Af hverju lífrænn neytandi?

Ein ástæða þess að ég er lífrænn neytandi eru e-efnin. Einungis 53 e-efni eru leyfð í lífrænt vottuðum vörum af 396 e-efnum sem verið er að nota í mat almennt í Evrópusambandinu. Það eru því aðeins 53 e-efni sem eru talin nógu örugg til að hafa í lífrænum vörum.

Ég kynnti mér nýlega nokkur e-efni, fór að lesa utan á vörur og fletta upp e-númerum. Þar komu nokkur upp sem ég vil forðast alveg sérstaklega eins og tartrasín og sólsetursgult FCF sem ekki eru leyfð í lífrænt vottuðum vörum. Framleiðendum er skylt að skrifa viðvörun á vörur þar sem þessi efni eru notuð þar sem stendur: “Litarefnin geta haft neikvæð áhrif á athafnasemi og eftirtekt barna”. Ég hef því lítinn áhuga á að börnin mín séu að borða þessi efni.

Ég fann vörur með þessum innihaldsefnum inni í skáp hjá mér eins og poppsalt og matarlit sem ég notaði í kökur. Ég hætti að nota þessar vörur og hef síðan þá þurft að hafa ansi mikið fyrir því að gera afmæliskökur fyrir börnin mín. Eitt árið var beðið um skærgræna krókódílaköku. Ég er ekki færasti kökugerðalistamaður en ég ákvað að reyna. Ég sauð lífrænt spínat í potti og síaði og sauð og síaði og eftir töluvert umstang var loksins hægt að lita kremið – sem fékk svona örlitla græna slikju. Sonur minn var sem betur fer hæstánægður með kökuna þrátt fyrir það. Svo var beðið um Ironman-köku. Það var aðeins auðveldara, ég sauð lífrænar rauðbeður og síaði litinn frá og sú kaka varð nokkuð rauð á litinn – samt ekki eins og á ljósmyndinni af sambærilegri köku sem við höfðum fundið á netinu. En hún hefur líklega innihaldið svipuð litarefni. Það versta við þetta er að þessi litarefni hafa engan annan tilgang en útlitslegan.

Roedbeder

Manneskjur dragast almennt að skærum litum í náttúrunni, við hrífumst t.d. flest af blómum í skærum litum eða dýrum í skærum litum. En þegar verið er að bæta þessum efnum í mat sem við erum að gefa börnunum okkar, bara fyrir útlitið og ekki verið að setja hreinleika vörunnar í fyrsta sæti þá stendur manni ekki alveg á sama. Sérstaklega þar sem mikið af þessum litarefnum eru notuð í mat eða sælgæti sem er markaðssett fyrir börn. Ég hef prófað að bera saman lífrænt vottað sælgæti eins og hlaup og annað sælgæti og oft sést mikill litarmunur. Það lífrænt vottaða er oftast með aðeins fölari liti enda litað t.d. með rauðbeðum, curcumin eða spínati.

Vitandi núna hver áhrifin geta verið af þessum litarefnum sem ég nefndi í byrjun vil ég frekar velja lífrænt vottað sælgæti ef ég á annað borð er að kaupa sælgæti. Því eins gaman og það var að fara í gegnum allan mat sem ég átti í skápunum, fletta upp öllum e-efnum og lesa um áhrif þeirra, skaðsemi eða hugsanlega skaðsemi þá sá ég á ég fljótt að það var einfaldara bara að velja lífrænt vottaðar vörur því þessi efni eru bönnuð í þeim vörum og það er strangt eftirlit með því. Það sparar mér því töluvert ómak að velja lífrænt vottaðar vörur til að forðast þessi e-efni.

Annam
Höfundur greinarinnar er Anna María Björnsdóttir, lífrænn neytandi