Á síðasta ári skilaði skýrsluhöfundur inn skýrslu undir heitinu Aðlögun að lífrænum framleiðsluháttum – úttekt á fyrirkomulagi vottana um lífræna framleiðslu hérlendis og í nágrannalöndunum, þar sem borin eru saman skilyrði til lífrænnar grænmetisframleiðslu hérlendis og í nágrannalöndunum. Í ljós kom að ýmsir þættir gera það að verkum að Ísland hefur dregist aftur úr nágrannaþjóðum sínum þegar kemur að lífrænni ræktun grænmetis. Hér verður tæpt á nokkrum þeirra og bent á möguleika til úrbóta
Það er ljóst að Íslendingar eru eftirbátar þegar kemur að lífrænni ræktun og eru nokkrar ástæður fyrir því. Á meðan hérlendis eru tæp 2% heildarlandbúnaðarlands vottaðir til lífrænnar ræktunar eru hlutföllin ívið meiri á hinum Norðurlöndunum. Svíar tróna á toppnum með Svíþjóð 20,4%, Finnar með 13,5%, Danir með 10,9% og síðan Noregur, sem er næst okkur, með 4,6%. Evrópusambandið stefnir að því að ná 25% hlutfalli fyrir vottað lífrænt landbúnaðarland fyrir árið 2030 en Evrópa er annar stærsti markaður heimsins með lífrænar vörur.
Tiltölulega fáir framleiðendur stunda ræktun á lífrænt vottuðu grænmeti í gróðurhúsum á Íslandi, mun færri hlutfallslega en til dæmis í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Aðgengi að ýmsum nauðsynlegum aðföngum til lífrænnar framleiðslu er mun greiðara erlendis og kann það að skýra muninn að sumu leyti, og stjórnvöld þar hafa á ýmsan hátt stutt við þá framleiðendur sem hyggjast hefja lífrænan búskap. Stuðningur sem mætti að öllum líkindum vera meiri hérlendis.
Ýmsar hindranir eru í vegi fyrir lífrænni ræktun hér á landi en við sumum þeirra er þó auðveldalega hægt að bregðast. Aðgengilegur hálmur er af skornum skammti en hann er notaður er til jarðgerðar. Lífræn býli í garðyrkju hafa takmarkaðan aðgang að eigin húsdýraáburði til jarðgerðar. Fylgja þarf ESB-reglugerð og hún er ekki nógu vel kynnt enn þá. Dreifingaraðilar grænmetis sýna lífrænt vottaðri vöru takmarkaðan áhuga og sumir framleiðendur í hefðbundinni ræktun kynna sína vöru sem „næstum lífræna“ – sem er afar óheppilegt. Lífrænir framleiðendur hafa ekki náð að afla sér nægilegra upplýsinga um stöðu mála í nágrannalöndum en mikill ávinningur væri af því að hafa betra upplýsingaflæði milli landanna.
(Fleiri greinar bíða birtingar upp úr skýrslunni)
Erla Hjördís Gunnarsdóttir