Allar vörur grænmetissjoppunnar seldust upp

Bændurnir á garðyrkjustöðinni Sólbakka á Ósi í Hörgársveit opnuðu litla lífræna grænmetissjoppu heima á hlaðinu á þessu ári þar sem er sjálfsafgreiðsla og opið var á meðan birgðir entust. Viðbrögðin létu ekki á sér standa.
„Þetta hefur gengið rosalega vel en við opnuðum í byrjun ágúst og seldum þar til grænmetið kláraðist. Við seljum allt hér heima nema hluta af gulrótunum sem fara í Samkaupsverslanir á Norðurlandi,“ útskýrir Sunna Hrafnsdóttir, bóndi og einn eiganda Sólbakka.

Sh blomkal 1

Markmiðið að rækta lífrænt

Sunna keypti jörðina með fjölskyldu sinni og móður, Nönnu Stefánsdóttur árið 2016 en þau fengu lífræna vottun tveimur árum síðar.
„Við keyptum jörðina með því markmiði að rækta lífrænt grænmeti. Mamma mín útskrifaðist sem garðyrkjufræðingur úr Garðyrkjuskólanum árið 1983 en þetta var búið að vera draumur hennar lengi að eignast jörð og rækta. Ég smitaðist af henni og fór á lífrænu brautina í Garðyrkjuskólanum þar sem ég útskrifaðist árið 2018,“ segir Sunna og bætir við:
„Þetta eru í heildina hátt í 13 tonn sem við framleiðum en þar af er stærstur hlutinn gulrætur en einnig rófur, hnúðkál, spergilkál, blómkál, rauðrófur og kartöflur ásamt plómum og jarðarberjum. Síðan ætlum við að bæta í á næsta ári og erum búin að setja niður hvítlauk og sellerí. Þetta hefur gengið mjög vel hjá okkur og það er hentugt að sameinast um búreksturinn en þar að auki er maðurinn minn smiður svo hann sér um allar viðgerðir og viðhald. Síðan ákváðum við að opna sjoppuna í sumar vegna nálægðar við þjóðveginn en hér er mikil umferð fram hjá þar sem við erum á milli Akureyrar og Dalvíkur.“

Img 3449