Aðalbjörg Þorsteinsdóttir, eigandi Villimeyjar hefur framleitt lífrænt vottuð smyrsl og krem úr íslenskum jurtum frá árinu 1990. Hún segir það hafa verið lykilatriði strax frá byrjun að fá lífræna vottun á vörurnar sínar en í dag eru níu vörunúmer sem koma úr smiðju Villimeyjar sem stefnir á útflutning.
„Vörurnar eru allar handunnar frá upphafi til enda og hafa verið á markaði frá árinu 2005. Þær hafa margsannað virkni sína en það hafa til dæmis virknirannsóknir frá Matís sýnt. Vörurnar eru lífrænt vottaðar án allra rotvarnar-, ilm-, og litarefna en smyrslin og kremin innihalda náttúrulega rotvörn sem kemur frá jurtunum,“ útskýrir Aðalbjörg.
Bestu eiginleikar og virkni
Áhugi Aðalbjargar á jurtum og áhrifamætti þeirra vaknaði snemma en frá blautu barnsbeini hafði hún trú á töframætti jurtanna. Hún hefur þróað uppskriftir sjálf en þær eru sóttar í hefðir og sögusagnir ásamt verkkunnáttu sem gengið hefur mann fram af manni á Íslandi öldum saman.
„Við búum hér í stórbrotinni náttúru Vestfjarða og hér eru náttúrulegar auðlindir allt í kringum okkur. Ég gæti þess að velja villtar jurtir sem vaxa í næringarríkum jarðvegi og fái hreint loft og tært vatn þannig að ég fái bestu eiginleika og virkni úr jurtunum,“ segir Aðalbjörg og bætir við:
„Við höfum vaxið jafnt og þétt og erum komin með marga söluaðila. Við erum aðeins að þreifa fyrir okkur í útflutningi sem er mjög spennandi og þar horfum við á Þýskalandsmarkað. Löngunin er einnig sterk í vöruþróun en það fer gríðarlega mikill tími í allt það sem fyrir er svo þetta kemur allt saman með tíð og tíma.“