Elínborg Erla nýr formaður VOR

Elínborg Erla Ásgeirsdóttir, bóndi í Breiðargerði í Lýtingsstaðahreppi er nýr formaður VOR – Verndun og ræktun (félag framleiðenda í lífrænum búskap og fullvinnslu) en hún var kosin í kjölfar síðasta aðalfundar félagsins. Eygló Björk Ólafsdóttir, Kristján Oddsson, Guðmundur Ólafsson og Gunnar Bjarnason halda áfram í stjórn félagsins.

„Ég er mjög spennt fyrir þessu og það eru mörg verkefni framundan. Nú er til dæmis aðgerðaáætlun í vinnslu hjá stjórnvöldum og það er mikilvægt að eiga samtal um þá framkvæmd, fylgja hlutunum eftir svo þeir komi til framkvæmda. Lífræn ræktun og framleiðsla á mjög vel við í dag, hún byggir á nútímalegri hugsun með sjálfbærni að leiðarljósi. Það er mikil umræða um þessa hluti í samfélaginu og lífræn ræktun tónar vel við stefnu stjórnvalda. Lífrænt hefur eflst undanfarin ár og eftirspurnin hefur aukist hjá neytendum. Síðan skemmir ekki fyrir að ég tek við góðu búi af fráfarandi formanni, Eygló Björk, sem hefur staðið vaktina í fjölmörg ár og sinnt því starfi með miklum sóma.“ segir Elínborg Erla, sem hefur verið í félaginu frá árinu 2018 þegar hún hóf aðlögun að lífrænum framleiðsluháttum og setið í stjórn VOR síðastliðin tvö ár.