Lífræni dagurinn haldinn í annað sinn

Lífræni dagurinn verður haldinn hátíðlegur í annað sinn þann 16. september næstkomandi frá klukkan 13.00 – 17.00 víðsvegar um land hjá framleiðendum í lífrænni ræktun. Þá munu framleiðendur opna býli sín eða fyrirtæki fyrir gestum í sinni heimasveit eða á framleiðslustað. Á sama tíma verður haldinn opinn viðburður á Kaffi Flóru í Grasagarðinum í Reykjavík þar sem matseðill verður í boði úr lífrænt vottuðum hráefnum.

„Við bjóðum lífrænum framleiðendum sem geta og vilja að opna sín býli í sinni sveit, nú og eða fyrirtækjum og vonumst eftir góðri þátttöku framleiðenda. Þá getur hver og einn kynnt það sem verið er að gera þannig að í ár verða þetta nokkrir smærri viðburðir um allt land ásamt samstarfi við Kaffi Flóru í Reykjavík sem verður með matseðil í tilefni dagsins úr lífrænt vottuðum hráefnum. Markmiðið er að vekja áhuga á þessari tegund ræktunar og því sem er í boði. Fólk getur þá kíkt í heimsókn og séð hverju er verið að vinna að og talað beint við framleiðendur. Hver viðburður verður því með sínu sniði þar sem hver og einn framleiðandi aðlagar daginn eftir sinni framleiðslu,“ segir Anna María Björnsdóttir, verkefnisstjóri Lífræna dagsins.

Tilkynnt verður á næstu vikum hvaða framleiðendur verður hægt að heimsækja á lífræna daginn og hvetjum við því alla áhugasama um að fylgjast með á Facebook-síðu heimasíðu Lífræns Íslands, Facebook-síðunni ásamt Instagram.