Málþing Fagráðs í lífrænum landbúnaði var haldið á Sólheimum í Grímsnesi þann 2. mars síðastliðinn þar sem jarðvegslíf, jarðgerð og verðmætasköpun í lífrænni ræktun var til umfjöllunar. Valgeir Bjarnason, fagsviðsstjóri áburðarmála hjá Matvælastofnun, hélt þar erindi um meðhöndlun og nýtingu lífrænna efna í áburði samkvæmt nýrri áburðarreglugerð Evrópusambandsins. Reglugerðin fjallar bæði um lífrænan og ólífrænan áburð. Í framhaldinu verður reglugerðin tekin upp hér.
„Þetta snýr að lífrænum áburði ásamt vottuðum. Þetta hefur ekki verið almennilega reglusett í íslenskri löggjöf áður og hér eru að koma inn ný ákvæði er varðar þessa gerð af áburði. Það má segja að þetta sé allt nýtt, sérstaklega hvað varðar vinnslukröfur, til þess að áburðurinn geti verið markaðsvara þá þarf hann að vera vottaður með CE-vottun. Einnig er fjallað um óæskileg efni í áburði eins og þungmálma og fleiri ásamt óæskilegum óhreinindum líkt og plast, gler og málmar. Sett eru örveruviðmið, sem hafa ekki verið áður í áburðarlöggjöfinni og meira er lagt upp úr öryggi áburðarins. Þetta eru stærstu breytingarnar sem við erum að sjá í nýju reglugerðinni,“ útskýrir Valgeir.
Kemur úr hringrásarhugsuninni
Búið er að taka upp nýju áburðarreglugerðina í Evrópusambandinu en verkið er enn í vinnslu hérlendis. Til stendur að setja hana inn í EES-samninginn og í framhaldinu yrði hún sett á hér á landi.
„Þetta er orðið heitara mál en hefur verið bæði hér heima og í Evrópu, það er að minnka notkun á kemískum efnum og fara meira út í lífrænt. Þetta kemur beint úr hringrásarhugsuninni og það sem skiptir máli í þessu líka er að þetta er orðið verðmætari áburður en áður og menn eru farnir að hugsa meira um hann eftir að hafa skoðað meira moltugerð og aðra endurnýtingu,“ segir Valgeir.