Sunnudaginn 18. september var fyrsti lífræni dagurinn haldinn á Neðra Hálsi í Kjós. Viðburðurinn var skipulagður af neytendum og sjálfboðaliðum í samráði við VOR (Verndun Og Ræktun), sem er félag lífrænna bænda og framleiðenda, og Lífrænt Ísland, lifraentisland.is. Haldin var íslensk matarveisla, eingöngu úr lífrænum íslenskum hráefnum og var vel sótt af gestum.
Markmiðið með deginum var að vekja athygli á lífrænni ræktun á Íslandi og þeim vörum sem verið er að rækta lífrænt á Íslandi. Ísland er langt á eftir mörgum Evrópuþjóðum þegar kemur að lífrænni ræktun en aðeins um 1,0% ræktaðs lands á íslandi er ræktað með lífrænum aðferðum. Lífrænu bændurnir eru aðeins um 30 af 3.000. Sú tala hefur nánast staðið í stað í áratugi og ekki fylgt þeirri aukningu sem er að eiga sér stað í nágrannalöndum.
Frábært starf íslenskra bænda í lífrænni ræktun
Anna María Björnsdóttir fékk hugmyndina að deginum en hún, ásamt, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur, hafa unnið að gerð heimildarmyndar um lífræna ræktun um nokkurt skeið og áætlað er að komi út á næsta ári.
„Við höldum daginn í samstarfi við VOR til að vekja athygli á þessu frábæra starfi hjá íslenskum bændum í lífrænni ræktun. Markmiðið er síðan að dagurinn verði árlegur, þriðji sunnudagurinn í september og að draga alla að borðinu sem tengjast þessum málaflokki. Þetta var dásamlegur dagur í alla staði og eitt skref af mörgum til að vekja fólk til vitundar um vað lífræn ræktun er. Við erum ákaflega þakklátar öllum þeim sem lögðu þessu lið og útveguðu hráefni,“ segir Jóhanna Vilhjálmsdóttir, rithöfundur og fyrirlesari og bætir við:
„Lífræna vottunin er eina kerfið sem við getum treyst á og það auðveldar neytendum að versla vörur sem eru framleiddar í sátt við náttúruna. Draumurinn er auðvitað að allt sem verður framleitt í framtíðinni verði gert á þennan hátt, með aðferðum sem vinna með náttúrunni svo ekki þurfi að votta lengur. Það vantar í kerfið hér heima samtal og strúktur um þessa tegund ræktunar eins og er til dæmis í Danmörku, sérstaklega til að auðvelda nýjum aðilum að koma inn. Þess vegna var ánægjulegt að matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, mætti á viðburðinn og enn meira tilefni til að koma saman og fagna nýlegu útspili hennar, að láta gera aðgerðaráætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu hérlendis.“