi í hvívetna. Þá skal virtur réttur frumbyggja til að nýta náttúrugæði á viðkomandi svæðum.

Umhyggja- Bera skal virðingu fyrir lífríkinu og fjölbreytni þess, þar með jarðveginum og lífinu í honum. Við búfjárrækt og framleiðslu mjólkur, kjöts, ullar og annarra búsafurða skal þess gætt að velferð dýra sé ekki misboðið í framleiðsluferlinu. Því er lögð áhersla á að búfé geti notið sem best eðlislægs atferlis, innan húss sem utan. Þá verði þeim sem hirða um búfé tryggt gott vinnuumhverfi.

Hugmyndafræðileg tengsl við önnur alþjóðasamtök

Sú hugmyndafræði sem starfsemi IFOAM byggist á, og endurspeglast í framangreindri skilgreiningu á lífrænum landbúnaði, svo og í grunngildum hans, eru að hluta til sameiginleg markmiðum með a.m.k. tveim öðrum alþjóðasamtökum, Slow Food  og Vistræktarhreyfingarinnar (The Permaculture Movement). Slow Food hefur verið starfandi hér á landi frá því um aldamót en Vistræktarhreyfingin á seinni árum. Virðing fyrir lífríki og umhverfi og uppbygging sjálfbærra samfélaga er þeim öllum sameiginleg. Höfundur telur að hægt væri að móta fyrirmyndar landbúnaðarstefnu í sátt við umhverfið, þar sem saman færu bæði sjónarmið bænda og neytenda, með því að nýta það besta úr hugmyndfræði þessara þriggja samtaka.  Á meðal heimsþekktra einstaklinga sem hafa virk tengsl við  bæði IFOAM og Slow Food, og hafa m.a. komið fram á ráðstefnum hjá þeim, eru dr. Vandana Shiva sem hefur m.a. staðið að langtímarannsóknum og fræðslu í lífrænni ræktun í Navdanya á Indlandi og Karl prins af Wales sem um langt árabil hefur rekið fjölþættan lífrænan búskap á Duchy Home búgarðinum í Englandi.

Höfundurinn, dr. Ólafur R. Dýrmundsson (oldyrm@gmail.com), var landsráðunautur Bændasamtaka Íslands í lífrænum búskap um 20 ára skeið (1995-2015). Hann hefur verið fulltrúi Íslandsdeildar ESB-hóps IFOAM um 17 ára skeið ( síðan 2003) en Evrópuhópurinn er með skrifstofu í Brussel í Belgíu.