Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. (Environice), skilaði tillögum að aðgerðaráætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu á Íslandi til matvælaráðherra fyrr á þessu ári. Í skjalinu eru settar fram aðgerðir í sjö málaflokkum en samtals eru tillögurnar 31 sem eru í úrvinnslu hjá ráðuneytinu og hafa ekki verið samþykktar.
Umhverfisráðgjöf Íslands bendir á að margar af tillögunum snerta starfssvið annarra ráðuneyta og stofnana en Matvælaráðuneytisins og því sé samstarf nokkurra aðila lykillinn að því að hægt verði að hrinda tillögunum í framkvæmda. Skjalið var unnið í framhaldi af áherslu sem sett var fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar árið 2021 um að móta heildstæða áætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu hérlendis.
Aðgerðaráætlanirnar eru settar fram í sjö liðum sem eru eftirfarandi:
- Aðlögunar- og rekstrarstyrkir:
- Ráðist verði í heildarendurskoðun á ákvæðum reglugerða sem gilt hafa um stuðning við lífræna framleiðslu, einkum reglugerðar um stuðning við garðyrkju nr. 1273/2020 og reglugerðar um almennan stuðning við landbúnað nr. 430/2021. Markmiðið með endurskoðuninni er að reglugerðirnar endurspegli nýtt fyrirkomulag (sjá aðgerðir 1.2-1.7 hér að neðan) og geri það sem aðgengilegast. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið.
- Í stað núverandi aðlögunarstyrkja verði boðið upp á sjö ára aðlögunarsamninga við framleiðendur sem hyggjast hefja lífræna framleiðslu. Á grundvelli þessara samninga verði veittir styrkir yfir tveggja til þriggja ára tímabil til að mæta kostnaði nýrra framleiðenda vegna lögbundinnar aðlögunar að lífrænni framleiðslu undir eftirliti vottunarstofu. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Bændasamtök Íslands.
- Auk styrkja skv. aðlögunarsamningum verði samningshöfum, sem og öðrum framleiðendum með lífræna vottun, boðnir sérstakir fjárfestinga[1]og tækjastyrkir til kaupa á sérhæfðum búnaði sem stuðlar að aukinni framlegð og bættri nýtingu lífræns áburðar, svo sem til kaupa á róbótum, niðurfellingarbúnaði til áburðardreifingar, tækjum til safnhaugagerðar o.fl. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Bændasamtök Íslands.
- Auk styrkja skv. aðlögunarsamningum verði samningshöfum boðnir sérstakir styrkir til að greiða flutning á lífrænum áburði frá aðilum utan búsins, t.d. sem nemur kostnaði vegna allt að tveggja 20 tonna bílfarma á ári. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Bændasamtök Íslands.
- Sérstakir aðlögunarsamningar verði boðnir framleiðendum sem uppfylla skilyrði reglugerða um hópvottun. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Bændasamtök Íslands.
- Sérstakir styrkir verði boðnir afurðastöðvum til að mæta kostnaði vegna lífrænnar vottunar. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Matvælastofnun.
- Við endurskoðun búvörusamninga verði gert ráð fyrir að lífrænum framleiðendum verði greitt sérstakt álag á almennar stuðningsgreiðslur með vísun til jákvæðra áhrifa framleiðslunnar á almannagæði. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Bændasamtök Íslands.
2. Aðföng:
- Úttekt á nýtingu matarleifa og annars lífræns efnis til áburðar eða fóðurs Lokið verði við yfirstandandi greiningar á mögulegri framleiðslu á áburði og fóðri sem uppfyllir skilyrði reglugerða um aðföng í lífrænni framleiðslu, bætt við frekari greiningum ef ástæða þykir til og í framhaldinu tekin ákvörðun um stuðning við lífræna áburðarvinnslu. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Matís og RML.
3. Rannsóknir, kennsla, ráðgjöf, nýsköpun og vöruþróun:
- Grunnnámskeið um lífræna framleiðslu Gerður verði sérstakur samningur við Landbúnaðarháskóla Íslands um skyldunámskeið um lífræna framleiðslu við upphaf háskólanáms við skólann. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið.
- Stofnuð verði staða prófessors á sviði lífrænnar framleiðslu við Landbúnaðarháskóla Íslands og staðan mönnuð sérfræðingi sem uppfyllir hæfniskröfur. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið.
- Tiltekinni lágmarksprósentu af framlögum til rannsókna í landbúnaði verði varið til rannsókna á sviði lífrænnar framleiðslu við Landbúnaðarháskóla Íslands undir stjórn prófessors við skólann (sbr. aðgerð 3.2). Jafnframt verði stutt sérstaklega við þátttöku skólans í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum á sviði lífrænnar ræktunar, þ.m.t. verkefnum um kolefnisbúskap og líffræðilega fjölbreytni í efstu lögum jarðvegs. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið.
- Komið verði á sérstakri námsbraut um lífræna framleiðslu á háskólastigi við Landbúnaðarháskóla Íslands. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið.
- Sérstöku fjármagni verði varið til uppbyggingar á aðstöðu til rannsókna og verklegrar kennslu í lífrænni ræktun við íslenska háskóla, vegna rannsókna í búfjárrækt, jarðrækt, útiræktun, ylrækt, fiskeldi og áburðarframleiðslu. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið.
- Sérstöku fjármagni verði varið til uppbyggingar og lagfæringa á aðstöðu til verklegrar kennslu í lífrænni ræktun við Garðyrkjuskólann á Reykjum / Fjölbrautaskóla Suðurlands. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við mennta- og barnamálaráðuneytið.
- Gerður verði nokkurra ára samningur (7 ár til að byrja með) við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) um fast árlegt framlag til uppbyggingar þekkingar sem nýtist í ráðunautaþjónustu og annarri ráðgjöf til lífrænna framleiðenda, þ.m.t. ráðgjafar um ræktun, fóðrun, búfjárhald, markaðs[1]og kynningarstarf, lög, reglur, umsóknarferli og skýrsluhald. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Bændasamtök Ísland.
- Boðnir verði sérstakir styrkir til að auðvelda heimsóknir erlendra sérfræðinga og kynnisferðir framleiðenda til að fræðast um lífrænar aðferðir og tækni í nágrannalöndum. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Bændasamtök Íslands.
- Árlega verði úthlutað sérstökum styrkjum úr Matvælasjóði til að styðja við nýsköpun og vöruþróun í lífrænni framleiðslu. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið.
- Tiltekinni lágmarksprósentu af styrkjum úr Fiskeldissjóði og Umhverfissjóði sjókvíaeldis verði beint til verkefna á sviði lífræns lagareldis. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið.
- 4. Opinber innkaup:
- Stefna ríkisins um opinber innkaup verði endurskoðuð með það að leiðarljósi að innkaup á lífrænt vottuðum vörum og vörum úr nærumhverfi fái aukið vægi, svo sem með ákvæðum um tiltekið lágmarkshlutfall lífrænnar vöru í innkaupunum og um innra verðmat sem tryggir lífrænum vörum og vörum úr nærumhverfi tiltekið forskot í verðsamanburði. Í þessu sambandi verði sett töluleg markmið um hlutdeild lífrænnar vöru í innkaupunum og sérstaklega hugað að innkaupum fyrir mötuneyti á vegum ríkisins. Jafnframt verði leitað eftir samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga varðandi hvatningu til sveitarfélaga um sambærilega markmiðssetningu og áherslur við innkaup. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneytið, Ríkiskaup og Samband íslenskra sveitarfélaga.
- Gátlistar „Grænna skrefa“ í ríkisrekstri verði endurskoðaðir með það að leiðarljósi að innkaup og framboð á lífrænt vottuðum vörum og vörum úr nærumhverfi fái aukið vægi. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytið og Umhverfisstofnun
5. Markaðsstarf, kynning og fræðsla:
- Leitað verði samstarfs við Vottunarstofuna Tún ehf. um árlega samantekt og birtingu heildartalna úr árlegum skýrslum skráðra og vottaðra framleiðenda, innflytjenda og vinnsluaðila, með það að markmiði að hlutdeild lífrænt vottaðrar vöru, innfluttrar sem innlendrar, verði þekkt á hverjum tíma. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Matvælastofnun, Vottunarstofuna Tún ehf. og Lífrænt Ísland.
- Verkefninu Lífrænt Ísland verði viðhaldið og því tryggt fjármagn til sjö ára í senn með samningi matvælaráðuneytisins við VOR. Jafnframt fái Lífrænt Ísland formlegt hlutverk sem miðstöð upplýsinga og miðlunar um lífræna framleiðslu. Eitt af fyrstu verkefnum Lífræns Íslands skv. nýjum samningi verði að safna saman og gera aðgengilega (m.a. á vefsíðu) þá þekkingu á lífrænum aðferðum sem þegar er til staðar hjá einstökum framleiðendum. Í tengslum við það verði efnt til sérstakra „raunveruleikanámskeiða“ í samstarfi við LBHÍ og RML þar sem þessari þekkingu er komið á framfæri. Sömuleiðis verði Lífrænu Íslandi falið að stuðla að öðru námskeiðahaldi ef þörf þykir að teknu tilliti til framboðs námskeiða um lífræna framleiðslu á vegum LBHÍ og RML. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Bændasamtök Íslands, VOR, LBHÍ og RML.
- Matvælaráðuneytið veiti árlega verðlaun til aðila sem þykja hafa skarað fram úr í framleiðslu, nýsköpun, vöruþróun, markaðssetningu, sölu eða kynningu á lífrænum vörum. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Lífrænt Ísland.
- Lífrænu Íslandi verði falið að standa framvegis fyrir sérstökum lífrænum degi 23. september ár hvert, eða á annarri heppilegri dagsetningu, í tengslum við Organic Day Europe. Slíkur dagur var í fyrsta sinn haldinn á Íslandi haustið 2022. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Lífrænt Ísland.
- Gert verði sérstakt átak í samstarfi við Lífrænt Ísland, landshlutasamtök sveitarfélaga og atvinnulífið til að stuðla að auknu framboði lífrænna matvæla og matvæla úr nærumhverfi í verslunum, mötuneytum og á veitingastöðum, með sérstakri áherslu á aðila í ferðaþjónustu. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Lífrænt Ísland, landshlutasamtök sveitarfélaga, Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök verslunar og þjónustu.
- Efnt verði til samstarfs við matvælaverslanir og þeim boðin ráðgjöf um markvissa framsetningu á lífrænt vottuðum vörum, þannig að þær verði sem sýnilegastar í stað þess að vera jaðarsettar í sérdeildum. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Lífrænt Ísland.
- Útbúið verði sérstakt kynningarefni og efnt til sérstakrar kynningar í samstarfi við Lífrænt Ísland á helstu merkingum matvæla, þ.m.t. merki Vottunarstofunnar Túns ehf. og merki Evrópusambandsins fyrir lífrænar vörur. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Matvælastofnun, Lífrænt Ísland, Umhverfisstofnun og Vottunarstofuna Tún ehf.
6. Önnur stefnumótun:
- Gerð verði sérstök greining á möguleikum þess að auka áherslu á lífræna framleiðslu við framkvæmd og/eða endurskoðun Byggðaáætlunar. Í því sambandi verði m.a. kannaðir möguleikar á að skapa aðstæður til lífrænnar ræktunar á leigujörðum í ríkiseigu. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Byggðastofnun, innviðaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið.
- Stefna íslenskra stjórnvalda á sviði matvælaframleiðslu, einkum stefna í landbúnaðar- og fiskeldismálum, verði rýnd sérstaklega til að greina hugsanlegar mótsagnir við þær áherslur sem fram koma í aðgerðaáætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu – og á grundvelli þeirrar greiningar settar fram tillögur um breytingar til að tryggja samræmi í stefnumótuninni. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið
7. Eftirfylgni og endurskoðun:
- Í upphafi hvers árs verði gefin út ársskýrsla um árangurinn af framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar á nýliðnu ári. Þá verði efnt til sérstaks málþings eigi sjaldnar en á tveggja ári fresti til að kynna það sem hefur áunnist og ræða æskilegar áherslur í áframhaldandi eftirfylgni. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið í samvinnu við Lífrænt Ísland.
- Aðgerðaáætlunin verði endurskoðuð eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti, í fyrsta sinn eigi síðar en fyrir 1. janúar 2026. Ábyrgð: Matvælaráðuneytið.