Stórt skref í framfaraátt

Í Morgunblaðinu í dag ritaði Erla Hjördís Gunnarsdóttir, verkefnastjóri Lífræns Íslands, grein um þau mikilvægu tímamót sem áttu sér stað í síðustu viku þegar Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, kynnti drög að aðgerðaráætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu á Íslandi. Greinin birtist hér í heild sinni:

Það voru mikil og merk tímamót á dögunum þegar matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, kynnti drög að fyrstu áætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu hér á landi. Drögin, sem eru í fjórtán liðum og finna má nú á samráðsgátt stjórnvalda, taka á mörgum þáttum og er ánægjulegt að markmið stjórnvalda sé að 10 prósent landbúnaðarlands verði vottað fyrir árið 2040.

Ljóst er að lífræn ræktun hefur ekki þróast með sama hætti hér og í nágrannalöndum okkar eða í Evrópu en fyrir því eru ýmsar ástæður. Við höfum verið eftirbátar þegar kemur að umfangi vottaðs landbúnaðarlands. Alls staðar í kringum okkur hafa stjórnvöld landa litið á lífrænar aðferðir í landbúnaði sem góða viðbót við atvinnulífið og að þær hafi jákvæð áhrif á byggðaþróun. Til þess þurfa að vera nægilegir hvatar fyrir bændur til að hefja slíka ræktun og/eða skipta úr fyrri ræktun yfir í lífrænar aðferðir. Það virðist sem skort hafi verulega á það hérlendis, bæði er varðar stuðning til bænda og fjármagn til kennslu og rannsókna. Því er aðgerðaráætlunin orðin löngu tímabær og þessum skrefum ber að fagna.


Samvinna bænda, neytenda og hins opinbera
Lífræn ræktun á Íslandi hófst að einhverju marki upp úr 1990 og í dag eru rúmlega 30 frumframleiðendur í vottuðum lífrænum landbúnaði. Fjölbreytni lífrænt vottaðra íslenskra vara eykst frá ári til árs þar sem lýðheilsa, dýravelferð og sjálfbærni eru í hávegum höfð í framleiðslunni. Þannig má finna fjölbreytt úrval vottaðra matvæla, eins og mjólkurvörur, kjöt, kornvörur, egg og grænmeti. Auk þess eru á markaði vottaðar unnar matvörur, snyrtivörur og náttúruafurðir en samtals telur geirinn á milli 80 – 90 aðila. 

Það er ánægjulegt að sjá í fyrstu drögum að aðgerðaráætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu á Íslandi að aukið vægi er sett í gagnaöflun, aðlögunarstuðning, sérstakir fjárfestinga-, og tækjastyrkir verða í boði, kannað verði að greiða sérstakt álag á almennar stuðningsgreiðslur og fleira. Einnig er lögð áhersla á auknar rannsóknir, kynningarstarf, nýsköpun, samstarf við verslanir og stóreflingu náms sem viðkemur lífrænni framleiðslu. Með aukinni fræðslu, þekkingu og nýsköpun skapast fjölmörg tækifæri og því fyrr því betra sem allar þessar aðgerðir komast til framkvæmda.

Tæplega 30 árum á undan Íslandi
Það er áhugavert að bera saman þróun hér á landi og í Danmörku en Danir eru fremstir í heiminum þegar kemur að markaðshlutdeild lífrænna vara í smásölu og í öðru sæti, á eftir Sviss, þegar kemur að neyslu lífrænna vara á hvern íbúa. Danmörk var fyrsta landið í heiminum til að setja á sérstaka lífræna löggjöf árið 1987 og árið 1990 var hinu þekkta Ø-vörumerki, komið á fót, fyrir lífrænar vörur en nánast allir danskir neytendur þekkja merkið og fyrir hvað það stendur.

Árið 1995 leit fyrsta aðgerðaráætlun stjórnvalda ljós en allar götur síðan hefur ríkt mikil og góð samstaða um áætlunina á danska þinginu. Ástæðan fyrir velgengninni í Danmörku er sú að frá upphafi hefur verið sameiginlegur vilji stjórnmálamanna að stefna í sömu átt með lífræna framleiðslu enda litið á hana sem þátt í byggðastefnu. Einnig hefur samvinna og traust milli stofnana í landbúnaði, smásöluaðila, matvælaiðnaðarins, rannsóknastofnana ásamt opinbera geiranum verið lykilatriði í velgengni Dana þegar kemur að lífrænni framleiðslu.

Dd

Tækifærin til staðar

Framþróun í lífrænni ræktun snýr að ýmsum þáttum og er óhætt að fullyrða að ný aðgerðaráætlun stjórnvalda hérlendis taki á mörgum þeirra. Fyrsta og mikilvægasta skrefið hefur verið stigið, það er, að stjórnvöld móti langtímastefnu um málaflokkinn og bæti stuðningskerfi til þess að hann nái að vaxa og dafna eins og í öðrum löndum Evrópu. Tækifærin eru sannarlega til staðar hér á landi enda hafa bændur hérlendis ýmis forskot þegar kemur að umhverfismálum og forsendum sem aðrar þjóðir hafa ekki.