Vottað land og ræktendum fjölgar á heimsvísu

Árið 2022 jókst lífrænt vottað landbúnaðarland um 20 milljónir hektara á meðan fjöldi framleiðenda jókst um rúma hundrað þúsund og telur nú hátt í fimm milljónir ræktenda víðs vegar um heiminn og hefur aldrei verið fleiri. Með þessu áframhaldi er spáð að innan skamms muni lífrænt vottað landbúnaðarland fara upp í 100 milljónir hektara.

Nýverið gáfu svissneska rannsóknarmiðstöðin FiBL og iFoam út skýrslu um tölfræði ásamt helstu stefnum og straumum í lífrænni ræktun í heiminum. Þar kemur fram að í dag er lífrænt vottað landbúnaðarland um 96 milljónir hektara og að árið 2022 fjölgaði í hópi ræktenda um hátt í 120 þúsund þar sem rúm 60 prósent starfa í Asíu, þar sem lífrænt ræktuð hrísgrjón eru mikilvæg útflutningsgrein inn á stóra markaði í Bandaríkjunum og Evrópu.

Árið 2022 jókst hlutfall lífræns vottaðs landbúnaðarlands um rúma 20 milljónir hektara og var aukningin 26,6 prósent. Í dag eru því tvö prósent af landbúnaðarlandi nýtt til lífrænnar ræktunar á heimsvísu en í Evrópu er hlutfallið rúm 10 prósent. Stærstu breytinguna má sjá í Ástralíu en samkvæmt FiBL var aukningin þar yfir 17 milljónir hektara lífrænt vottaðs lands og jókst um 49 prósent árið 2022. Að sama skapi varð þróunin þveröfug í Rússlandi þar sem lífrænt vottað landbúnaðarland fór niður um 500 þúsund hektara sama ár.

Skýrslan sýnir að lífræn ræktun eykst í öllum álfum heimsins og árið 2022 jókst að sama skapi ræktendum um rúmlega 100 þúsund sem er aukning upp á rúm tvö prósent. Flestir ræktendur eru í Indlandi, Úganda og Tælandi. Níu af hverjum tíu ræktendum stunda landbúnað utan Evrópu og flestir þeirra eru smáir í sniðum. Sex af tíu ræktendum eru í Asíu á meðan einn af hverjum tíu eru í Evrópu sem er næstmikilvægasti markaðurinn fyrir lífræna drykki og matvæli á eftir Bandaríkjunum. Þau lönd sem hafa hæsta hlutfall lífrænt vottaðs landbúnaðarlands í dag eru Ástralía, Indland og Argentína.

/Mynd: Freepik