Að sögn Sigurpáls Ingibergssonar, gæðastjóra hjá ÁTVR, er markmið þeirra, ásamt áfengiseinkasölum á Norðurlöndunum að meirihluti vöruframboðs sé vottað af þriðja aðila. Íslenskum framleiðendum hefur verið bent á markmiðið því allar rannsóknir sem ÁTVR hefur látið gera fyrir sig sýna að vottun sé lykill að eflingu líffræðilegs fjölbreytileika og dragi úr ógn loftslagsbreytinga. Lítið er framleitt hérlendis af vottuðum áfengum drykkjarvörum, þróunin er hæg en í rétta átt.
„Vottaðar vörur styðja við líffræðilegan fjölbreytileika en í sameiningu vinnum við einkasölur á Norðurlöndunum eftir þremur kjörorðum sem eru loftslagsmál, líffræðilegur fjölbreytileiki og vatn. Það er frekar fátæklegt úrvalið af innlendum lífrænum eða vörum vottuðum af þriðja aðila framleitt á Íslandi í vöruúrvali Vínbúðanna. Aðeins Og natura Organic Vodka frá Og natura fellur undir þann flokk,“ útskýrir Sigurpáll.
Íslenskir framleiðendur jákvæðir
Um sex prósent vörusafns Vínbúðanna er lífrænt vottað eða tæplega 300 vörur af rúmlega fjögur þúsund. Þar að auki eru 28 vörunúmer undir flokknum lífefld, 159 með sjálfbæra vottun og 12 vörur sanngjarnt framleiddar. Af 611 tegundum af bjór sem Vínbúðin selur eru einungis 10 lífrænt vottaðar tegundir í boði, enginn þeirra er framleiddur á Íslandi.
„Það eru um 10% vörusafnsins með vottun frá þriðja aðila. Markmiðið er að meirihluti vöru verði með vottun frá þriðja aðila árið 2030. Við erum að vinna að því að taka saman vottaðar vörur í sérstakan flokk til að auðvelda viðskiptavinum að nálgast sjálfbærar vörur. Ströng reglugerð frá Evrópusambandinu til að koma í veg fyrir grænþvott hefur áhrif hugtakanotkun s.s. hvernig má skilgreina sjálfbærar vörur. Í þeim flokki yrðu lífræn, lífefld, sjálfbært vottuð og sanngjörn vara ásamt umbúðum,“ útskýrir Sigurpáll og bætir við:
„ÁTVR mun ekki ná þessum markmiðum nema íslenskir framleiðendur fari að framleiða vottaða vöru. Til þess þarf hugarfarsbreytingu hjá framleiðendum og neytendum. Einnig öflugan stuðning frá yfirvöldum. Framleiðendur á Íslandi eru jákvæðir fyrir að skoða það að framleiða vottaðar vörur. Við höfum þrettán ára gamalt dæmi þar sem Víking Ölgerð á Akureyri fékk fyrst íslenskra ölgerða lífræna vottun frá vottunarstöðinni Tún en það sýnir okkur að þetta er hægt hér á landi.“
Hugsa alla keðjuna á umhverfisvænan hátt
ÁTVR hefur þróað kerfi með áfengiseinkasölum á Norðurlöndum síðastliðin tíu ár til að taka út vottanir, lífrænar og sjálfbærar með því markmiði að draga úr kolefnislosun um 50% fram til ársins 2030. Nú þegar hafa 34 vottanir þriðja aðila verið viðurkenndar hjá fyrirtækinu.
„Markmiðið með þessu samnorræna kerfi er að hugsa alla keðjuna á umhverfisvænan hátt, það er að allt ræktun, framleiðslu og umbúðum varanna til flutnings á drykkjum ásamt ferðir viðskiptavina til og frá verslunum. Ef skoðaðar eru kannanir kemur í ljós að neytendur á Norðurlöndunum eru mun meðvitaðri um kosti lífræns vottaðs matar en sem dæmi horfa um 75% neytenda í Svíþjóð til vottaðra merkja,“ segir Sigurpáll og talið berst enn frekar að þeim verkfærum sem hægt er að nota til að efla vitund neytenda:
„Við vinnum út frá þremur hugtökum eins og áður var komið inn á en það eru loftslagsmál, líffræðilegur fjölbreytileiki og vatn. Við höfum beðið um rannsóknir og úttektir á þessum þremur stoðum en það besta sem við getum gert til að efla líffræðilegan fjölbreytileika er að hvetja neytendur og framleiðendur til að fara út í vottaða vöru. Við höfum sett markmið að hvetja neytendur til að geta haft það sem við köllum Sjálfbært val en inni í því er lífræn og lífelfd vara ásamt sjálfbærum vottunum og sanngjarnri framleiðslu ásamt vistvænum umbúðum.“
Frá víngerðinni Pago De Carraovejas í Ribera Del Duero héraðinu á Spáni þar sem bændurnir vinna að því að fá lífræna vottun en skilgreina sig sem lífeflda framleiðslu þar sem stundaður er endurnýjanlegur landbúnaður. Á undanförnum árum hefur orðið kleift að rækta vínvið í norðurhlíðum landssvæðisins sem var ekki hægt fyrir 20 árum síðan.
Þarf meiri stuðning frá stjórnvöldum
Fyrir utan samnorræna verkefnið hefur ÁTVR þróað hjá sér kerfi til að flokka og meta allar vörur sem koma inn til fyrirtækisins til að koma í veg fyrir að búin séu til græn merki á vörur erlendis án þess að nokkuð sé á bakvið þau.
„Það er alveg vitað að lífrænn jarðvegur bindur miklu meira kolefni og það er allt heilbrigðara í kringum það. Einn angi þess er endurnýjanlegur landbúnaður (e.regenerative farming), sem mjög margir eru að stefna í og sérstaklega í vínrækt. Þeir sem tala niður lífræna ræktun bera því við að mun stærra landssvæði þurfi til þess en sem dæmi þá heimsótti ég vínbændur í Torres í Katalóníu á Spáni fyrir stuttu og þeirra upplifun er að það er jafnvægi í notkun á landssvæði í hefðbundinni eða lífrænni ræktun svo þar er jákvæð reynsla sem sýnir okkur að þetta er allt saman hægt.“
Umræðan berst að íslensku umhverfi og hvaða leiðir sé hægt að fara hérlendis til að hvetja bæði framleiðendur og neytendur í átt að Sjálfbæru vali.
„Í dag er áskorun hversu fáir íslenskir framleiðendur hafa vottað sínar vörur. Ástæðurnar eru eflaust margar en ein af þeim er eflaust að við sem neytendur erum ekki að hugsa nóg í þessa átt. Við höfum bent vottunarstofunni Tún á þetta og við höfum líka haft samband við íslenska framleiðendur. Við viljum að kerfið virki þannig að vottaðar vörur hafi forgang sem er okkar hvatning til að birgjar og framleiðendur komi vottuðum vörum í vöruval Vínbúðanna. Allar rannsóknir sýna að við þurfum að breyta um lífsstíl og hugsunarhátt og einn þáttur í því er að efla neytendahliðina með því að leggja áherslu á og auðvelda neytendum að finna sjálfbærar vörur. Við vitum af framleiðendum hérlendis sem eru að hugsa um að stíga skrefið yfir í lífrænt þó að framleiðsluferlið sé dýrara. Sumir þeirra eru að hugsa sér til útflutnings og þá geta þeir lent í þeirri stöðu að þeir komist ekki í hillurnar erlendis nema vera með vottun svo það er ákveðin pressa sem er að mörgu leyti jákvæð fyrir umhverfið og neytendur,“ útskýrir Sigurpáll.