„Viðtökurnar framar vonum“

Lífræni dagurinn var haldinn í annað sinn laugardaginn 16. september og er samdóma álit þeirra sem að honum komu að afar vel hafi tekist til. Fjögur býli víðsvegar um landið opnuðu dyr hjá sér fyrir gesti og gangandi og sérstakur viðburður var haldinn á Kaffi Flóru í Grasagarðinum í Reykjavík. Anna María Björnsdóttir, verkefnastjóri dagsins var ánægð eftir afrakstur dagsins.

“Dagurinn gekk mjög vel. Við hjá Lífrænu Íslandi vorum á viðburðinum á Kaffi Flóru þar sem framleiðendur voru á staðnum að kynna, sýna, gefa smakk eða selja sínar vörur. Framleiðendurnir úti á landi sem tóku þátt í deginum sögðu viðtökurnar framar vonum og voru duglegir að birta á samfélagsmiðlum ýmislegt af því sem fór fram hjá þeim,“ segir Anna María.

1

Nokkur erindi voru á viðburðinum á Kaffi Flóru sem vöktu athygli gesta sem þangað komu. Anna María verkefnastjóri Lífræna dagsins hélt erindi um Lífrænt Ísland verkefnið sem er samstarfsverkefni Matvælaráðuneytisins, Bændasamtakanna og VORs (Verndun og ræktun – félag um lífræna ræktun og framleiðslu), um að auka lífræna framleiðslu á Íslandi. Stefán Jón Hafstein, höfundur bókarinnar “Heimurinn eins og hann er”, hélt erindið “Vandinn við matvælakerfi heimsins”. Jóhanna Vilhjálmsdóttir, höfundur bókarinnar “Heilsubók Jóhönnu”, um áhrif eiturefna á heilsu og umhverfi hélt erindið, “Heilsan og lífrænt mataræði”. Eydís Magnúsdóttir og Rúnar Máni Gunnarson sauðfjárbændur með lífræna vottun héldu erindið “Af hverju lífrænn sauðfjárbúskapur?”. 

Svava úr gródurhúsinu í bjarkarási med smakk
2