Hærra næringarinnihald í lífrænum matvörum

Vísindamenn, undir forystu Carlo Leifert, framkvæmdastjóra Miðstöðvar fyrir lífrænar rannsóknir hjá Southern Cross University í Ástralíu, hafa komist að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa farið í gegnum 250 fræðigreinar, að lífrænt ræktað kjöt og mjólk séu hollari en sambærilegar vörur úr hefðbundinni ræktun. Fundu þeir augljósan mun á lífrænu vörunum til samanburðar við hefðbundnar er varðar fitusýrur, ákveðin mikilvæg steinefni og andoxunarefni.

Vísindamennirnir komust einnig að þeirri niðurstöðu að vestur-evrópskt mataræði inniheldur of lítið af þessum mikilvægu fitusýrum en Evrópska matvælaöryggisstofnunin EFSA mælir með að íbúar álfunnar neyti tvöfalt meira af þeim en þeir gera í dag. Að mati Chris Seal, prófessors í matvælum og næringu við háskólann í Newcastle, sem tók þátt í rannsókninni, myndi það hjálpa til muna fyrir íbúa landanna að skipta yfir í lífræn matvæli.

Hærra magn omega-3 í lífrænni mjólk

Með því að skipta yfir í lífræn matvæli myndi það auka neyslu fólks á omega-3 fitusýrum án þess að það innbyrði fleiri hitaeiningar eða neyti meira af mettuðum fitusýrum. Einn líter af lífrænni nýmjólk gefur 16 prósent af ráðlögum dagskammti omega-3 fitusýra á meðan hefðbundin mjólk inniheldur 11 prósent. Vísindamennirnir tengja góða fitusamsetningu við það að dýr í lífrænni ræktun séu meira úti á beit heldur en í hefðbundnum landbúnaði. Vísindamennirnir benda einnig á að rannsóknir sýna að þeir sem drekka lífræna mjólk og borða lífrænt ræktað grænmeti verði sjaldnar fyrir áhrifum af ákveðnum sjúkdómum og það hefur meðal annars sýnt sig að dragi úr hættu á exemi hjá börnum.

„Fólk neytir lífrænna matvæla af þremur ástæðum sem eru betri velferð dýra, betri áhrif á umhverfið og skynjaður heilsufarslegur ávinningur. En mun minna hefur verið vitað um hvað lífræn framleiðsla hefur að segja um næringarinnihaldið. Við höfum sýnt það án efa að það er munur á samsetningu lífrænna og hefðbundinna matvæla. Á heildina litið benda rannsóknirnar til þess að umskipti yfir í lífræna ávexti, grænmeti, kjöt og mjólkurvörur muni leiða til greinilega meiri neyslu andoxunarefna og omega-3 fitusýra“ segir Carlo Leifert, prófessor sem hefur leitt rannsóknina.

/Mynd: Freepik