Ný alþjóðleg rannsókn, sem framkvæmd var á meistaranemum í landbúnaðarfræðum á Krít á Grikklandi, hefur leitt í ljós að hefðbundið Miðjarðarhafsmataræði jók verulega neyslu á skordýraeitri á sama tíma og neysla á lífrænum matvælum leiddi til verulegrar lækkunar eða allt að tíu sinnum minni inntöku á skordýra- og sveppaeitri ásamt illgresiseyði.
Með því að nota einstaka, nýja íhlutunarrannsókn, bar alþjóðlegt teymi sérfræðinga, undir forystu Carlo Leifert, prófessors við Southern Cross háskólann í Ástralíu, í samstarfi við Háskólann í Osló og Chris Seal, prófessors við háskólann í Newcastle í Bretlandi, saman áhrif heilbrigðs mataræðis (Miðjarðarhafs) við venjulegt vestrænt mataræði þar sem einnig voru borin saman áhrif hefðbundinna framleiddra matvæla við lífræn matvæli, framleidd í Miðjarðarhafinu, með tilliti til heilsufarsáhrifa.
Lægra magn skordýraeiturs
Rannsóknin stóð í fimm vikur. Annar hópurinn neytti hefðbundins Miðjarðarhafsfæðis en íhlutunarhópurinn neytti sömu fæðu sem var eingöngu úr vottuðum lífrænum matvælum frá sama svæði. Fyrir og eftir íhlutunartímabilið neyttu allir þátttakendurnir hefðbundinnar vestrænnar fæðu, en samkvæmt matardagbókum þeirra, var lítið af ávöxtum, grænmeti og víni á matseðlinum.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar, sem birtar voru í The American Journal for Clinical Nutrition voru eftirtaldar:
- Að skipta úr „vestrænu“ mataræði yfir í Miðjarðarhafsmataræði með mikilli ávaxta- og grænmetisneyslu leiddi til meira en þrefalt meiri heildarinntöku skordýraeiturs og lífrænna fosfata.
- Hefðbundnir ávextir, grænmeti og heilkorn eru mikilvægustu fæðugjafar fyrir tilbúið efnafræðilegt skordýraeitur.
- Framleiðsluaðferðir lífrænna matvæla leiddu til talsvert lægra magns skordýraeiturs (þar á meðal skordýraeiturs, sveppaeiturs og illgresiseyðis).
- Neysla Miðjarðarhafsfæðis úr hefðbundnum matvælum leiðir til 10 sinnum meiri heildarneyslu skordýraeiturs en Miðjarðarhafsfæðis eingöngu úr lífrænum matvælum.
Hollara mataræði fyrir heilsuna
Chris Seal, prófessor við Newcastle háskóla sagði eftirfarandi í lok rannsóknarinnar: „Þessi rannsókn gefur skýrar vísbendingar um að bæði mataræði okkar og hvernig við framleiðum mat getur haft áhrif á útsetningu fyrir tilbúnu efnafræðilegu skordýraeitri og að lokum heilsu okkar.„
Prófessor Carlo Leifert, forstöðumaður lífrænu rannsóknarmiðstöðvarinnar hjá Southern Cross háskólanum í Ástralíu sagði jafnframt: „Mörg tilbúin skordýraeitur sem fundust bæði í matar- og þvagsýnum í rannsókninni staðfesta þann grunn um að finna megi innkirtlaskemmandi efni ásamt því að 10 sinnum meiri útsetning varnarefna er frá hefðbundnum matvælum, sem getur gefið skýringu á minni tíðni ofþyngdar/offitu, efnaskiptaheilkennum og krabbameini, sem tengjast mikilli neyslu lífrænna matvæla í faraldsfræðilegum hóprannsóknum.
Prófessor Per Ole Iversen við háskólann í Osló sagði: „Það eru vaxandi vísbendingar í gegnum athugunarrannsóknir að heilsufarslegur ávinningur af aukinni neyslu á ávöxtum, grænmeti og heilkorni sé að hluta til lægri vegna meiri útsetningar á skordýraeitri sem tengist þessum matvælum. Rannsóknin okkar sýnir að neysla á lífrænum matvælum gerir neytendum kleift að breyta yfir í hollara mataræði, án aukinnar neyslu skordýraeiturs.“