Elínborg Erla Ásgeirsdóttir keypti jörðina Breiðargerði í Lýtingsstaðahreppi árið 2015 og hefur stundað lífræna ræktun grænmetis ásamt því að framleiða fjölbreyttar sælkeravörur þar sem hún vinnur með hráefni sem til fellur við ræktunina.
„Ég er alin upp í sveit á sauðfjárbúi og hef alltaf haft áhuga á garðyrkju. Ég var í tvö haust í vinnu í Akurseli í Öxarfirði og þar má segja að áhugi minn á útiræktun hafi kviknað. Ég hef alltaf unnið út frá því að rækta lífrænt, það kom aldrei neitt annað til greina enda trúi ég því að lífræn ræktun sé betri bæði fyrir okkur og umhverfið,“ segir Elínborg en hún útskrifaðist frá Garðyrkjuskólanum á Reykjum vorið 2020 með sérhæfingu í lífrænni ræktun.
Grænmeti og hindber á boðstólum
Þegar Elínborg keypti Breiðargerði var ekki búskapur á jörðinni og engin útihús til staðar. Hún hefur ein staðið að uppbyggingu og þróun jarðarinnar. Í dag er hún með þrjú bogahús undir ræktunina.
„Þetta er heljarinnar vinna og margt eftir en þetta potast allt saman. Ég er enn að átta mig á jafnvæginu í búskapnum en hef fulla trú á að það komi með meiri tíma og reynslu. En ég er líka svo heppin að eiga stóra fjölskyldu sem býr hér í nágrenninu og ég get hóað í ef mig vantar aðstoð með aðkallandi verk. Það er mikill kostur. “
Síðastliðið sumar var fyrsta heila sumar Elínborgar með lífræna vottun og ákvað hún að setja upp heimasölu til að koma ræktuninni út.
„Heimasalan fór ekki í gang fyrr en seint í haust og gekk mjög vel. Þetta er í raun snilldarlausn og fólki fannst mjög skemmtilegt og mikil stemning að græja þetta svona. Það er töluverð breidd í vöruúrvalinu, gulrætur, rófur og allskonar káltegundir ásamt sælkeravörunum. Ég er ekki með mikið magn af neinu og það gengur vel. Ég var í fyrsta sinn með hindber til sölu í sumar en á eftir að fá lífræna vottun á þau því það ferli tekur þrjú ár. Núna er síðan vinna við að undirbúa næsta tímabil og ég er alltaf í einhverri vöruþróun sem mér finnst mjög skemmtilegt,“ segir Elínborg.