Mikilvægur hlekkur í átt að loftslagsmarkmiðum

Á dögunum gáfu dönsku Lífrænu samtökin (Økologisk landsforening), út hvítbók á rafrænu formi þar sem meðal annars var fjallað um niðurstöður rannsókna Miðstöðvar matvæla og landbúnaðar ásamt Árósarháskóla þar í landi, sem sýna svart á hvítu að mun minni losun gróðurhúsalofttegunda er í lífrænum landbúnaði heldur en hefðbundnum.  

Það hefur verið umdeilt umræðuefni í mörg ár hvort lífrænn landbúnaður eða hefðbundinn losi meira af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. Gagnrýnendur lífræns landbúnaðar hafa oft á tíðum bent á að lífrænn landbúnaður skaði loftslagið meira vegna þess að meira land sé notað til að framleiða sama magn af mat.

Að beiðni dönsku landbúnaðarstofnunarinnar var Miðstöð matvæla og landbúnaðar (National Center for Food and Agriculture), falið að rannsaka loftslagsáhrif lífrænnar ræktunar árið 2022. Þar að auki höfðu rannsakendur við Árósarháskóla gefið út skýrslu um loftslagshagkvæmni í landbúnaði og þegar þessar tvær rannsóknir voru hafðar að leiðarljósi kom ýmislegt áhugavert í ljós. Niðurstöður sýndu að full umbreyting frá hefðbundnum landbúnaði yfir í lífrænan sé leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði þar sem mun minni losun er reiknuð á hektara í lífrænum landbúnaði. Niðurstöðurnar stafa meðal annars af því að meiri kolefnisgeymsla er í jarðvegi í lífrænni ræktun, minna áburðarmagn og yfirleitt er færra búfé í lífrænum búskap.


Upplýstari og sannari niðurstaða
Með því að taka allar breytur landbúnaðarrekstrarins og viðeigandi aðstæður sem hafa áhrif á framleiðsluformin tvö í stað þess að einblína einhliða á uppskeru á hektara er hægt að draga upplýstari og sannari niðurstöðu um loftslagsáhrif frá landbúnaði. Danska loftslagsráðið hefur staðfest að þörf sé á skipulagsbreytingum í landbúnaði og augljóst þykir að umbreyting yfir í lífræna ræktun sé ein af þeim breytingum sem verði að einblína á til að ná loftslagsmarkmiðunum.

Yfirráðgjafi og teymisstjóri loftslags og náttúru hjá Nýsköpunarmiðstöð fyrir lífrænan landbúnað í Danmörku, Julie Henriksen, segir tímabært að eyða þeirri mýtu að lífræn ræktun íþyngi loftslaginu meira en hefðbundin ræktun. „Á grundvelli niðurstaðna í skýrslu Árósarháskóla hefur ríkisstjórnin, í samkomulagi við flesta þingflokka um græn umskipti dansks landbúnaðar, einnig tilnefnt lífrænan landbúnað sem eina af leiðunum til að draga úr loftslagsáhrifum landbúnaðar. Raunverulega munu þeir tvöfalda lífrænt vottuð landbúnaðarsvæði árið 2030 og ná þannig minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda um fimm hundruð þúsund tonn. Það er augljóst að umbreyting yfir í lífrænan landbúnað er ein af þeim breytingum sem við verðum að leggja áherslu á til að ná loftslagsmarkmiðum. Það er staðreynd að einn hektari í lífrænni ræktun leiðir til minni loftslagsáhrifa en einn hektari í hefðbundinni ræktun.“

/Mynd; Unsplash