Danir enn á meðal þjóða með ráðandi markaðshlutdeild

Ný skýrsla frá Rannsóknarstofnun lífræns landbúnaðar (FiBL) í Sviss sýnir að Danmörk heldur áfram að vera eitt af leiðandi löndum í heiminum með háa markaðshlutdeild lífrænna vara en um 12% af landbúnaðarlandi í Danmörku er lífrænt vottað. Að sögn dönsku lífrænu samtakanna (Organic Denmark) þarf hins vegar samstillt átak frá neytendum, stjórnmálamönnum og smásöluaðilum ef halda á þessari stöðu.

Krefst sameinaðs átaks

Danir hafa í mörg ár með stolti haldið titlinum lífrænir heimsmeistarar þegar kemur að markaðshlutdeild. Þetta er enn raunin samkvæmt nýútkominni skýrslu „The World of Organic Agriculture“ frá Rannsóknastofnun lífræns landbúnaðar sem sýnir að Danmörk er meðal landa með hæstu lífrænu markaðshlutdeildina í heiminum eða 13% miðað við tölur frá árinu 2021. Metveltuár voru með lífrænar vörur árin 2020 og 2021 þegar kórónuveirufaraldurinn geisaði en salan minnkaði á síðasta ári.

„Það er enginn vafi á því að árið 2022 hefur verið krefjandi fyrir allan matvælageirann og þar með einnig fyrir þann lífræna vegna verðbólgu, orkukreppu og stríðsins í Úkraínu. Markaðurinn stendur frammi fyrir miklum vanda. Annars vegar hafa neytendur minna fé fyrir mat en fyrir ári síðan og hins vegar er enn mikil áhersla neytenda á að kaupa lífræn matvæli sem stuðla að grænum umskiptum. Að nýta þessa eftirspurn og um leið að styrkja markaðinn krefst sameinaðs átaks,“ segir Pernille Bundgård, alþjóðamarkaðsstjóri Organic Denmark.

20230508 103608


Lífrænt vex um allan heim

Samkvæmt skýrslu Rannsóknarstofnunarinnar eru Bandaríkin, Þýskaland og Frakkland áfram með leiðandi lífræna markaði á heimsvísu. Austurríki og Sviss koma fast á hæla Dana með rúmlega 11 prósenta markaðshlutdeild lífrænna vara.

„Forskot Dana er að við erum með mörg lífræn vörumerki og mikið lífrænt úrval. Við verðum að halda áfram að ná þessu með því að hlusta á kröfur neytenda, styðja við smásölugeirann og tryggja pólitískt bakland til dæmis með því að lækka virðisaukaskatt á vörur eins og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt til,“ útskýrir Pernille.

Skýrslan „The World of Organic Agriculture“ sýnir að lífræn ræktun er að vaxa um allan heim. Árið 2021 nam sala á lífrænum matvælum 125 milljörðum evra samanborið við 120 milljarða evra árið 2020. Lífrænt ræktað landbúnaðarland jókst einnig árið 2021 í 1,6% af heildarlandbúnaðarlandi á heimsvísu.

/organicdenmark.com