Euromonitor International er leiðandi í markaðsrannsóknum á verðlagsþróun neytendavara og þjónustu um allan heim og spáir fyrir um framtíðarhorfur á mörkuðum með mikilli nákvæmni. Í lok síðasta árs kom út skýrsla um lífræn matvæli og nýjar leiðir til að hámarka sölu á lífrænum vörum. Þar kemur meðal annars fram að lífrænt er þriðja efsta vörumerkið sem neytendur hafa mest traust til og að versla staðbundið óx til muna í kringum heimsfaraldurinn.
Þegar kemur að vaxandi hlutdeild matvæla á matvörumarkaði spáir Euromonitor því að brauðmeti, unnir ávextir og grænmeti, jurtamjólk, ostur, brauð og álegg ásamt matvælum fyrir smábörn muni sækja í sig veðrið á næstu árum. Það sem meðal annars muni á móti fara minnkandi eru ýmis sætindi ásamt mikið unnum tilbúnum matvælum.
Neytendur í Evrópu líta á lífrænt vottaðar vörur sem heilsusamlegri, náttúrulegri og að þær séu betri fyrir umhverfið. Lífrænt er þriðja efsta vörumerkið sem neytendur hafa mest traust til á markaði á eftir staðbundnum-, og endurvinnanlegum vörum. Einföld og skiljanleg hráefni í innihaldslýsingu matvæla er mikilvægt fyrir evrópska neytendur. Um 20 prósent neytenda í álfunni eru tilbúin að greiða meira fyrir vörur sem sýna fram á náttúrulegar framleiðsluaðferðir.
Þegar neytendur eru spurðir af hverju þeir velja lífrænar vörur eru áberandi svör fólks að matvælin séu betri fyrir þau og þeim líður betur af því að neyta þeirra ásamt umhverfis-, og fæðuöryggisþáttum. Einnig kemur í ljós að neytendum er mikið í mun að vita uppruna þeirra vara sem það kaupir og neytir. Ljóst er að þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst jókst eftirspurn eftir staðbundnum matvælum til muna.
Niðurstaða Euromonitor er að lykillinn í átt að enn meiri sýnileika og úrvali lífrænna vara sé að gera lífræna ræktun að stefnumótandi forgangsverkefni í öllum Evrópulöndum þar sem staðbundin framleiðsla tryggir matvælaöryggi og varðveislu matvælaarfs hverrar þjóðar. Einnig þurfi að miðla skýrt og greinilega hvaða ávinning það hefur fyrir neytendur að velja á sjálfbæran hátt og hvaða áhrif þeir geta haft á samfélög sín en jafnframt að veita neytendum meiri athygli.
/Euromonitor International
/Mynd: Unsplash