Í september 2022 undirritaði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra samning við ráðgjafafyrirtækið Environice um gerð tillagna að aðgerðaáætlun fyrir eflingu lífrænnar framleiðslu.
Environice hefur nú skilað tillögum sínum til matvælaráðherra og byggja þær á samtölum við fjölmarga hagaðila. Tillögurnar taka að auki mið af annarri stefnumótun íslenskra stjórnvalda og styðjast við sambærilega stefnumótun á Norðurlöndunum og á vettvangi Evrópusambandsins. Tillögurnar eru alls 31 og dreifast á sjö málaflokka. Hver málaflokkur snýr að tilteknum hluta virðiskeðju lífrænna matvæla eða þeim innviðum sem nauðsynlegir eru fyrir styrk keðjunnar.
Áætlunin er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar þar sem áhersla er lögð á öfluga íslenska matvælaframleiðslu. Þar er jafnframt tilgreint að tímasett áætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu sé lykilþáttur í að auka sjálfbærni íslensks landbúnaðar, eftirspurn eftir vottuðum lífrænum vörum fari vaxandi bæði innanlands og utan.
Stjórnvöld í nágrannalöndum, þ.á.m. framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hafa sett sér markmið um aukna hlutdeild lífrænna afurða, bæði í landbúnaðarframleiðslu landanna og á neytendamarkaði. Efling lífrænnar framleiðslu hérlendis er því liður í að styrkja samkeppnisstöðu Íslands, auk þess sem lífrænar aðferðir viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika í jarðvegi og eru hluti hringrásarhagkerfisins.
Tillögurnar hafa verið kynntar í ríkisstjórn. Í matvælaráðuneytinu verður nú unnið úr fyrirliggjandi tillögum og aðgerðaáætlun til eflingar lífrænni framleiðslu verður kynnt í framhaldinu.
Frétt af stjornarradid.is